Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 16:38:33 (7990)




[16:38]
     Svavar Gestsson :
    Hæstv. forseti. Hér hafa verið dregin fram mikil tíðindi og ég þakka hv. 16. þm. Reykv. fyrir að hafa gert það. Mér finnst það að vísu vonum seinna. Er þingmaðurinn ekki formaður Sjómannafélags Reykjavíkur enn þá? Er það ekki rétt hjá mér? ( GHall: Jú, jú.) Þetta er vonum seinna að hann skuli bera það upp með þeim hætti sem hann gerði áðan að ríkið hafi gefið ákveðin fyrirheit um greiðslu í þennan sjóð. ( GHall: Kannast þingmaðurinn ekkert við það?) Ég hef aldrei heyrt þetta áður frá hv. þm. Hvernig stendur á því að hann kom þessu ekki á framfæri fyrr? Af hverju gerði hann það ekki? Hvers lags málafylgja er það fyrir sjómannasamtökin í landinu að núna kortéri fyrir afgreiðslu málsins eins og til stóð þá skuli þingmaðurinn loksins anda því út úr sér að ríkið hafi gefið fyrirheit um fjármuni í þennan sjóð? Og hvers lags málafylgja er það líka af hv. þm. að ræða það ekki við þann sem hér stendur og þannig að reyna að efna til samstöðu um það að knýja á ríkissjóð í málinu? Það gerði þingmaðurinn ekki. Hann kaus að

fara fram með alveg óvenjulega lítið merkilegum hætti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir afar leitt til þess að vita að forustumaður sjómannasamtakanna skuli koma fram með þessum hætti eins og hv. þm. gerði hér áðan. Það er alveg örugglega rétt hjá hv. þm. sem hann sagði hér áðan að hafi ég verið spurður að því, ekki sem félmrh. heldur sem heilbr.- og trmrh., hvort greitt yrði úr ríkissjóði í þetta verkefni þá hafi ég sagt: Ég gef ekki út opna ávísun á ríkissjóð. Það hef ég aldrei gert með þeim hætti sem hv. þm. lýsti hér áðan og mun aldrei gera. Og það er ólíkt því sem er með Sjálfstfl.
    ( Forseti (VS) : Forseti verður að ónáða hv. þm. vegna þess að forseti er að lesa yfir mælendaskrá og sýnist að hv. þm. sé að tala í fjórða sinn í þessari umræðu, 3. umr. ( Gripið fram í: Það voru tvö andsvör.) Nei, umræðunni var frestað þannig að hann hafði talað tvisvar. Hann mælti fyrir nál., er það rétt?)
    Nú er þetta nokkuð erfitt fyrir forseta, því forseti er búinn að sleppa þingmanninum í stólinn þannig að spurningin er: Hvað ætlar forseti að gera við þingmanninn?
    ( Forseti (VS) : Forseti getur ekki rekið hv. þm. úr stólnum, það er ljóst, og mun ekki gera það en biður hv. þm. ef hann vildi vera svo vinsamlegur að stytta frekar mál sitt vegna þessara mistaka hjá forseta.)
    Já, hæstv. forseti, ég neyðist til að gera það vegna þess að svona stendur á. Ég hafði að vísu hugsað mér að fara allrækilega yfir þessi mál vegna þess að það hefur verið borið á mig með þeim hætti að hafa staðið að málum á tiltekinn hátt fyrir 10 eða 13 árum eða svo að mér finnst ég þurfa að bera af mér sakir. Ég segi alveg eins og er, hv. 16. þm. Reykv., mér finnst málið ekki heiðarlega flutt með þeim hætti sem hér er gert, mér finnst það óheiðarlegt. Ég hef að vísu heyrt það að ýmsir af forustumönnum Sjálfstfl. séu að láta sér þau orð um munn fara að það hafi í raun og veru verið ríkisstjórnin sem þarna hafi gefið fyrirheit og ekki hafi verið staðið við þau. Er hæstv. sjútvrh. þeirrar skoðunar að það fyrirheit hafi verið gefið til dæmis? ( Sjútvrh.: Já.) Hæstv. sjútvrh. segir hér já. Hæstv. sjútvrh. játar því að ríkisstjórnin hafi gefið þessi fyrirheit á sínum tíma, hann lítur þannig á. Af hverju stendur hann ekki við þetta fyrirheit sem sjútvrh. í núv. ríkisstjórn? ( Sjútvrh.: Af hverju stóð ekki ráðherrann við það sem . . .  ) Hvað er hann að hugsa í dag? (Forseti hringir.) Hvernig stendur á því að hæstv. núv. sjútvrh. stendur ekki við þau fyrirheit sem hann gaf? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Staðreyndin er sú, hæstv. sjútvrh., að heilbr.- og trmrh. hafði með þann hluta þessa máls að gera sem lýtur að almannatryggingalögunum og við það hefur verið staðið og verður staðið þrátt fyrir það sem hér er uppi. ( Sjútvrh.: Var það Ragnar Arnalds sem . . . ?) Hins vegar er það ljóst að við neituðum því báðir, hæstv. sjútvrh., að gefa út opna ávísun á ríkissjóð og ég tel reyndar að þessi fyrirheit hafi ekki verið gefin með þeim hætti sem hv. 16. þm. Reykv. lýsti hér áðan. En að það skuli núna koma upp á síðustu stundu málsins að hæstv. sjútvrh. telji að málið liggi svona, það þýðir það auðvitað, hæstv. forseti, að ekki er hægt að ljúka málinu á þessu þingi. Það er ekki hægt vegna þess að þetta verður að fást algjörlega á hreint og þó að undirritaður sé búinn að tala sig dauðan þá eru örugglega hér til menn sem eru tilbúnir til þess að fara í umræður um þessi mál með þeim hætti sem kallað hefur verið á af forustumönnum Sjálfstfl. núna. Það er lítilmennska að mínu mati að hæstv. sjútvrh. skuli þá ekki hafa döngun til þess að fara í stólinn. --- Er hann búinn að tala sig dauðan, hæstv. forseti? Af hverju fer hæstv. sjútvrh. ekki í stólinn og lýsir því yfir að hann muni beita sér fyrir því að tryggja fjármuni úr ríkissjóði með þeim hætti sem hann var að lýsa að fyrirheit hefðu verið gefin um? Af hverju gengur hann ekki í stólinn þegar tækifæri gefst? Hvað er hæstv. sjútvrh. að hugsa?
    Ég bendi á að það hefur verið rætt um það við mig, m.a. af fulltrúa Alþb. í efh.- og viðskn., að það verði greitt fyrir afgreiðslu málsins á þessu þingi. En hvað gerist þá? Þá koma högg undir beltið af því tagi sem koma frá hæstv. sjútvrh. og hv. 16. þm. Reykv. á síðustu stundu. Þetta er ódrengilegt. Ef hv. þingmenn Sjálfstfl. kjósa að vinna með þessum hætti þá er það þeirra vandamál en ég vorkenni öðrum samflokksmönnum þeirra sem þurfa að búa við ódrengileg vinnubrögð af þessu tagi.