Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 17:17:42 (7999)


[17:17]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég kem hér til þess að taka undir óskir um að þessari umræðu verði frestað. Ég held að hæstv. forseti hljóti að sjá það alveg í hendi sér að hér eru komnar upp gjörbreyttar aðstæður í umræðunni og samkvæmt öllum venjum sem hér hafa ríkt og sanngirnisreglum þá ber að verða við eindregnum óskum af þessu tagi, að gera a.m.k. eitthvert hlé á umræðunni þegar nóg önnur verkefni liggja fyrir á dagskrá þessa fundar og okkur er ekkert að vanbúnaði að færa okkur yfir í umræður um önnur dagskrármál. Þegar nýjar aðstæður skapast í umræðum, meintar nýjar upplýsingar koma fram, eins og hér hefur gerst, þá er auðvitað lágmarkskrafa, finnst mér, að menn fái þá a.m.k. einhvern tíma til þess að athuga slíka stöðu sem upp er komin í máli.
    Ég fer þess vegna eindregið fram á það að hæstv. forseti geri hlé á þessari umræðu um skeið og tekin verði fyrir önnur mál á dagskrá og menn beri sig svo saman um það hvernig áfram skuli með málið haldið. Ég óska eftir því að hæstv. forseti svari þessari bón minni og felli úrskurð um það hvað hann geri.