Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 18:22:07 (8011)


[18:22]
    Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni sem ræddi áðan um forkastanleg vinnubrögð hæstv. umhvrh. og það er mjög slæmt að hæstv. umhvrh. skuli ekki hafa getað verið við þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál. Þar að auki hefur hann einnig beitt sér í því að koma sjálfur inn með brtt. bæði um veiðistjóraembættið og raunar fleira, sem verður einnig að teljast ámælisvert af hæstv. ráðherra að hafa ekki látið slíkt fara inn í nefndina og vinnast þar.
    Hvað varðar það að hér sé verið að reyna að ljúka máli sem hafi verið í umræðu og vinnslu á síðustu þremur þingum þá er það vissulega rétt að þetta frv. var lagt fram á 115. löggjafarþingi og einnig á 116., en það er einnig um að kenna hv. formanni þeirrar nefndar sem þá var, sem var samflokksmaður hæstv. umhvrh., sem ekki tók málið til neinnar vinnslu. Þannig að ég vil benda bæði hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og fleirum á það að vinnslan á þessu frv. hefur fyrst og fremst farið fram í vetur. Þó að frv. hafi verið lagt hér fram fyrir þremur árum síðan þá hefur engin vinnsla farið fram á því fyrr en núna síðustu mánuði.
    Hæstv. ráðherra er enn erlendis og virðist ekki hafa mikinn áhuga á því að koma hér og fylgja því eftir, nema í gegnum síma og fax, að þetta mál sé klárað.
    Ég hef gagnrýnt það og ég vil endurtaka það að ég tel að hér séu komnar fram svo margar breytingartillögur við þetta frv., mjög margar til bóta, mjög margar bæta frv. eins og það leit út þegar það var lagt fram. En það voru hér 50--60 breytingartillögur inni við 2. umr. málsins og afgreiðslu og nú sýnist mér vera komnar a.m.k. sjö eða átta tillögur til viðbótar sem eftir er að afgreiða nú við 3. umr.
    Það er ýmislegt enn þá sem er athugavert í þessu frv., þó ég endurtaki það enn og aftur að fram hafi farið góð og mikil vinnsla í þessu máli í nefndinni. En ég vil nefna eitt rétt sem ábendingu og það er í 9. gr. frv. þar sem verið er að tala um hvernig megi fara að veiðum og þar segir, í 17. liðnum, að við veiðar sé m.a. óheimilt að nota, með leyfi forseta: ,,Vélknúin farartæki, nema báta á sjó til fuglaveiða enda gangi þeir ekki hraðar en 9 sjómílur meðan á veiði stendur.``
    Vita menn það ekki að venjulega eru notaðir hraðbátar og þeir ganga miklu hraðar heldur en 9 sjómílur? Það eru aðeins hægfara trillur sem ganga ekki meira en 9 sjómílur og þeir sem stunda einhverjar fuglaveiðar á sjó eru venjulega á hraðbátum. Þannig að ég held að það væri þá miklu réttara í þessu frv. að banna bara veiðar á sjó á hraðbátum. Það væri miklu eðlilegra heldur en að nota svona orðalag. Þetta er svona eitt dæmi um það sem mér finnst vera enn þá ábótavant í þessu frv. Menn verða að vera í takt við raunveruleikann til þess að geta unnið þetta frv. þannig að menn geti sætt sig við það að það sé svona sæmilegt tæknimál á því líka og það sé tæknilega mögulegt að samþykkja það.
    Það er eitt líka sem ég raunar gleymdi að nefna í 2. umr. um þetta mál og það er það að hér er verið að ræða um friðanir á ákveðnum tegundum, en það er ekki tekið á því ef friðaðar tegundir eins og fuglategundir valda skaða á öðrum tegundum sem eru ýmist notaðar til nytja eða eru einnig friðaðar. Og mér finnst vanta algerlega inn í þetta frv. ákvæði um að það sé tekið á því þegar um er að ræða tegundir sem Alþingi hefur ákveðið að friða algerlega og þá get ég nefnt t.d. örninn sem veldur oft verulegum skaða í æðarvarpi, sérstaklega við Breiðafjörð. Í þessu frv. er ekkert tekið á því hvort hægt sé að fara með þau mál á einhvern hátt. Það er sem sagt ekki nefnt neitt í sambandi við það með hvaða hætti eigi að taka á slíkum málum. Það er eins og þau séu ekki til. En það er eitt af því sem menn þurfa líka að vera í takt við raunveruleikann við og vita að þessir hlutir eru til.
    Ég ætla ekki að lengja neitt þessa umræðu. Ég tel enn og aftur að þó að þetta frv. sé komið til með að líta miklum mun skár út, og það þakka ég þeirri vinnu sem fram fór í nefndinni, þá finnst mér enn þá vera ýmsu ábótavant við það, bæði orðalag og ýmis ákvæði sem ég er enn ósátt við að séu þar inni. Og ég tel að þetta mál, þó það hafi tekið breytingum til bóta, þá held ég að staða málsins sé með þeim hætti að það væri eðlilegt að fresta því að þessu sinni og taka þá aftur upp þráðinn á því stigi sem það er núna og vinna það áfram í nefndinni. Og ég er alveg sannfærð um að þá tækist að ljúka því á haustþingi.