Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 18:28:41 (8012)


[18:28]
    Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég lofaði hv. þingmönnum sem hér hafa flutt fyrirspurnir að afla upplýsinga um tiltekið atriði og mér er ljúft að upplýsa menn um það, þ.e. um hugsanlegan flutning veiðistjóraembættisins út á land. Það liggur fyrir álitsgerð sem umhvrh. hefur látið semja varðandi annað mál og þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Í 2. mgr. 13. gr. stjórnarskrárinnar segir að ráðuneytið hafi aðsetur í Reykjavík, en löggjafinn er að sjálfsögðu bundinn af þessu fyrirmæli í stjórnarskránni sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands. Að öðru leyti er almenna löggjafanum það í sjálfsvald sett hvort hann ákveður staðsetningu tiltekinna ríkisstofnana með því að setja fyrirmæli um það í almenn lög. Eru nokkur dæmi þess að svo hafi verið gert, einkum þegar stofnunum er valið aðsetur utan Reykjavíkur.
    Ef almenn lög geyma engin fyrirmæli um það hvar stofnun skuli staðsett og ef engin ályktun verður heldur dregin af lögunum sjálfum eða lögskýringargögnum um vilja löggjafans í því efni er það álit mitt að ráðherrar, sem æðstu handhafar framkvæmdarvaldsins, sbr. 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar, geti ákveðið það án atbeina löggjafans. Hér verður að hafa í huga verkaskiptingu löggjafans og framkvæmdarvaldshafa þar sem almenna reglan er sú að almenni löggjafinn hefur nokkurn veginn óbundnar hendur um að gefa handhöfum framkvæmdarvaldsins fyrirmæli meðan stjórnvöld hafa á hinn bóginn tiltölulega frjálsar hendur um að taka ákvarðanir um ýmis framkvæmdaratriði er löggjafinn hefur einhverra hluta vegna látið afskiptalaus, sbr. Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson, útgáfa 1960, einkum bls. 286--287 og 335--336.
    Þegar stofnanir eða hluti þeirra hefur verið fluttur úr Reykjavík í önnur sveitarfélög hefur slíkt ýmist gerst með eða án atbeina löggjafans. Sem dæmi um hið fyrrnefnda má nefna að þegar aðalstöðvar Skógræktar ríkisins voru fluttar úr Reykjavík austur á Fljótsdalshérað var það gert með breytingu á lögum nr. 3/1955, um skógrækt. Þegar Vita- og hafnamálastofnun var flutt úr Reykjavík til Kópavogs fyrir nokkrum árum mun það hins vegar hafa gerst án lagabreytingar, en hvorki í lögum nr. 56/1981, um vitamál, né í hafnalögum, nr. 69/1984, er að finna fyrirmæli um það hvar stofnunin, sem reyndar greinist nú í tvær stofnanir, skuli vera staðsett. Þessi tvö dæmi sýna að það virðist háð nokkurri tilviljun hvort sérstakrar lagaheimildar sé aflað þegar ákveðið er að staðsetja stofnun utan Reykjavíkur.`` Síðan segir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar fjallað er um heimild ráðherra til þess að ákveða hvar einstakar ríkisstofnanir skuli vera staðsettar, þar á meðal hvort stofnun skuli flutt frá einum stað til annars, verður að greina á milli löggjafarvalds Alþingis annars vegar og fjárstjórnarvalds þingsins hins vegar. Hér að framan hefur einvörðungu verið miðað við stöðu ráðherra gagnvart hinum almenna löggjafa. Þegar flutningur á stofnun leiðir augljóslega til útgjalda sem ekki er heimild fyrir í fjárlögum verður ráðherra að leita slíkrar heimildar Alþingis.``
    Samkvæmt þessu finnst mér ljóst vera að ef flutningur stofnunar, sem ekki er tiltekið í almennum lögum hvar skuli hafa aðsetur, leiði til kostnaðar þá verði slíkur flutningur ekki að veruleika nema Alþingi afgreiði og samþykki í fjárlögum þær fjárveitingar sem til þarf. Þannig kemur málið til kasta Alþingis.
    Við þetta vil ég aðeins bæta því, virðulegur forseti, að það er að sjálfsögðu dæmi þess að starfsmenn ráðuneyta sem unnið hafa að ákveðnum málatilbúnaði fyrir hönd ráðherra sinna og hafa síðan flust til annarra starfa hafi fylgt málunum eftir á Alþingi að beiðni ráðherranna. Ég man t.d. ein tvö dæmi um það frá því að ég var starfandi heilbrrh. að skrifstofustjóri sem var í heilbrrn. og hafði undirbúið tiltekin þingmál og réðst svo til starfa annars staðar, á öðrum vettvangi, fylgdi að minni beiðni málunum eftir til Alþingis og veitti heilbr.- og trn. Alþingis upplýsingar og var ekkert við það að athuga og nefndin gerði engar athugasemdir við það. Mér er ekki kunnugt um annað en svipað fyrirkomulag hafi verið haft við vinnu fyrrv. skrifstofustjóra í umhvrn., þ.e. að hann hafi fylgt málinu eftir inn á Alþingi að ósk ráðherra og hann hafi mætt í umhvn. þingsins að ósk nefndarformanns og veitt þar upplýsingar að ósk formannsins.