Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 18:36:14 (8014)


[18:36]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Til viðbótar við það sem ég sagði í ræðu minni hér í upphafi umræðu vil ég benda á, þar sem ég gerði það ekki þá, að trillusjómenn eru auðvitað algerlega utan við rétt til Lífeyrissjóðs sjómanna og um þeirra mál er engin sátt. Þannig að ég tel enn að það þurfi að skoða þetta mál miklu, miklu betur. Það hefur komið fram að frv. hefur alls ekki verið sent til umsagnar hjá Landssambandi smábátaeigenda. Ég held því enn fram að þarna þyrfti að skoða málin betur og fresta málinu til haustsins. Komi það hér til afgreiðslu, sem auðvitað er ekki á mínu valdi að stöðva, þá greiði ég að sjálfsögðu atkvæði á móti því og mun taka þessi mál upp á hausti komanda.
    Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu nú þar sem ég hygg að það sé í allra þágu að fara að ljúka þingfundi.