Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 18:52:08 (8022)


[18:52]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Hér er komið að lokaafgreiðslu máls sem hefur átt sér mjög langan aðdraganda. Fyrir sex eða sjö mánuðum ritaði hæstv. forsrh. bréf til stjórnar Byggðastofnunar með ósk um það að þetta mál yrði sérstaklega skoðað, vandi Vestfjarða, en áður hafði stjórn Byggðastofnunar fjallað um það rækilega. Það þarf því engum að koma á óvart að þetta frv. hafi komið fram sem niðurstaða af þessari vinnu. Það hefur rækilega komið fram í þeim umræðum sem átt hafa sér stað um þetta mál, ítarlegum og málefnalegum oftast nær, sérstaða Vestfjarða og um það er ekki þörf að hafa fleiri orð. Ég tel að þetta frv. sé mjög mikilvæg viðleitni í þá átt að koma til móts við þann mikla vanda sem við er að glíma á Vestfjörðum, meiri almennan vanda á einu svæði heldur en nokkurs staðar annars staðar. Þess vegna segi ég já við þessu frv.