Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:05:13 (8029)


[19:05]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Hæstv. forseti. Við þá umræðu sem fram fór í dag um Lífeyrissjóð sjómanna hitnaði mönnum nokkuð í hamsi sem kannski má ekki teljast óeðlilegt þegar litið er til málsins og upphafs þess, sem nú er orðin ein 13 ár, varðandi þá reglu sem mjög hefur verið deilt um, þ.e. 60 ára tökurétt sjómanna á lífeyri. Það er nú svo að ég vona og mér þykir leitt ef menn hafa tekið orð mín svo óstinnt upp sem raun bar vitni um, en eins og ég sagði áðan, hafandi tekið þátt í kjarasamningum sjómanna í gegnum árin, þá er ekki óeðlilegt þó að mönnum hitni í hamsi þegar slíkt mál ber á góma sem þetta. Ég greiði atkvæði gegn þessari frávísunartillögu vegna þess að ég tel það rétt og það sé mjög í anda samtaka sjómanna að frv. fari í gegn til þess að hægt sé að setjast yfir reglugerð og gera sjóðnum það sem best er fyrir hann og sjómannasamtökin í heild.