Vandi skipasmíðaiðnaðarins

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:24:57 (8034)


[19:24]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir að biðja um þessa utandagskrárumræðu því það er nauðsynlegt áður en þingi verður slitið að það liggi fyrir hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera í þessum efnum.
    Hæstv. iðnrh. kom inn á það áðan hvað hafi verið gert. Það er rétt að það hefur nokkuð verið gert, en það er ekki nægjanlegt. Þær 40 millj. sem lagðar voru til jöfnunaraðgerða komu að gagni, en þær eru uppurnar og það vantar aðgerðir í dag. Það er þannig að flest þessara fyrirtækja hafa verið í greiðslustöðvun og greiðslustöðvunin er að renna út, hún rennur út í næsta mánuði og þá blasir ekkert annað við en gjaldþrot þessara fyrirtækja ef ekki verður gripið inn í með myndarlegum hætti.
    Hér var rætt um jöfnunartolla og það er allt gott um þá að segja, en það dugir ekki til vegna þess, hæstv. iðnrh., að lánafyrirgreiðsla erlendis til útgerðaraðila er allt önnur og betri en hér heima á Íslandi. Ef við skoðum bara Norðmenn, sem eru okkar aðalsamkeppnisþjóð í skipasmíðaiðnaði, þá niðurgreiða þeir sinn skipasmíðaiðnað um allt að 13%. Ég tel að það hljóti að vera nauðsynlegt að við gerum það sama og Norðmenn. Við komumst aldrei fram úr þessu máli nema gera það sama og samkeppnisaðilar okkar. En það er mikilvægt að það liggi fyrir núna, þegar greiðslustöðvun þessara fyrirtækja er að renna út, hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera í þessum málum. Það var ekki skýrt í svari ráðherra hér áðan.