Vandi skipasmíðaiðnaðarins

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:27:22 (8035)


[19:27]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir að hafa hreyft þessu máli hér. Það er mjög nauðsynlegt og ekki síst í framhaldi af þeirri umræðu um atvinnuleysið og afleiðingar þess sem við vorum að ræða fyrr í dag.
    Ég tel einnig að sá ráðherra sem nú fer með þessi mál, hæstv. iðnrh. Sighvatur Björgvinsson, hafi tekið með allt öðrum hætti á þessum málum hvað varðar vanda skipasmíðaiðnaðarins heldur en fyrirrennari hans gerði. Og það er rétt að menn njóti sannmælis í því því að vissulega var það mikill sigur þegar ákveðið var í ríkisstjórn með forgöngu hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að ríkisstjórnin legði fram 40 millj. kr. til þess að setja á jöfnunaraðgerðir eða jöfnunartolla. Hins vegar hefur komið í ljós að þær 40 millj. sem ákvarðaðar voru í þessu skyni duga skammt og sú krafa er mjög eðlileg að þetta sé skoðað til þess að hægt sé að halda áfram á þeirri braut að styrkja skipasmíðaiðnaðinn í landinu sem vissulega er kominn á vonarvöl. Og það verður ekki annað séð, ef ekki verður haldið áfram aðgerðum í því skyni, en þá leggist þessi fyrirtæki af. Það væri slæmt fyrir þjóð eins og Íslendinga sem byggir allt sitt á sjávarúvegi og á einn af stærstu fiskiskipaflotum í heimi. Það yrði mjög slæmt fyrir okkur ef svo lítið yrði eftir af skipasmíðaiðnaði hér að hann gæti ekki þjónað skipaflota okkar. Ég vil því vænta þess að hæstv. ráðherra muni áfram vinna að þessu máli og mér heyrðist raunar, þó að e.t.v. væri það ekki nægilega skýrt tekið fram, að hann hafi í hyggju og sé að vinna að þessu máli.