Vandi skipasmíðaiðnaðarins

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:31:23 (8037)


[19:31]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Í skýrslu þeirri sem var hér til umræðu í dag frá félmrh. um afleiðingar atvinnuleysis er þungur áfellisdómur um hæstv. ríkisstjórn og stefnu hennar í atvinnumálum, en þar segir ráðgjafarnefnd vinnumálaskrifstofu félmrn. að margt bendi til, þó skýrslan fjalli ekki um það mál, að atvinnuleysi verði viðvarandi ef ekki verði verulegar breytingar á áherslum í atvinnumálum, þ.e. áherslum ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Það er auðvitað ekki hægt að skilja þetta öðruvísi.

    Ég tel að það vanti verulega á að menn sýni fullan styrk í því að vinna að málefnum skipasmíðaiðnaðarins. Það hefur verið sannað hér í vetur með tölum svo að ekki verður um villst, og er reyndar í þeirri skýrslu sem ég nefndi áðan, að það er hægt að leggja verulega peninga í það að halda atvinnu gangandi í þessari atvinnugrein. Og það er engin spurning að það á að vera staðföst ákvörðun okkar sem Íslendinga að halda þessum iðnaði hér í landinu fyrir okkur og það á ekki að þurfa að ræða það mál sem slíkt til lengdar. Hins vegar er alltaf nauðsynlegt að ræða um aðferðirnar. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef áhyggjur af því að menn séu að bogna. Mér finnst vera of þokukennt hvað það er sem við eigum von á að gerist í framhaldi af þessari lagasetningu um jöfnunartollana. Mönnum er ekki ljóst hvernig á að nota þá fjármuni og það þarf að koma því á hreint. Það er mikil óvissa ríkjandi í þessari atvinnugrein, m.a. eru bankastofnanirnar farnar að skipta sér af atvinnugreininni og krefjast t.d. sameiningar fyrirtækja. Bankastofnanir ættu að hugsa um annað frekar en fara að stjórna fyrirtækjum í landinu og hvernig þeim er fyrir komið, hvort þau eru sameinuð eða rekin ein og sér. En þannig liggur málið í dag, það er einn vandinn sem við er að eiga að lánastofnanir ætla að fara að stjórna skipasmíðaiðnaðinum.