Vandi skipasmíðaiðnaðarins

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:33:51 (8038)


[19:33]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir að taka þetta mál hér upp. Málefni skipasmíðaiðnaðarins hafa vissulega verið á dagskrá, en það var rík ástæða til þess að vekja athygli á þeim málaflokki nú við lok þingsins.
    Það er vel þekkt að skipasmíðaiðnaðurinn hefur verið í nokkru uppnámi. Það hefur verið mjög alvarleg staða hjá mjög mörgum atvinnufyrirtækjum í þessari grein. Kemur þar til, einkum og sér í lagi, fyrir utan veika eiginfjárstöðu margra þessara fyrirtækja, mjög hörð samkeppni annars vegar og hins vegar erfið afkoma í sjávarútvegi sem hefur haft áhrif á þessi iðnfyrirtæki í skipasmíðaiðnaðinum.
    Skipasmíðaiðnaðurinn er auðvitað mikilvægur þáttur í okkar atvinnulífi, bæði sem þjónustugrein við sjávarútveginn og auðvitað ekki síður sem iðnaðarstarfsemi sem hefur verið og er og getur verið mjög atvinnugefandi. Þess vegna vil ég við þessa umræðu, virðulegi forseti, leggja mjög ríka áherslu á það við hæstv. ráðherra, iðnrh., sem fer með þennan málaflokk, og fjmrh., sem hefur verið að vinna að þessum málum einnig, að þeir leiti allra leiða til þess að treysta og tryggja þessa atvinnugrein. Hún er mjög mikilvæg fyrir okkar atvinnulíf. Á Vesturlandi eru hlutfallslega mjög margir sem vinna við skipasmíðaiðnaðinn, bæði á Akranesi og í Stykkishólmi, þannig að þetta skiptir miklu máli fyrir atvinnulífið í því kjördæmi.
    Ég vil, virðulegi forseti, leggja áherslu á að unnið verði að málum skipasmíðaiðnaðarins og vil þakka þeim hæstv. ráðherrum fyrir þau svör sem þeir hafa gefið og treysti því að þeir muni áfram vinna vel að þessum málum.