Skerðing á eingreiðslum til lífeyrisþega

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 20:01:25 (8049)


[20:01]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þessar yfirlýsingar sem hæstv. félmrh. gefur hér eru vissulega mikils virði og í anda þess sem um var rætt við afgreiðslu fjárlaga í haust. Þegar frv. var lagt fram voru þar áform um að skerða þessar eingreiðslur um 200 millj. sem átti að spara með því að afnema að hluta til eingreiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega, orlofsuppbætur, desemberuppbót og láglaunauppbót. Minni hluti í fjárln. mótmælti þessu harðlega og strax við 2. umr. fjárlaga lá það fyrir með yfirlýsingum sem við höfðum fengið frá verkalýðshreyfingunni og samtökum aldraðra og því var ekki mótmælt af formanni fjárln., að verkalýðshreyfingunni hefðu verið gefin loforð um það að fallið yrði frá þessari skerðingu. Í framsögu minni fyrir minnihlutaáliti við 2. umr. fjárlaga segi ég, með leyfi forseta:
    ,,Má þar fyrst nefna hugmyndir um að lækka eingreiðslu til lífeyrisþega um 200 millj. kr. svo sem áður er getið en síðan hefur aðilum vinnumarkaðarins verið gefið loforð um að þessar greiðslur verði svo til óbreyttar á næsta ári,`` aðeins verði farið í framkvæmdaþáttinn.

    Þessu var ekki mótmælt, ekki við 2. umr. fjárlaga og þá ekki við 3. umr. Og þegar hv. formaður fjárln. telur upp við 3. umr. fjárlaga hvernig eigi að ná fram sparnaði í lífeyriskerfinu þá voru þessar eingreiðslur hvergi nefndar í ræðunni. Hins vegar var okkur sagt að framkvæmd þessara eingreiðslna yrði tekin til athugunar, framkvæmdin. Í yfirlýsingunni frá forsrh. frá 1. nóv. segir:
    ,,Sérstaklega skal tekið fram að framkvæmd á eingreiðslum til lífeyrisþega vegna launabóta á næsta ári verður ákveðin í nánu samráði við samtök launþega og aðra hagsmunaaðila.``
    Virðulegi forseti. Ég er að ljúka máli mínu. En þar segir einnig: ,,Að því er varðar úthlutunarreglur atvinnuleysisbóta til launþega verða breytingar á þeim kannaðar í samráði við aðila vinnumarkaðarins.`` Við litum á þetta sem eitt og hið sama, framkvæmdina og svo úthlutunarreglurnar. En ekkert um greiðslurnar eða upphæðina er í þessari yfirlýsingu.