Skerðing á eingreiðslum til lífeyrisþega

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 20:11:21 (8054)


[20:11]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil í fyrsta lagi taka það fram að það er ekki farið á bak við einn eða neinn í þessu máli því að hinn 13. des. sl. var haldinn fundur með forustumönnum ASÍ og þeim var það fullljóst að starfshópur starfaði að því að gera tillögur í þessum efnum. Starfshópurinn hefur nú starfað í fimm mánuði með vitund ASÍ og forustumenn Alþýðusambandsins vissu nákvæmlega hverjar ættu að vera niðurstöðutölurnar í þessari endurskoðun.
    Ég vil einnig taka það fram að það er ekki þolandi fyrir ríkissjóð, alveg sama hvaða ríkisstjórn situr, að aðilar að kjarasamningi geti samið þannig að reikningurinn sé sendur blankó á ríkissjóð. Ég ætla að nefna dæmi. Þegar lágmarkslaunin svokölluðu voru núna með ákvörðun hækkuð á milli kjarasamninga úr 60 þús. í 80 þús., þ.e. viðmiðunin, þá tvöfaldaðist reikningurinn sem sendur var úr Tryggingastofnun ríkisins vegna þess að bætur almannatrygginga eru fyrir neðan lágmarkslaunin. Þetta getur auðvitað ekki gengið og þess vegna var það miklu eðlilegra sem ríkisstjórnin er að vinna að, að segja sem svo: Við skulum hætta að láta eldra fólkið og öryrkjana vera undir því komið hvernig semst um kaupin á eyrinni. Við skulum taka ríflegan hluta þessarar upphæðar, 370 millj. kr., hvorki meira né minna, og það er upphæð sem er hærri heldur en upphæðin var í næstliðnum kjarasamningum, og festa þessa upphæð inni í sjálfu tryggingakerfinu.
    Og ég vil ítreka það að ég lít þannig á þetta mál, þótt það sé enn eingöngu á skoðunar- og samráðsstiginu, það er hárrétt sem kom fram hjá hæstv. félmrh. að málið er enn þá á skoðunar- og samráðsstiginu, þá vil ég taka það fram að hér er ekki að mínu viti um skerðingu að ræða því það var ekki um þetta samið, heldur lít ég svo á að hér sé verið að festa ákveðna viðbót inni í tryggingakerfinu til frambúðar.