Endurskoðun VII. kafla stjórnarskrár lýðveldisins Íslands

160. fundur
Fimmtudaginn 16. júní 1994, kl. 10:23:33 (8067)


[10:23]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Það hefur orðið niðurstaða í tilefni 50 ára afmælis lýðveldis á Íslandi að stigið verði skref til aukinna mannréttinda á okkar ágæta landi. Að þessu máli hefur verið nokkur aðdragandi og hefur komið í ljós að ýmsir hafa verið þeirrar skoðunar að málið sé óþarft því hér séu mannréttindi betur virt en víðast gerist og að slík réttindi verði ekki einungis tryggð með lögum eða ákvæðum í stjórnarskrá, þar skipti t.d. venjur, siðir og kristin trú líka miklu máli.
    Ég er þeirrar skoðunar að það fari mjög vel á því að samþykkja á Þingvöllum á 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins þingsályktun sem kveður á um það að fyrir næstu reglulegu alþingiskosningar skuli þingflokkar hafa komið sér saman um breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Það fer vel á því nú

þegar þjóðin er að auka samstarf sitt við aðrar þjóðir og alþjóðasamstarf almennt er að eflast og heimurinn þannig að minnka. Við Íslendingar megum ekki verða eftirbátar annarra hvað það snertir að treysta grundvöll mannréttinda.
    Ég vil einnig nefna að það er ánægjulegt að á morgun, 17. júní, verður formlega stofnuð mannréttindaskrifstofa hér á landi í fyrsta sinn. Tilgangur skrifstofunnar verður að safna upplýsingum um mannréttindamál innan lands og veita aðgang að þeim upplýsingum. Jafnframt skal skrifstofan koma upplýsingum um mannréttindi á framfæri við almenning og stuðla að fræðslu og rannsóknum á sviði mannréttindamála hér á landi og annars staðar. Af og til hefur komið til tals að stofnsetja hér mannréttindaskrifstofu eða mannréttindastofnun, en slíkar stofnanir eru starfandi annars staðar á Norðurlöndum. Nú er það að verða að veruleika á 50 ára afmæli lýðveldisins.
    Á liðnum árum hefur umræða um mannréttindi aukist jafnt og þétt um allan heim. Hrun Berlínarmúrsins og fall ríkisstjórna, sem kenndu sig við kommúnisma, í Mið- og Austur-Evrópu ýttu undir þessa þróun. Víða hefur verið komið á fót mannréttindastofnunum til að kanna ástand mannréttinda og stuðla að því að þau séu virt. Ísland hefur staðfest ýmsa sáttmála til verndar mannréttindum sem hafa verulega þýðingu. Það er þó grundvallaratriði að í stjórnarskrá landsins sé að finna meginreglur um þau málefni sem mestu varða, enda eiga þau að tryggja enn betur rétt manna en alþjóðleg mannréttindaákvæði.
    Það er á margan hátt skiljanlegt að við Íslendingar leiðum sjaldan hugann að mannréttindum. Mannréttindabrot hafa ekki verið tíð hér á landi síðustu ár og áratugi. Við höfum haft mannréttindaákvæði þótt ófullnægjandi séu í lögum í meira en heila öld. Mannréttindaákvæði í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins hafa haldist nærri óbreytt að efni til frá því að Kristján IX. Danakonungur færði okkur stjórnarskrá á 1000 ára afmæli byggðar á landinu árið 1874.
    Þau ákvæði sem taka á mannréttindum í stjórnarskrá okkar eiga fyrst og fremst að tryggja viss borgaraleg og stjórnmálaleg frelsisréttindi. Á þessari öld hafa hins vegar ýmis ríki sett í stjórnarskrá ákvæði um félagsleg mannréttindi sem kveða á um skyldur ríkisvaldsins við þegnana á sviði almennrar velferðar, öryggis og jafnréttis. Með því móti er fólki tryggður réttur til menntunar, heilbrigðisþjónustu og jafnvel vinnu.
    Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var á allsherjarþinginu 10. des. 1948 hefur orðið grundvöllur mannréttindastarfs um allan heim. Í 1. gr. yfirlýsingarinnar segir að allir menn séu bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Þetta eru fögur orð sem leystu margan vanda ef væru í heiðri höfð. Staðreyndin er sú að ójöfnuður er fremur regla en undantekning. Menn eru því miður ekki jafnbornir til virðingar og réttinda.
    Við höldum því fram að Ísland sé stéttlaust land sem ætti að þýða það að allir hafi sömu möguleika til að ná viðurkenndum markmiðum í lífi sínu. Það vona ég að sé vilji flestra. Til þess að ná því markmiði er nauðsynlegt að valdamenn þjóðarinnar hafi yfirsýn, þekki aðstæður þjóðarinnar og kunni að setja sig í spor þeirra sem minna mega sín. Á þetta skortir oft og tíðum og því er enn meiri ástæða til að setja ítarlegri ákvæði um almenn réttindi borgaranna.
    Í 13. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi er kveðið á um að til að framfylgja því að allir eigi rétt til að njóta menntunar og fræðslu við sitt hæfi, skuli barnafræðsla vera skyldubundin og án endurgjalds. Sérstaklega er tekið fram að ekki megi skerða rétt foreldra til þess að velja börnum sínum skóla í samræmi við skoðanir sínar. Ég tel ástæðu til að hnykkja á þessu ákvæði í ljósi aðstæðna sem hér hafa verið að skapast með niðurskurði á fjárframlögum til skólamála og skólagjöldum sem tekin hafa verið upp í framhaldsskólum til þess að mæta kostnaði við rekstur skólanna.
    Í þeim tillögum sem stjórnarskrárnefnd skilaði af sér í apríl sl., um breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, er að finna nýja grein sem hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Rétti manna til vinnu og orlofs skal skipað með lögum.`` Samkvæmt þessu er ríkinu skylt að viðhalda eins mikilli atvinnu og unnt er með því að skapa þannig aðstæður í þjóðfélaginu að atvinnulíf geti blómstrað. Þarna mun vera hafður til hliðsjónar félagsmálasáttmáli Evrópu og 6. og 7. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.
    Nú getur það verið erfitt og hápólitískt matsatriði hvenær ríkið skapar nægjanlega góðar aðstæður í þjóðfélaginu til að atvinnulíf geti blómstrað og einnig að hve miklu leyti hægt er að kenna ríkisvaldinu um þegar atvinnulíf gengur illa. Hitt er svo óumflýjanleg staðreynd að nýtt vandamál hefur komið inn í íslenskt þjóðfélag á síðustu árum. Hér hefur verið meira atvinnuleysi en við Íslendingar höfum átt að venjast og því fleiri einstaklingar átt við sárt að binda vegna þess ástands en við getum sætt okkur við.
    Frá því að sögur hófust hafa menn velt réttindum sínum fyrir sér og saga mannréttindabaráttu er bæði löng og á margan hátt átakanleg. En þó að mannréttindi eins og við þekkjum þau kæmust varla á dagskrá fyrr en í byrjun nýaldar þá var flest það að finna í boðskap Jesús Krists sem telja má grundvöll slíkra réttinda. Kenningar hans um jafnrétti og mannúð hafa í fáu verið bættar fram til dagsins í dag. Kristur kenndi að menn ættu að elska náungann eins og sjálfan sig og í 1. gr. mannréttindayfirlýsingarinnar segir að menn séu gæddir vitsmunum og samvisku og að þeim beri að breyta af náungakærleika hver við annan. Þarna erum við komin að mikilvægu atriði í mannlegum samskiptum sem oft reynast okkur mannanna börnum erfið.

    Við munum áreiðanlega öll eftir því, hv. þingmenn, þegar presturinn talaði til okkar í Dómkirkjunni fyrir nokkrum árum og sagði okkur að við ættum að elska náungann jafnvel þótt okkur þætti hann hundleiðinlegur. Þar var mikilvægum boðskap komið á framfæri á þann hátt að allir skildu. Mannskepnan er breysk og mannleg samskipti eru ekki einföld. Það er þó enginn vafi á því að við mannfólkið gerum lífið erfiðara en það þyrfti að vera með því að vera ekki nægilega jákvæð í garð hvers annars, vera ekki hreinskiptin, vera ekki þakklát fyrir það sem við höfum og síðast en ekki síst framfylgja ekki í raun þeirri grundvallarreglu mannréttinda að allir menn séu bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttlæti.
    Fyrr á öldum var réttarstaða almennings slæm og segja má að leiguliðar, vinnuhjú, konur og þrælar hafi verið með öllu réttlaus þegar verst lét. Svo fór að lokum að klerkar, aðalsmenn og frjálsir bændur tóku sig saman og þvinguðu konunga til að tryggja sér ákveðin lágmarksréttindi. Ef til vill má segja að þetta hafi verið undanfari nútímamannréttinda.
    Réttarstaða kvenna hefur alla tíð verið allt önnur en karla. Konum var oftast skipað með þeim körlum sem minnst réttindi höfðu. Meginreglan var sú að karlmenn höfðu öll ráð kvenna í hendi sér. Þó ber þess að geta að Íslendingar hafa átt kvenskörunga í gegnum aldirnar og svo er einnig um fleiri þjóðir. En það er með mannréttindi kvenna eins og mannréttindi almennt að ýmsum finnst erfitt að henda reiður á vandamálinu og gera sér illa grein fyrir því hvar skórinn kreppir og hvað konur vilja. Auðvitað vilja konur jafnrétti, að kynin standi jafnfætis í raun. Það er umhugsunarefni að það skuli ekki hafa verið fyrr en á þessari öld sem konur fengu kosningarrétt hér á landi, sem varð þó tiltölulega vel að verki staðið miðað við mörg önnur lönd. Mikið hefur áunnist síðan það gerðist en betur má ef duga skal og ákvæði stjórnarskrárinnar hafa miklu hlutverki að gegna í þessu efni.
    Hæstv. forseti. Því miður eigum við jarðarbúar enn langt í land með að hægt verði að segja að mannréttindi séu virt. Eins og ég hef áður látið koma fram er ástand mannréttinda hér á landi nokkuð gott miðað við mörg önnur lönd. Það þýðir þó ekki það að við eigum ekki að láta okkur þessi mál varða. Við eigum að sjálfsögðu að vera þátttakendur í þeirri baráttu sem fer fram í heiminum um aukin mannréttindi á öllum sviðum.
    Það er staðreynd að stjórnarskrá okkar er ófullkomin að því leyti til að þar skortir ýmis ákvæði er varða þennan mikilvæga málaflokk. Úr því þurfum við að bæta og ég lýsi yfir ánægju með það fyrir hönd okkar framsóknarmanna að það verk er hafið og ég vænti góðrar samstöðu um framhaldið.