Hátíðarsjóður í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins

162. fundur
Föstudaginn 17. júní 1994, kl. 11:28:05 (8078)

[11:28]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Hæstv. forseti, góðir Íslendingar. Á 50 ára afmæli lýðveldis ályktar Alþingi um dýrmæt grundvallaratriði: Mannréttindi, óspillt lífríki hafsins og varðveislu íslenskrar tungu.
    Sjómenn okkar hafa um aldir stundað sjósókn á einhver gjöfulustu fiskimið í heimi. Nýting þessarar auðlindar sem er sameign íslensku þjóðarinnar hefur lagt grunn að því velferðarþjóðfélagi sem við búum við og viljum viðhalda. Þekking á vistkerfi hafsins og samspili þess við aðra þætti náttúrunnar er undirstaða réttra ákvarðana um nýtingu fiskimiðanna sem ráða mestu um afkomu þjóðar okkar.
    Frumkvöðull vísindalegra hafrannsókna hér við land var Bjarni Sæmundsson. Hann fór í nokkrar ferðir með danska rannsóknarskipinu Thor fyrir 90 árum. Þar kynntist hann fullkomnustu sjávarrannsóknum og tækni þeirra tíma sem ásamt þekkingu er hann þá þegar og síðar aflaði varð þjóðinni mikill fjársjóður. Sjálfur komst hann svo að orði um fræðirit sitt:
    ,, . . .  að það gæti orðið þeim leiðarvísir er vilja vita nokkuð frekari deili á sjónum og þeim skilyrðum er hann býður hinum mörgu og margbreyttu lífsverum er leynast undir hinu síkvika, seiðandi yfirborði hans. Jafnt í kolniðamyrkri og kulda undirdjúpanna og uppi við yfirborðið í fullri dagsbirtu og góðum yl frá sólinni, því það sómir sér illa fyrir oss, Íslendinga, jafnháðir og vér erum sjónum að vita ekki meira um hann en almennt mun gerast, jafnvel af þeim er daglega hafa hann undir kilinum.``
    Þetta eru orð fræðimanns sem fæddist árið 1867.
    Samþykkt Alþingis er um fimm ára átak þar sem 50 millj. kr. verður árlega varið til vistfræðirannsókna á lífríki sjávar til viðbótar hefðbundnum rannsóknarstörfum.
    Sömu fjárhæð verður varið til eflingar íslenskri tungu. Einhverjir mundu eflaust spyrja hvort það sé nauðsynlegt verkefni.
    Forníslenska er fagurt mál. Hún var mál bænda og sjómanna en ekki jafnauðug af orðum og nútímaíslenska. Nýleg athugun á orðaforða fornritanna leiðir í ljós að ein dýrasta perla heimsbókmenntanna, Brennu-Njálssaga, notaðst aðeins við um þrjú þúsund orð. --- Miklar bókmenntir þurfa ekki mörg orð. --- Flókið nútímasamfélag þarf hins vegar aragrúa orða um öll svið mannlífsins, um heimilishald, tölvur og tölfræði, stjörnuþokur himinhvolfsins og örverur hafsins, um innstu fylgsni mannshugans og smæstu eindir efnisheimsins.
    Tungumál deyja út án þess að heimsbyggðin kippi sér upp við það. Með hverju glötuðu máli deyr ákveðinn menningar- og hugarheimur sem aldrei verður endurheimtur.
    Íslensk tunga er traustasti hornsteinn menningar okkar og sjálfstæðis. Það er staðreynd sem við megum aldrei gleyma. Aðrar þjóðir eiga mörg hundruð ára órofna tónlistarhefð, aldagömul myndverk, fagra

fornmuni og glæstar hallir. Við eigum tunguna og það sem hún geymir, bókmenntir og sögu. Hún er framlag okkar til tungumálaflóru heimsmenningarinnar. Fyrir aðra en okkur er hún sérstök fyrir það að hún varðveitir lengri órofna hefð máls og bókmennta en nokkur önnur tunga að hebresku einni undanskilinni. Engar aðrar tungur veita núlifandi mönnum milliliðalausan aðgang að hugarheimi miðaldamanna.
    Það er skylda okkar að rækta íslenska tungu og ávaxta þann óviðjafnanlega og einstaka arf sem hún er.
    Á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar spyr Hannes Pétursson þjóð sína:

          En athafnir vorar, hnika
          þær draumum og vilja fram
          til fyllri reyndar
          til fyllra lífs
          við frelsi og ábyrgð,
          réttsýni og trú
          á tungu vora og framtíð?

    Mitt svar er: Já, það er trú mín.