Hátíðarsjóður í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins

162. fundur
Föstudaginn 17. júní 1994, kl. 11:33:05 (8079)


[11:33]
     Ragnar Arnalds :
    Hæstv. forseti, góðir Íslendingar. Á hálfrar aldar afmæli lýðveldisins er mjög við hæfi að minnast þess hve brýnt er að varðveita þann þjóðarauð sem tilvera Íslendinga veltur á. Löngum vissu menn fátt um lífið í hafinu, en þótt þekking á sjávarlíffræði hafi mjög aukist á seinni árum verður að játa í hreinskilni að enn rennum við blint í sjóinn þegar svara þarf ýmsum grundvallarspurningum um lífríki hafsins.
    Framlag það til grunnrannsókna á vistkerfi sjávar, sem hér er gerð tillaga um og einkum er ætlað að auka skilning á lægstu þrepum fæðukeðjunnar í sjónum, er vissulega sem dropi í hafið miðað við það mikla verkefni sem við blasir en mun þó engu að síður koma að góðu gagni.
    Auðlindir Íslands eru margháttaðar. Þær leynast ekki aðeins í jörðu eða í djúpinu sem lykur um land okkar. Dýrmætasta auðlindin er sá lífsins kraftur sem felst í sjálfstæði þjóðarinnar --- og íslenskri tungu. Það er óumdeild staðreynd að á lýðveldistímanum hefur íslenskt efnahagslíf þróast af meiri hraða og krafti en efnahagur stærstu ríkja Evrópu.
    Fyrir 100 árum var hér frumstæðara atvinnulíf og meiri örbirgð en víðast annars staðar í okkar heimsálfu. Ekki er ósennilegt að einhverjum hafi þá fundist það óraunsæ bjartsýni, jafnvel undarleg einangrunarstefna þegar smáþjóð sem aðeins taldi 100 þúsund manns sótti fram til fullveldis eða algers sjálfstæðis. En með undraverðum hraða tókst Íslendingum að lyfta sér úr mestu fátækt og niðurlægingu og skipa sér í hóp þeirra þjóða sem í dag búa við hvað best lífskjör.
    Á því er enginn vafi að þetta hefði ekki getað gerst ef þjóðin hefði ekki hlotið sjálfstæði heldur verið svo dæmi sé tekið afskekkt greifadæmi undir breskri krúnu, bandarískt fylki eða amt í Danmörku.
    Íslenskt efnahagslíf hefur einmitt þróast hratt á þessari öld og þá einkum á lýðveldistímanum vegna þess að við tryggðum okkur rétt til sjálfstæðra ákvarðana í eigin þágu og gátum því aftur og aftur brugðist við nýjum aðstæðum óháð öðrum þegar mest reið á. Við hefðum t.d. aldrei haft þá forustu í landhelgismálum sem raun bar vitni hefði landið verið hluti af stærri heild.
    Rétt eins og hver einstaklingur þarf að varast að ofmetnast og telja sig öllum öðrum merkilegri og rétt eins og menn þurfa einnig að forðast vanmetakennd gagnvart öðru fólki, eins er það nauðsyn lítilli þjóð í stórum heimi að varðveita sjálfstraust sitt og heilbrigðan metnað.
    Stórkostleg velgengni þjóðarinnar á öldinni sem nú er senn á enda er m.a. því að þakka að Íslendingar öðluðust sjálfstraust sitt á ný og hættu að láta stjórnmálamenn á meginlandi Evrópu í mörg þúsund kílómetra fjarlægð ráða fyrir sér og hugsa fyrir sig.
    Sú fjárveiting til eflingar íslenskri tungu sem hér er til umræðu er fyrst og fremst táknrænt framlag. Við þurfum sem fyrst að afnema veltuskatta af íslenskri menningar- og listastarfsemi og tryggja íslenskri tungu vísan sess í vitund nýrra kynslóða á öld alþjóðlegra fjölmiðla.
    Það varð gæfa Íslendinga við upphaf ritlistar í Norður-Evrópu að þegar lærðir menn rituðu nær eingöngu á latínu settu forfeður okkar saman stafróf byggt á íslenskri hljóðfræði sem síðan ruddi braut þeirri miklu bókmenntahefð sem hér varð og ekki átti sér hliðstæðu á þeim tíma. Árangurinn varð sá að bókmenntirnar urðu almenningseign en ekki forréttindi fárra útvaldra menningarvita eins og annars staðar varð. Þær tengdu saman fortíð og nútíð og íslensk tunga varð því sjálfkrafa það sameiningartákn sem átti meiri þátt í því en flest annað að Íslendingar öðluðust sjálfstæði á ný.
    Góðir Íslendingar. Lærum áfram af sögunni. Látum afmælishátíð lýðveldisins efla í huga okkar allra, yngri sem eldri, það heit er unnið var á þessum stað fyrir hálfri öld, að standa trúan vörð um tungu okkar og sjálfstæði.