Hátíðarsjóður í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins

162. fundur
Föstudaginn 17. júní 1994, kl. 11:39:05 (8080)


[11:39]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Hæstv. forseti, góðir áheyrendur. Á eins árs afmæli lýðveldisins sagði skáldið Davíð Stefánsson:
    ,,Allt of sjaldan fögnum við í sameiningu fegurð landsins og frelsi þjóðarinnar. Allt of sjaldan beinum við huganum að sögu hennar og framtíð. Allt of sjaldan lútum við í lotningu fánanum sem nú er tákn lýðveldisins, tákn þess frelsis sem þjóðin hefur þráð og barist fyrir öldum saman.``
    Þessi orð eru í fullu gildi enn í dag. Boðskapur 17. júní er og verður vonandi alltaf hinn sami: Að þá er þjóðhátíð á Íslandi, að þá leiðum við hugann í þakklæti til þeirra sem börðust fyrir sjálfstæði okkar og menningu og þá heitum við á alla Íslendinga að gera skyldu sína svo að hér megi alltaf búa frjáls og fullvalda þjóð.
    Þegar Íslendingar minnast 50 ára afmælis lýðveldis á Íslandi er við hæfi að Alþingi efli þann efnahagslega og menningarlega grundvöll sem lýðræðið hvílir á. Þegar ákveðið var að Alþingi héldi sérstakan fund á Þingvöllum í tilefni þessa afmælis var eðlilegt og sjálfsagt að taka fyrir mál sem tengjast tilvist okkar og gera okkur að sjálfstæðri þjóð. Með þeirri tillögu, sem hér er fram borin af formönnum allra þingflokka, er verið að leggja áherslu á þau tvö atriði sem við verðum að vera sívakandi yfir og skipta okkur svo miklu í nútíð og framtíð.
    Á auðlindum hafsins og landsins gæðum hefur þjóðin lifað um aldir. Lífríki hafsins er óumflýjanlega samofið möguleikum okkar til að lifa í landinu. Vistfræðirannsóknir í hafinu eru undirstaða þekkingar sem er okkur nauðsyn til að nýta þá auðlind sem lífríki sjávar er og umgangast þá auðlind með virðingu. Við höfum fært út landhelgina á liðnum árum til að vera betur undir það búin að vernda fiskimiðin með nýtingarsjónarmið í huga. En við erum um leið skuldbundin til að afla okkur þeirrar þekkingar sem nauðsynleg er til að vita hvar takmörk okkar liggja.
    Jafnframt er það styrkur hverrar þjóðar sem vill vera sjálfstæð að eiga sér eigin tungu og menningu. Varðveitum því þann þjóðararf sem við eigum í móðurmálinu. Verum stolt af varðveislu þess. Móðurmálið er auðlind sem ekki eyðist þótt af henni sé tekið. Hlúum að málvitund æskunnar af fremsta megni. Því verki verður aldrei lokið.
    Að þessu hvoru tveggja vill Alþingi vinna með stofnun hátíðarsjóðs í tilefni 50 ára afmælis lýðveldisins. Auðlindir hafsins og íslenskt mál þurfum við að vernda og verja. Það er óþrjótandi verkefni. Vissulega er margt fleira sem þarf að huga að en við skulum sníða okkur stakk eftir vexti í þessum efnum sem öðrum.
    Saga liðinna alda er sagan af baráttu mannanna við náttúruna og sjálfa sig. Oft höfum við lotið í lægra haldi en þó aldrei látið bugast, heldur tekist á við erfiðleikana. Þannig vil ég áfram sjá íslenska þjóð og þannig vil ég að æskan mótist.
    Við munum áfram búa við óblíð náttúruöfl, en við getum unnið með þeim, lært að þekkja landið og hafið betur og verndað það fyrir óæskilegum áhrifum og áníðslu, og staðið vörð um ,,ástkæra, ylhýra málið``.
    Í dag fagnar öll þjóðin 50 ára lýðveldi. Við eigum það sem hverjum manni og hverri þjóð er dýrmætast, það er frelsið, réttinn til að ráða lífi okkar og framtíð. Varðveitum það því að fjöreggið er brothætt. Sú þjóð, sem ekki er meðvituð um hvað er frelsi og sjálfstæði, er dæmd til glötunar.
    Við skulum hafa það hugfast að við erum á hverjum degi að móta sögu þjóðarinnar. Öllum leggjum við þar eitthvað af mörkum. Við getum því tekið undir með Margréti Jónsdóttur skáldkonu er hún orti á þessa leið:

          Ó Saga --- vor harma- og hamingjudís
          í höll þinni er kyrrlátt og bjart,
          hve örlát þú gafst hinni íslensku þjóð
          allt hennar dýrasta skart.