Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 21:05:18 (15)

[21:05]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti, góðir Íslendingar. Nú hafið þið heyrt boðskap forsrh., þið hafið heyrt forsrh. lýsa því hvað honum hefur gengið afskaplega vel með efnahagsmálin og það mátti jafnvel skilja hæstv. forsrh. svo að ástandið væri bara afskaplega gott. Hvað segið þið sem misst hafið atvinnuna? Þykir ykkur ástandið vera gott? Hvað segið þið sem berjist við okurvextina og fjármagnskostnaðinn og eruð e.t.v. í gjaldþroti, að missa heimili ykkar eða fyrirtæki, þykir ykkur ástandið vera gott? Og hvað segja sjúklingarnir, þeir umkomulausu, sem nú á að reka út á guð og gaddinn frá Gunnarsholti þar sem þeir hafa fengið húsaskjól? Ætli þeim þyki ástandið vera ákaflega gott? Og hvað segja sjúklingarnir, þeir sem minnst hafa fjármagnið t.d., sem þurfa nú eða eiga að þurfa að greiða 2.000 kr. aðgangseyri að hinu íslenska heilbrigðis- og tryggingakerfi, ætli þeim þyki ástandið vera afskaplega gott?
    Nei, ég er hræddur um að utanrrh. geti varla verið sammála þessu því ég hlustaði á utanrrh. sl. sunnudag lýsa því í sjónvarpi að ástandið væri stórkostlega hættulegt, við værum komnir fram á ystu nöf því skuldir þjóðarinnar nálguðust nú 70% af þjóðarframleiðslu og greiðslubyrði 30%. Að vísu hefur utanrrh. ekki verið mjög sammála vini sínum forsrh. upp á síðkastið og þarna lýsir hann öndverðri skoðun.
    Mér sýndist það eina vanta í þessa öfugmælasögu forsrh. að hann lýsti ástandinu í ríkisstjórninni hjá sér sem afskaplega góðu. En það má kalla fram fleiri vitni um ástandið í þjóðfélaginu. Ég tók hér með mér þjóðhagsáætlun sem er hollt fyrir hvern mann að nálgast og lesa. Þessi þjóðhagsáætlun segir m.a. að erlendar skuldir í þjóðfélaginu nálgist nú 70% eins og utanrrh. upplýsti en í þjóðhagsáætlun segir jafnframt að greiðslubyrði nálgist 40% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar og það er áreiðanlega ekki gott ástand.
    Forsrh. lýsir skuldunum í krónum en vitanlega er það greiðslubyrðin sem veldur áhyggjum og hún hefur vaxið stórkostlega upp á síðkastið. Hvað segir t.d. heimilisfaðirinn þó að krónuskuldin lækki ef tekjurnar hverfa? Það er þetta sem er rétt hjá hæstv. utanrrh., þetta ástand er ekki afskaplega gott og þetta er

ástand sem er orðið eftir tveggja ára setu þessarar ríkisstjórnar.
    Þjóðhagsáætlun lýsir fleiru. Hún lýsir því t.d. að fjárfestingin í þjóðfélaginu, fjármunamyndunin eins og kallað er þar, er komin niður fyrir 16%, 15,7% ef ég man rétt, og er sú lægsta sem er í nokkru landi í Vestur-Evrópu. Þjóðhagsstofnun dregur þær réttu ályktanir að þetta sé hættuástand og hún dregur þá ályktun að þetta hljóti að leiða til þess að atvinnuleysi hér fari stórkostlega vaxandi.
    Þjóðhagsstofnun spáir því að atvinnuleysi hér verði á næsta ári 5%. Það er að vísu rétt hjá hæstv. forsrh., eins og hann hefur stundum sagt að það er minna en í Vestur-Evrópu en það nálgast það hröðum skrefum.
    Forsrh. lýsti því að hann hefur nú flutt fjórar stefnuræður og ég tók mig til og blaðaði í gegnum hans fyrri stefnuræður. Ég gerði það til að reyna að gera mér grein fyrir loforðum og efndum. Útkoman var ekki góð fyrir þessa ríkisstjórn. Forsrh. lýsti því yfir hvað eftir annað að ríkisstjórnin mundi byggja stefnu sína á föstu gengi. Þessi ríkisstjórn hefur fellt gengið tvisvar á átta mánuðum. Ég heyrði það að vísu að forsrh. er búinn að finna nýtt orð fyrir gengisfellingar, hann kallar það nú að búa um hnútana og ráðherrann hefur lengi verið orðhagur maður og kannski verður þetta notað í framtíðinni. En ég er ekki að áfellast ríkisstjórnina fyrir það að hafa fellt gengið því leiðrétting á gengi er ekkert annað en að horfast í augu við þær staðreyndir sem eru orðnar, bæði af ytri aðstæðum og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Það varð ekki hjá því komist að sjálfsögðu að fella gengið. Ég vona að það þurfi ekki að fella gengið í þriðja sinn á skömmum tíma.
    Ég veit að allir hér og landsmenn muna einnig eftir því að ríkisstjórnin lofaði að hækka ekki skatta, en eftir því sem ég kemst næst og eftir því sem m.a. er birt í einum fjölmiðli þá höfðu skattarnir þegar í fyrra hækkað nettó um a.m.k. 6 milljarða kr. og mig grunar að skattahækkunin sé raunar töluvert meiri þegar tekið er tillit til þeirrar lakari þjónustu sem landsmenn þurfa að þola. Forsrh. talar um það að skattar verði lækkaðir á fyrirtækjum en þjóðhagsáætlun segir hins vegar að skattar hafa verið færðir frá fyrirtækjum yfir á einstaklinga og ætli það sé ekki réttari lýsing. Og enn er haldið áfram skattahækkunum. Nú heyrum við það að það á að leggja á okkur og alla íbúa landsins atvinnuleysisskatt, 0,5%, og ég hef áður minnst á heilsukortið, aðganginn að sjúkrahúsunum. Við heyrum stöðugt í fréttum þegar grafið er í fjárlögin um ýmsar skattahækkanir sem fram undan munu vera.
    Ég veit að menn muna það einnig að þessi ríkisstjórn lofaði því að vextir mundu lækka. Það átti satt að segja hinn heilagi markaður að sjá um. Þetta hefur verið endurtekið aftur og aftur. Þetta var m.a. endurtekið í síðustu samningum. Samkvæmt Hagvísi Þjóðhagsstofnunar eru vextir nú af vísitölutryggðum lánum í bankakerfinu 9,4% og hafa ekki verið hærri síðan á fyrstu mánuðum þessarar ríkisstjórnar þegar ríkisstjórnin gerði sér lítið fyrir og með einu pennastriki hækkaði vexti á ríkisskuldabréfum um u.þ.b. 2%. Þá fóru vextir í bankakerfinu upp í 10%. Og vextir hækkuðu þegar til framkvæmda kom ein af síðustu gerðum viðskrh. fyrrv. að taka völdin af bankaráðunum að ákveða vexti. Nú eru það bankastjórarnir sjálfir sem gera það og gera það frítt og frjálst.
    Vextir hafa ekki lækkað og það væri fróðlegt að heyra hvað forsrh. segir um það í framtíðinni. Ríkisstjórnin lofaði því m.a. að jöfnuður næðist í ríkisfjármálum á þriðja ári hygg ég í hennar stjórnartíð. Forsrh. sagði að vísu ,,á öðru ári`` í fyrrnefndu sjónvarpsviðtali. Hver er niðurstaðan? Nú leggur fjmrh. fram fjárlagafrv. með meiri halla --- eins og hann viðurkennir sjálfur --- en nokkurn tímann hefur gerst áður, eitthvað í kringum 10 milljarða króna. Þeir sem hafa getað kynnt sér það vel telja að hallinn verði miklu meiri, nálgist jafnvel 20 milljarða þegar upp er staðið.
    Þegar ég lít yfir þennan loforðalista hv. ríkisstjórnar finn ég satt að segja ekki nema eitt loforð sem hún hefur dyggilega staðið við. Það er loforðið um að veita atvinnuvegunum enga hjálpandi hönd. Hæstv. forsrh. telur núna að ríkisstjórnin hafi gert eitthvað fyrir atvinnuvegina, hann taldi það að vísu ekki upp, hann taldi að atvinnuvegirnir sjálfir hefðu hagrætt hjá sér. Það er vitanlega ekki nema góðra gjalda vert. En ég veit að allir hér inni minnast þess að forsrh. lýsti því yfir hvað eftir annað að ríkisstjórnin mundi engin afskipti hafa af atvinnulífi landsmanna og atvinnuvegunum. Mér þykir satt að segja stórfurðulegt ef rétt er, sem ég get ekki efast um, sem forseti ASÍ hefur nú upplýst í fjölmiðlum, að í ljós komi að ríkisstjórnin ætli ekki að standa við það loforð frá síðustu samningum, a.m.k. finnist þess ekki fótur í fjárlögum, að veita 2 milljörðum kr. til örvunar íslensku atvinnulífi.
    Þetta er ekki falleg saga sem ég hef nú rakið. Satt að segja þykir mér með ólíkindum hvernig þessari ríkisstjórn hefur tekist að eyða þeim ágæta árangri sem var orðinn í lok ársins 1990 og upphafi ársins 1991. Samkvæmt tölum frá sömu Þjóðhagsstofnun var afkoma atvinnuveganna þá með því besta sem hún hafði verið í áratug, bæði sjávarútvegsins og iðnaðarins. Ætli Landssamband iðnaðarmanna sé sammála því að vel hafi gengið í efnahagsmálum hjá þessari ríkisstjórn þegar landssambandið segir að tapast hafi 1.400 ársverk á síðustu tveimur til þremur árum? Ætli landssambandið sé sammála þegar það segir að íslenska ríkisstjórnin geri ekkert til að vernda íslenskan iðnað sem allar aðrar ríkisstjórnir, þótt löndin séu meðlimir að fríverslunarsamtökum, beita sér fyrir af krafti.
    Vitanlega gæti ég nefnt hér fjölmargt fleira sem fróðlegt væri að ræða þótt tíminn leyfi ekki að fara ítarlega í sakirnar. Ég hef vaxandi áhyggjur af því, sem ég hygg þó að sjáist aðeins eins og toppurinn af ísjakanum, hve fjármagnsflutningar hafa verið gífurlega miklir frá þeim sem skulda til þeirra sem eiga. Að sjálfsögðu eiga háir vextir þar stærstan þátt í. Mig grunar að meginhlutinn af eignum þessarar

þjóðar sé orðinn í höndum örfárra stórfyrirtækja og kannski svona nokkur hundruð einstaklinga. Og ég spyr sjálfan mig satt að segja að því: Tekst þessum einstaklingum að halda uppi háum vöxtum? Tekst þessum aðilum jafnvel að flytja fjármagn sitt úr landi ef staðið verður við áætlanir um fullkomið frelsi í öllum fjármagnsflutningum? Erum við hæfir til þess Íslendingar þegar svo hefur skekkst í okkar þjóðfélagi fjármagnseignin? Tölur í þessu sambandi hafa komið fram frá ýmsum öðrum og tala skýru máli um þá miklu vá sem þarna er fyrir dyrum.
    Tíma mínum er nú senn lokið en það er eðlilegt að menn spyrji: Hvað munduð þið framsóknarmenn þá gera í þessari stöðu? Við framsóknarmenn birtum ítarlegar tillögur okkar í þessu riti sem kom út á sl. vori og heitir Átak til endurreisnar. Ég get aðeins nefnt fáein atriði úr þessu riti. Við teljum að eitt það brýnasta, sem þarf að gera án tafar, sé róttækt átak til að jafna kjörin í landinu. Færa byrðar frá þeim sem þola þær ekki til hinna sem eignirnar og tekjurnar hafa. Við teljum að það sé brýn nauðsyn að ná breiðri þjóðarsátt, ekki aðeins með verkalýðsfélögunum, heldur einnig starfsmönnum ríkisins. Við teljum afar brýnt að framkvæma þá þjóðarsátti í fullu samráði við þessa aðila alla. Við teljum satt að segja að ástandið sé orðið svo alvarlegt eins og utanrrh. hefur lýst að það sé þörf á slíkri breiðri þjóðarsátt þar sem traust ríkir á báða bóga. Við teljum að ein fyrsta aðgerðin eigi að verða sú að lækka vextina um a.m.k. þriðjung. Það er hægt að gera þetta á fjölmargan máta. Mætti t.d. gera þetta með því, ef ríkisstjórnin vill ekki beita handafli, að láta Seðlabankann bjóða í ríkisskuldabréfin t.d. 4--5% þá munu vextirnir lækka.
    Ég vil aðeins segja það að lokum að ástandið eftir tveggja og hálfs árs setu þessarar ríkisstjórnar er orðið svo alvarlegt að ég hlýt að taka undir það með þeim fjölmörgu Íslendingum sem segja nú hvar sem þú hittir þá: Þessi ríkisstjórn verður að fara frá og boða verður til nýrra kosninga. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.