Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 21:18:25 (16)

           [21:18]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstvirtur forseti. Góðir áheyrendur. Það hefur lengi verið vitað og er raunar ekki mikil speki að maðurinn mótast af umhverfi sínu. Þó svo öllum þyki vænt um sína átthaga er flestum hollt að hleypa heimdraganum til að öðlast víðsýni og skilning á aðstæðum og hugsun annarra starfsstétta, annarra landshluta og jafnvel annarra þjóða. Það er mikilvægt fyrir stjórnmálamenn að hafa reynt sitt af hverju áður en þeir gera stjórnmálin að sínu starfi. En það sem er ekki síður mikilvægt er að þegar það er orðin raunin þá haldi þeir sambandi við sína umbjóðendur og þekki hjartslátt þjóðarinnar en lokist ekki inni í litlum kassa eins og segir í þekktum dægurlagatexta. Ég óttast að sú ríkisstjórn, sem nú er við völd, hafi lokast inni í litlum kassa á lækjarbakka. Eftir að hafa hlýtt á hæstv. forsrh. flytja stefnuræðu sína hér áðan er mér þetta ofarlega í huga.
    Hæstv. forsrh. virtist vera alveg ótrúlega fjarri því að þekkja sitt þjóðfélag. Getur verið að hæstv. ríkisstjórn sé um of aðþrengd í sínum litla kassa og þeir einstaklingar sem hana skipa séu að einangrast? Það er ýmislegt sem gefur til kynna að það sé þröngt um ríkisstjórnina. Þjóðin hefur á þessu sumri þurft að hlusta á það æ ofan í æ að ráðherrar hafa sent hver öðrum tóninn í gegnum fjölmiðla og hver höndin er uppi á móti annarri. Man nokkur eftir heitstrengingum að loknum Viðeyjarfundi fyrir tveimur og hálfu ári um að íslenska þjóðin hefði nú eingnast samhenta ríkisstjórn sem ekki ætlaði að talast við í gegnum fjölmiðla? Hæstv. forsrh. sagði að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefðu verið tekin upp ný vinnubrögð. Ég álít að það hefði hann ekki þurft að segja nokkrum manni. Þetta er nokkuð sem öll þjóðin hefur tekið eftir. Það hefur nefnilega komið í ljós, sem í sjálfu sér er gott að sannaðist, að það er ekki sama hver fer með stjórn þessa lands. Það er ekki eins og margir hafa haldið og segir í textanum að allir kassar séu eins.
    Nú er það svo í lýðræðisþjóðfélagi að það er alltaf hægt að skipta um ríkisstjórn með ákveðnu millibili. Það er hins vegar slæmt ef það tekst á einu kjörtímabili að vinna þau spellvirki á íslensku velferðarþjóðfélagi að það leiði af sér eyðileggingu. Þessi nýju vinnubrögð ríkisstjórnarinnar koma mér fyrir sjónir fyrst og fremst sem röng hugmyndafræði og óvönduð vinnubrögð. Nægir að nefna nokkur dæmi í því sambandi. Á sama tíma og ríkisstjórnin heykist á því að leggja á fjármagnstekjuskatt eykur hún álögur á þá sem síst skyldi. Allt er framkvæmt með flumbrugangi og án samráðs. Með skeytasendingum eru lagðar álögur á sveitarfélög, nefskattur í heilbrigðiskerfinu breytist í sjúklingaskatt í beinni útsendingu í síðdegisútvarpi, landbúnaðarvörur eru fluttar inn í trássi við lög með geðþóttaákvörðun utanrrh., grunnskólabörnum er nánast troðið inn í þröngar kennslustofur eins og síld í tunnu, dagvistarheimilum heilbrigðisstétta er gefið langt nef, meðferðarheimilum er lokað. Svona mætti lengi telja.
    En það sem er ekki síður alvarlegt er sú óvissa sem ríkir í landinu um mikilvæg málefni. Ég minni á að þegar þingi var frestað sl. vor var ósamstaða innan ríkisstjórnarinnar um jafnmikilvæga málaflokka og sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Nú hefur það bæst við að það fjárlagafrv. sem lagt var fram í gær er ekki á ábyrgð allrar ríkisstjórnarinnar. Það hlýtur því að verða athyglisvert að fylgjast með því næstu mánuðina hvernig ríkisstjórninni mun reiða af. Með því mun þjóðin fylgjast. Auðvitað væri freistandi að líta á allt málið eins og farsa og bíða spenntur næstu uppákomu. Málið er hins vegar of alvarlegt til þess að það sé hægt að hafa gaman af því.
    Hæstv. forseti. Við Íslendingar höfum löngum talist menningarþjóð og er auðvelt að færa rök fyrir því að það séu orð að sönnu. Hér á landi taka fleiri virkan þátt í menningarlífi en tíðkast um aðrar þjóðir og eigum við eflaust mörg heimsmet á þessu sviði miðað við höfðatölu. Það var hins vegar ekki mörgum orðum eytt í menningarmál í ræðu hæstv. forsrh. Það helsta sem ráðherrann sá ástæðu til að nefna og

snýr að menntamálum var hversu vel hefði gengið að skera niður kostnað við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það virðist hins vegar vera algert aukaatriði hvort sjóðurinn þjónar sínum umbjóðendum og sú grein sem veldur námsmönnum mestum óþægindum og kostnaði sparar enga peninga.
    Það hefur verið samþykkt ný stefna í vísinda- og tæknimálum innan ríkisstjórnarinnar. Það kom hins vegar fram í máli hæstv. menntmrh. í fréttum í gærkvöldi að sá fugl sem hæstv. ríkisstjórn hefur átt í skógi allt þetta ár og átti að stórauka fé til vísinda- og rannsóknastarfs hefur ekki skilað sér. Það átti að leggja hundruð milljóna í vísindastörf af hagnaði af sölu ríkisfyrirtækja. Nú liggur fyrir að svo til engin ríkisfyrirtæki hafa selst og forsrh. nefndi ekki einkavæðingu einu orði í ræðu sinni.
    Hæstvirtur forseti. Næsta ár er ár fjölskyldunnar. Á þeirri skrá um þingmál ríkisstjórnarinnar sem dreift hefur verið meðal þingmanna eru mál sem varða fjölskylduna svo sem fjölskylduþjónusta ríkisins og umboðsmaður barna. Mér finnst ástæða til að fagna því að ríkisstjórnin hyggst flytja mál sem þessi. Það er hins vegar ekki að ástæðulausu sem maður veltir því fyrir sér hvort það er fyrst og fremst skortur á lagaákvæðum á þessu málefnasviði sem er þess valdandi að fjölskyldan sem eining nýtur ekki virðingar sem síðan bitnar á börnunum.
    Við Íslendingar höfum alllengi átt lög um jafnrétti karla og kvenna. Samt sem áður eigum við langt í land með að ná viðunandi árangri á því sviði og nægir að benda á ráðherrabekkina í því sambandi. Ætli það þurfi ekki fyrst og fremst vilja til aðgerða.
    Að síðustu þetta, hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. kom í sínum lokaorðum inn á það að vonleysi hefði aldrei verið fyrirferðarmikið í íslensku máli. Ég held að það sé í sjálfu sér rétt. Ég vil þó líka segja að ég held að það komi sér mjög vel núna því ekki hefur hæstv. forsrh. hingað til lagt sig fram um að auka bjartsýni meðal landsmanna og efla þá til dáða. Íslendingar hafa trú á landinu og þeir hafa trú á sjálfum sér en þeir hafa ekki trú á þeim stjórnvöldum sem loka sig af í litlum kassa. --- Góðar stundir.