Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 22:07:52 (21)

[22:07]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti, góðir áheyrendur. Síðustu nótt var skipst á skotum í Moskvuborg. Suður í Bosníu er fólk að búa sig undir annan vetur átaka, hungurs, kulda og dauða. Enn sunnar, í Sómalíu, eru sveitir Sameinuðu þjóðanna, sem áttu að koma á friði, í linnulausum átökum við landsmenn. Í 110 ríkjum heims er fólk beitt pyntingum samkvæmt skýrslum Amnesty International og er þá eftir að nefna harðstjórn, ofsóknir, misrétti gagnvart konum og börnum, hungur, sjúkdóma, fátækt og átök af ýmsu tagi.
    Þegar við horfum út í hinn stóra heim og hugsum til þeirrar framtíðar sem bíður flestra barna jarðarinnar verður okkur ljóst hve mikil forréttindi það eru að vera Íslendingur. Við búum í landi vatns, jarðvarma, fallvatna, matvælaframleiðsla er meiri en við getum torgað, við eigum ár og vötn með gnægð fiskjar og úti fyrir ströndum eru gjöful fiskimið þótt hart sé að þeim sótt um þessar mundir. Við búum við frelsi og öryggi. Flest okkar alast upp hjá foreldrum sínum og fá mat, föt og húsaskjól. Við eigum þess kost að menntast, njóta menningar, ferðast, skiptast á skoðunum og mótmæla. Þótt eitt og annað þarfnist lagfæringar búum við í samfélagi þar sem mannréttindi eru virt. Íslands er ekki getið í skýrslum Amnesty International, sem betur fer.
    Lýðræði og almenn mannréttindi eru ekki ýkja gömul fyrirbæri. Það eru ekki nema rúmlega 300 ár síðan almenningur, fyrst lítill hópur hvítra karla, fór að hafa einhver áhrif á stjórn og mótun samfélagsins í Vestur-Evrópu. Forréttindaaðallinn var smám saman sviptur völdum og þau færð til fólksins sem skyldi velja sér fulltrúa úr eigin röðum til að fara með völdin. En skjótt skipast veður í lofti. Í Vestur-Evrópu, vöggu lýðræðisins, er nú mjög til siðs að afsala sér því valdi sem tók mörg hundruð ár að öðlast og það jafnvel án þess að bera það undir þá þjóð sem valdið er komið frá. Valdið færist æ lengra frá fólkinu til framkvæmdastjórna og ráðherra, stjórnenda stórfyrirtækja og embættismanna, hinna nýju eða kannski

endurreistu stétta forréttinda, miðstýringar og karlveldis. Stefnt er að því að gera einingarnar æ stærri, en um leið verður leiðin frá þeim sem eiga að ráða för til hinna nýju landsstjóra sem taka hér æ meiri völd og stjórna með tilskipunum. Hugsjónin um óheftan markaðsbúskap sem býr við flæði fólks, fjármagns, vöru og þjónustu á opnum innri markaði í Stór-Evrópu á að verða hið nýja hjálpræði í heimi harðnandi samkeppni undir stjórn embættismannaveldis.
    Hver er árangurinn? Innri markaður Evrópubandalagsins hefur hvorki aukið hagvöxt né skapað meiri vinnu. Eina ríkið sem blómstrar með glæsibrag á meginlandi Evrópu er ríkið sem hafnaði aðild að EES, Sviss. Skyldi það vera af því að þeir móta sína efnahags- og atvinnustefnu sjálfir og eru óbundnir af tilskipunum EB?
    Það er samdráttur í efnahagslífi Evrópu og því er spáð af OECD að hann standi fram yfir næstu aldamót. Atvinnuleysið er hrikalegt og fer vaxandi. Það bitnar mun harðar á konum en körlum og nú sjást þess merki að unnið sé markvisst að því að koma konum út af vinnumarkaðinum. Finnskur forstjóri lét þau orð falla nýlega í sjónvarpsþætti að sér fyndist að konur ættu að sýna þann skilning á efnahagsvandanum að draga sig út af vinnumarkaðinum. Réttindi kvenna sem barist hefur verið fyrir í rúmlega 200 ár eru langt í frá gulltryggð. Þau þarf að sækja og verja og konur verða að halda vöku sinni jafnt hér sem annars staðar.
    Það er saumað að verkalýðshreyfingunni um alla Evrópu og ég fæ ekki betur séð en að stefnt sé að því að taka til baka þau réttindi og ávinninga sem náðst hafa í rúmlega 100 ára baráttu fyrir auknum jöfnuði. Hinn nýi aðall frjálshyggjunnar sem aldrei hefur sætt sig við þá hugsun að þurfa að gæta bróður síns og systur hefur tekið upp gömul vopn 19. aldarinnar, atvinnuleysi, réttindamissi og takmörkun á opinberri þjónustu. Enn á ný skulu þarfir og gróði stórfyrirtækjanna ráða för þótt ástand jarðarinnar kalli á nýtt skipulag og aðrar lausnir, smærri einingar, samvinnu, jöfnuð og brotthvarf frá vestrænni neysluhyggju. Þessi öfugþróun er afar umhugsunarverð fyrir litla þjóð eins og okkur Íslendinga sem eigum þess kost að skapa réttlátt og gott samfélag í gjöfulu landi, samfélag sem gengur út frá jafnvægi manns og náttúru og byggist á frelsi kvenna og karla til að velja sér sinn lífsfarveg, samfélag sem setur velferð barna ofar öllu öðru. Lykillinn að slíkri þróun er að geta ráðið eigin för og vera ekki bundinn af óréttlátri og úreltri hugmyndafræði og kerfi langt í burtu sem stefnir í þveröfuga átt.
    Góðir áheyrendur. Um rúmlega tveggja ára skeið hefur hugmyndafræði frjálshyggjunnar í evrópskum anda ráðið ríkjum í Stjórnarráði Íslands. Að sögn ráðherra átti að hefjast viðreisn á varanlegum grunni. Mikill uppskurður var boðaður með einkavæðingu, niðurskurði og samdrætti í ríkisrekstri. En það syrti í álinn með aflabresti, verðlækkunum erlendis, háum vöxtum, gjaldþrotum og enn meiri samdrætti sem m.a. má rekja til stefnu ríkisstjórnarinnar. Í tvö ár hefur dunið á þjóðinni endalaus bölmóður þungbrýnna og vonsvikinna ráðherra sem ekki gerðu annað en að rífa niður og draga kjark úr fólki þar til gripið var í taumana og stjórnin knúin til aðgerða í atvinnumálum af aðilum vinnumarkaðarins, enda stefndi í ógnvekjandi atvinnuleysi.
    Nú bregður hins vegar nýrra við. Hæstv. forsrh. hefur tileinkað sér bjartsýnistón og sér ljós þar sem áður var svartnættið eitt. Það hefur rifjast upp fyrir honum gamalt kjörorð Sjálfstfl.: Á réttri leið. Hið undarlega er að sú fullyrðing er hvergi nærri í takt við raunveruleikann. Hann fullyrðir bara út í loftið að nú stefni til betri hags þótt allar áætlanir segi annað. Þjóðhagsstofnun spáir enn samdrætti á næsta ári í kjölfar minnkandi þorskafla og lækkunar fiskverðs. Atvinnuleysi mun aukast að nýju verði ekki gripið til sérstakra aðgerða. Raunvextir eru himinháir, erlendar skuldir komnar á hættustig og ef marka má fjárlagafrv. ársins 1994 verður hallinn á ríkissjóði meiri en nokkru sinni fyrr. Niðurskurður opinberrar þjónustu mun halda áfram, menntakerfið er svelt, uppbygging og nýsköpun í atvinnulífi er öll í skötulíki.
    Það er vissulega þörf á því að efla bjartsýni og hvetja landsmenn til dáða. En af hverju er nú svo bjart í ranni forsrh. þegar óveðursskýin hrannast upp á himni þjóðarinnar? Það mætti halda að hann sé svo rækilega lokaður inni í gamla tugthúsinu við Arnarhól að þangað berist ekkert hljóð utan frá í gegnum hnausþykka veggina. Það mætti líka ímynda sér að fyrir forsrh. sé komið eins og Markúsi Árelíusi Rómarkeisara sem hélt sig úti í garði og sinnti pútunum sínum meðan herir Germana nálguðust óðfluga nema hvað í stjórnarráðsgarðinum er tautað: Á réttri leið, á réttri leið. En þessar skýringar duga ekki. Það er annað sem vakir fyrir forsrh. Lifi stjórnin af veturinn kemur að kosningum næsta vor sem nú snúast um sveitarstjórnir landsins. Íhaldið í Reykjavík er hrætt um sinn hag og óttast að gríðarlegar óvinsældir ríkisstjórnarinnar, formannsins og Sjálfstfl. valdi því að veldi þess riði til falls á ný. Það er mikið í húfi í þessum aðalstöðvum flokksins og nú þarf að breyta ímyndinni hvað sem raunveruleikanum líður. Heldur er þó ólíklegt að Sjálfstfl. takist að rétta úr kútnum eftir allar þær uppákomur sem þjóðin hefur orðið vitni að undanfarna mánuði.
    Á ríkisstjórnarheimilinu er fátt um kærleika og ráðherrunum verður allt að ágreiningsefni. Þar lætur Jafnaðarmannaflokkur Íslands, Alþfl., ekki sitt eftir liggja og fer mikinn sem boðberi frelsis í landbúnaðarmálum en minna ber á að hann verji lítilmagnann gagnvart nýjum sköttum og skyldum. En það er svo sérkennilegt með frelsisást Alþfl. að hún liggur mjög í láginni þegar mest á reynir. Af hverju stöðvaði Alþfl. sem þá var í stjórn ekki frágang búvörusamningsins fyrir kosningarnar 1991, ef endurskoðun landbúnaðarstefnunnar var þeim svo mikilvæg? Af hverju krafðist Alþfl. þess ekki að fá landbrn. í þeirri stjórn sem nú starfar? Af hverju hefur Alþfl. ekki fylgt eftir kröfum um áframhaldandi endurskoðun landbúnaðarkerfisins þar sem tekið yrði á afurðastöðvunum, milliliðunum, verðmynduninni og því lagabákni sem reyrir landbúnaðinn í viðjar? Af hverju heyrist ekki múkk i Alþfl. þegar verið var að vinna að endurskoðun búvörulaganna í landbn. sl. vor? Svarið er einfalt. Alþfl. er nákvæmlega sama um íslenskan landbúnað. Hann hugsar um það eitt að verma valdastólana og raða flokksgæðingunum á ríkisjötuna, enda gerspilltur karlrembuflokkur. Upphlaup hans nú sl. sumar var ekkert annað en hræsni og lýðskrum af versta tagi.
    Það þarf að halda áfram breytingum á íslenskum landbúnaði en það verður að gefa honum tíma til að aðlagast því sem koma skal, verði EES-samningurinn og nýr GATT-samningur að veruleika. Það er engum til góðs að vaða fram af ábyrgðarleysi líkt og Alþfl. hefur gert. Það þarf að hugsa allt dæmið til enda, ekki síst hvaða atvinnu það fólk á að fá sem missir vinnu sína vegna samdráttar og hvaðan jafnskuldug þjóð og Íslendingar á að taka gjaldeyri til að kaupa landbúnaðarvörur erlendis frá verði það raunin. Ein leiðin til að draga úr skuldum þjóðarbúsins er að draga úr innflutningi og efla innlenda framleiðslu en ekki að leggja hana niður.
    Góðir áheyrendur. Hæstv. forsrh. bað hlustendur að taka vel eftir því hvað stjórnarandstaðan hefði til málanna að leggja hér og nú. Við sitjum ekki við stjórnvölinn og berum ekki ábyrgð á því sem gert er eða látið ógert. En svo mikið er víst að fengjum við kvennalistakonur að ráða væri hér öðruvísi umhorfs. Það sem við kvennalistakonur höfum að segja er þetta: Það eru engar töfralausnir til á efnahagsvanda íslensku þjóðarinnar og það tekur tíma að vinna sig út úr vandanum. Það þarf að spyrja réttra spurninga um orsakir og afleiðingar, setja sér markmið, raða í forgangsröð og gera áætlanir. Það þarf að leita allra leiða í samvinnu við landsmenn til atvinnusköpunar, nýta betur það sem við eigum og vera ódeig að prófa nýjungar. Atvinnusköpun þarf að beinast að konum sérstaklega vegna þess að atvinnuleysi er meira í þeirra röðum en meðal karla. Þær tillögur sem hingað til hafa litið dagsins ljós munu fyrst og fremst gagnast körlum. Það þarf nýjar áherslur, nýjar hugmyndir og nýtt blóð inn í íslenska stjórnkerfið. Eins og ræða hæstv. forsrh. hér í kvöld sýnir er nú komið fyrir ríkisstjórninni eins og keisaranum í ævintýri H.C. Andersens sem lét tvo loddara sníða sér föt úr engu. Nýju fötin keisarans sem kynnt voru hér í kvöld í bjartsýnistón eru ekki úr neinu og það er miklum meiri hluta þjóðarinnar löngu orðið ljóst. Þessir menn hafa ekkert fram að færa, engar framtíðaráætlanir eða framtíðarsýn. Ríkisstjórn sem gefist hefur upp á boðaðri stefnu sinni, jafnvel því trúaratriði að einkavæða, sem ég græt þó síst, stjórn sem nýtur ekki trausts og er nánast óstarfhæf vegna ágreinings og sundurlyndis á að sjá sóma sinn í að segja af sér og viðurkenna getuleysi sitt. Valdið er hjá þjóðinni og hún á að fá tækifæri til að gera upp við þá keisarahirð sem hér ráfar um klæðlaus eða skýlir sér undir pilsvaldi ríkisins. Þjóðin þarf að veita nýtt umboð til þeirra sem vilja setja samábyrgð, jöfnuð og réttlæti í öndvegi, þeirra sem vilja úthýsa þeirri rótgrónu spillingu sem gegnsýrir báða stjórnarflokkana. Valdið er hjá þjóðinni og nú er það hennar að knýja fram breytingar. --- Góðar stundir.