Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 22:38:23 (24)

[22:38]
     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Íslenskt samfélag hefur verið í mikilli tiltekt á undanförnum árum. Verðbólga sem áður mældist í tugum prósenta er nú hverfandi. Raunvextir voru áður stórlega neikvæðir og fjármagninu var stýrt pólitískt. Nú eru greiddir jákvæðir raunvextir, því miður of háir, en pólitísk stýring á fjármagni er nánast búin. Þrálátur viðskiptahalli og erlend skuldasöfnun með tilheyrandi innra ójafnvægi milli atvinnugreina hafa löngum verið vandamál. Nú er jafnvægið betra og fólk farið að leita út á landsbyggðina.
    Áður var samkeppni verulega ábótavant í viðskiptalífinu og verðlagshöft gildandi á mörgum sviðum. Nú hefur samkeppnin haldið innreið sína í hverja atvinnugreinina á fætur annarri og lög um samkeppni hafa tekið við af lögunum um verðlag. Ekki er langt síðan verslun með gjaldeyri var í viðjum. Nú eru gjaldeyrisviðskiptin að verða algjörlega frjáls og íslenska krónan skráð á gjaldeyrismarkaði. Fyrir nokkrum árum var íslenska skattkerfið gamaldags en nú er það byggt upp í samræmi við það sem tíðkast hjá helstu viðskiptaþjóðum okkar. Ekki er langt síðan Ísland var í flestu sérstakt tilfelli meðal nágrannaþjóða okkar en nú erum við hluti af Evrópska efnahagssvæðinu og höfum öðlast mikilvæg réttindi á stærsta markaði heimsins. Íslenskt samfélag hefur verulega aukið samkeppnishæfni sína á undanförnum árum. Við höfum leitast við að beita sambærilegum aðferðum við uppbyggingu viðskiptalífsins og þær þjóðir sem mestum árangri hafa náð. Um þessa meginstefnu hefur verið þokkalegt samkomulag ráðandi afla í íslenskum stjórnmálum, að vísu með nokkrum mikilvægum undantekningum sem þó hafa verið og munu verða afmarkaðar og tímabundnar.
    Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur unnið ötullega að veigamiklum umbótum á fjármagnsmarkaði og í skattamálum og afgreiðsla EES-samningsins er stórt framfaraskref.
    Síðan 1987 höfum við mátt þola samdrátt í okkar þjóðarbúskap vegna versnandi ytri skilyrða. Á sjö mögrum árum í sögu okkar þolum við 22% lækkun á kaupmætti ráðstöfunartekna og 6% fækkun starfa í atvinnulífinu. Samdrátturinn hefur fyrst og fremst komið fram í minni einkaneyslu heimilanna og minni fjárfestingu í atvinnulífinu. Samneyslan hefur hins vegar aukist. En tiltektin mikla hefur gert okkur betur kleift að þola erfiðleikana. Við höfum horft upp á fjöldamörg heimili í fjárhagslegum erfiðleikum. Margir hafa mátt þola atvinnuleysi og skuldabasl af þeim sökum. Önnur heimili hafa reist sér hurðarás um öxl í húsnæðismálum, m.a. vegna lækkandi tekna og það er stór hópurinn sem hefur þurft að taka á sig skuldir vegna áfallinna ábyrgða ættingja, vina eða fyrir gjaldþrota atvinnurekstur.
    Skuldir heimilanna eru mikið áhyggjuefni og skattkerfi okkar tekur engan veginn tillit til þess að margt fólk er orðið svo skuldsett. Einstaklingur sem tekur á sig milljón króna skuld vegna áfallinnar ábyrgðar og á að borga hana á þremur árum getur reiknað með greiðslubyrði á bilinu 30--35 þús. kr. á mánuði. Lítið má út af bera til þess að fólk í þannig stöðu lendi í vanskilum.
    En í þessum erfiðleikum okkar nú bæði hjá heimilum og fyrirtækjum skulum við spyrja okkur: Hvernig væri staðan ef verðbólgan væri 40% en ekki 4%? Ætli okkur yrði þá ekki býsna lítið úr peningunum? Hvernig væri staðan ef raunvextirnir væru enn þá neikvæðir og bullandi pólitísk stýring á fjármagninu? Ætli ýmsum þætti ekki biðin hjá bankastjórunum býsna löng og ströng og þeir ekki vera inn undir á réttum stöðum til þess að fá úrlausn sinna mála? Og hvað ef EES hefði ekki náð í gegn og við haldið á vit einangrunarhyggjunnar? Hvaða möguleika og framtíðarvonir ættum við þá að bjóða unga fólkinu upp á? Ríkisstjórnin hefur gert skyldu sína á erfiðleikatímum. Ábyrgð hefur verið höfð að leiðarljósi en ekki hefur verið hlaupið eftir stundarvinsældum.
    Ísland er í samkeppni á öllum sviðum. Ekki bara atvinnulífið heldur líka ríkið, velferðarkerfið og allt þjóðfélagið. Við verðum að hafa vilja til að standa okkur í þessari samkeppni, skapa hér þjóðfélag sem stenst samanburð við það sem best gerist meðal annarra þjóða. Íslendingar kusu sjálfstæði frá Dönum á sínum tíma vegna þess að þeir höfðu trú á framtíðina. Við sem nú höfum forræði mála verðum að skila landinu sterkara frá okkur en við tókum við því. Við þurfum því að halda áfram að breyta og bæta íslenskt samfélag.
    Ég vil að lokum nefna að fullveldishugtakið er að breytast í heimi síaukinna heimsviðskipta, alþjóðlegra viðfangsefna og vandamála og samskipta milli þjóða. Fullveldi nítjándu aldarinnar þýddi rétt þjóðarinnar til að ráða málum sínum sjálf og á þeim forsendum unnum við sjálfstæði okkar. Fullveldi 21. aldarinnar þýðir hins vegar rétt þjóðarinnar til að taka þátt í þeim ákvörðunum á fjölþjóðlegum vettvangi sem snerta hagsmuni hennar. Við munum á næstu árum þurfa að halda vel á málum til þess að viðhalda fullveldi okkar og sjálfstæði.
    Hver þjóð er sjálfri sér næst en við verðum að vernda okkar hagsmuni í nýjum heimi þar sem gerðir eru sífellt viðameiri samningar milli ríkja um gagnkvæm réttindi og skyldur. Þetta verða líka helstu átakamál íslenskra stjórnmála í næstu framtíð og það er ósk mín að hvar sem við komum til að standa í þeim átökum megum við aldrei gleyma arfi okkar, menningu og metnaði til að standa í fremstu röð meðal þjóða heims. --- Góðar stundir.