Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 22:44:32 (25)

[22:44]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Fjárlagafrv. er stærsti áfellisdómur um ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Enda segir á einum stað í frv. að það einstigi sem ríkisstjórnin hafi valið sér hafi víða reynst vandratað. Atvinnuleysi hafi margfaldast, afkoma ríkissjóðs hríðversnað og skuldir farið ört vaxandi. Þetta er sjúkdómslýsingin hér, gott að hæstv. fjmrh. greinir sjálfur bjálkann í eigin auga. Hér er því fyrst og fremst skollinn á kreppa af mannavöldum enda er ríkisstjórnin rúin trausti, sú óvinsælasta á þessari öld.
    Fyrr í kvöld hitti ég hér á Austurvelli einn af fyrrum frammámönnum Sjálfstfl. Ég sagði við þennan ágæta mann: Nú ætla ég að deila hart á flokkinn þinn. Hann svaraði að bragði: Slepptu því og haltu frekar minningarræðu þar sem enginn Sjálfstfl. er lengur til. Fólkið segir sem er: Þessi stefna með sínum bölmóði og árásum var ekki boðuð í síðustu kosningum. Það hefur verið undarleg ógæfa yfir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Spyrja má: Er hún verkfæri fámennrar klíku eða siglir hún undir óheillastjörnu? Um suma ráðherranna mætti nota lýsingarorð Halldórs Laxness fyrr á öldinni um umdeildan ráðherra þá. Versið er á þessa leið:
    ,,Þó sumir ráðherranna hafi alls ekki verið ógeðfelldir menn áður en þeir tóku sæti í ríkisstjórninni þá er engu líkara en skaparinn hafi klúðrað á þá tréhendi svo allt sem þeir koma nærri verður að axarskafti.``
    Ríkisstjórnin er að fremja mörg axarsköft. Hún er að veikja heilbrigðis- og skólakerfið. Er það sparnaður að búa til biðraðir við skurðdeildir sjúkrahúsanna? Láta einstakling sem þarf í hjarta- eða mjaðmaaðgerð bíða í fimm mánuði? Hver er áhættan? Hvert er vinnutapið? Svo heyrast þær raddir innan úr heilbrigðisgeiranum að sú stefna sé í umræðu að neita öldruðu fólki um aðgerð. Það sé of dýrt og skipti svo sem ekki miklu máli hvort það deyi strax, aldurinn sé orðinn hár. Ég segi: Guð forði okkur frá svona hugsun. Það á ekki að meta líf eftir aldri eða peningum.
    Hæstv. utanrrh. bað hér um stuðning við hæstv. heilbrrh. Við viljum láta hæstv. heilbrrh. í té allan stuðning. En hvernig er hægt að styðja ráðherra sem með skyndiákvörðunum sker 180 millj. af Landakotsspítalanum, lokar mikilvægu vistheimili í Gunnarsholti? Ráðherra sem vísar minni máttar þannig á guð og gaddinn? Ráðherra sem lokar barnadagheimilum með 700 börnum og í rauninni sviptir 1.400 foreldra atvinnu sinni? Svona ráðherra þarf að mínu viti að byrja á félagsmálanámskeiði. En um fram allt þarf þessi hæstv. ráðherra að lesa þær ræður sem hann flutti áður en hann klæddist í hin stóru föt Sighvats Björgvinssonar.
    Ég tók eftir því að á einum stað henti það hæstv. forsrh. að fara með rangt mál og villandi upplýsingar. Það var þegar hann ræddi vaxtamál. Var það viljandi gert að skrökva að þjóð sinni? Hefur hann móral vegna þess að hann hefur fært fjármagnseigendunum allt frítt síðan hann tók við völdum á Íslandi? Hið rétta í vaxtamálunum er þetta: Þegar ríkisstjórnin tók við var frumsala spariskírteina 6,5% en ekki 8,45% eins og hæstv. forsrh. sagði. Hins vegar voru það fyrstu verk þessarar ríkisstjórnar að hækka vexti spariskírteina úr 6,5% í frumsölu upp í 8,30% hæst í október 1991. Menn skulu gera sér grein fyrir því að hér er um vexti á innlánsfé að ræða.
    Í nýlegri athugun sem gerð hefur verið af einum verðbréfasjóði sker Ísland sig úr þar sem raunvextir ríkisbréfa eru hér miklu hærri en þekkist annars staðar. Eina raunhæfa leiðin til lækkunar vaxta er því sú að íslenska ríkið lækki sín tilboð um svona 3%. Þá er víst að almennir útlánsvextir munu lækka að sama skapi. Við þessa aðgerð yrðu stærstu fjármagnseigendurnir, sem eru lífeyrissjóðirnir í landinu, að lækka sína ávöxtunarkröfu. Spyrja má: Hverjir eiga lífeyrissjóðina? Er það ekki almenningur sem stynur undan hinni háu vaxtakröfu? Lífeyrissjóðirnir og stóru fjármagnseigendurnir í landinu verða að slá af kröfum sínum og taka þátt í nýrri þjóðarsátt.
    Sjávarútvegurinn er rekinn með halla og hæstv. sjútvrh. unir gjaldþrotastefnunni vel. Hann hikar í stefnumótuninni og óvissa er daglegt brauð undir hans forustu. Þróunarsjóðurinn dagaði uppi í vor og engin samstaða er á milli stjórnarflokkanna um breytingar á fiskveiðistefnunni. Tekst Alþfl. að smygla inn auðlindaskatti? Það er undarlegt hvað þessi litli, agnarlitli flokkur ræður miklu í þessu landi. Sjútvrh. tekur að vísu dýfur og heldur þrumandi ræður en allar skulu þær vera langt frá Stjórnarráðinu. Bergmálið heyrist ekki einu sinni inn til hæstv. forsrh. Hann sendir að vísu fugla út af örkinni til að deila við sjómenn. Þröstur Ólafsson og Vilhjálmur Egilsson eru sjálfsagt gott afþreyingarefni í sjávarþorpum en stefnan skýrist ekki. Hæstv. sjútvrh. verður að eyða þessari óvissu. Stefnuleysið veldur lamandi ótta og átökum um okkar aðalatvinnuveg. Trillukarlar vilja lifa, útgerðin vill rekstrargrundvöll, fiskvinnslufólkið vill stefnu þar sem mest af aflanum er fullunnið hér í landinu. Hvar er hattur, hvar er húfa ráðherrans, hvar er stefna hæstv. sjútvrh.?
    Hæstv. forsrh. varaði fyrr í kvöld við stéttaátökum og sagði, með leyfi forseta:
    ,,Borgarbúinn hlýtur að koma til móts við bóndann og bóndinn að koma til móts við borgarbúann ef vel á að fara. Stundarhagsmunir þeirra kunna að rekast á en til lengri tíma eiga þeir í sameiginlegri baráttu og sameiginlega hagsmuni.``
    Þessi orð eru sögð af skynsemi og þau eru kjarni málsins. Þau eru spurningin um það hvort við ætlum að vera þjóð áfram. Alþfl. hefur ráðist enn einu sinni af heift á landbúnaðinn. Það hefur líka stærsta verslunarkeðja landsins gert. Alþfl. virðist ekki skilja lengur þjóðarhagsmuni. Hann á sér engin landamæri.
    Landbúnaðurinn sér 12--15 þús. manns í þéttbýli fyrir atvinnu við úrvinnslu og þjónustu. Eigum við að fela erlendu verkafólki að vinna þessi störf? Eigum við að fela versluninni að flytja þessa vöru inn í landið? Skilar íslenska verslunin einhverjum vörum á heimsmarkaðsverði? Ég segi nei.
    Eitt dagblaðanna upplýsti að 10--15 þús. Íslendingar væru nú fyrir jólin að fara til Bretlands og Írlands til að kaupa fatnað og glingur. Hvers vegna? Vegna þess að varan hækkar óeðlilega í hafi.
    Ég hygg að bændur deili áhyggjum sínum með neytendum. Milliliðirnir taka of mikið til sín, varan er dýr í borði verslunarinnar og hlutur bóndans rýrnar með hverju ári og í mörgum tilfellum hverfur hann alveg með tíðum gjaldþrotum verslana. Er þá sanngjarnt af hálfu verslunarkeðjunnar að bjóða erlendum bændum að selja vöruna án álagningar en í ýmsum tilfellum leggja 50--100% á það sem íslenski bóndinn er að selja?
    Hvar eru neytendasamtök þessa lands? Eigum við gjaldeyri til að kaupa öll matvæli inn í landið? Ekki vex gjaldeyrir á trjánum hér vestur við Hagatorg.
    Síðan er kalkúnaþáttur hæstv. ráðherra, Jóns Baldvins Hannibalssonar, kapítuli út af fyrir sig. Hann

snýst ekki um landbúnað heldur lög og siðferði.
    Hæstv. forsrh. hefur lýst þessum ráðherra sem lögbrjót og sagt að ráðherrann hafi verið mjög óheiðarlegur. Framferði hæstv. utanrrh. var nefnilega grafalvarlegt. Hann braut reglugerð setta með lögformlegum hætti. Slíkt athæfi hefði í engu landi verið liðið. Forsrh. hefði leyst slíkan ráðherra frá störfum samdægurs. Þegnar þjóðfélagsins verða að hlýða lögum. Ráðherrum um víða veröld líðst ekki að brjóta lögin.
    Íslenska þjóð, ég vona að það fari bjartari tími í hönd. Ég býð góða nótt.