Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 22:55:44 (26)

[22:55]
     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur nú setið að völdum um tveggja ára skeið. Á þessum tveimur árum hafa utanaðkomandi aðstæður verið íslenskri þjóð miklu harðdrægari en nokkurn gat órað fyrir. Verð útflutningsafurða hefur fallið samfara gífurlegum samdrætti í þorskafla landsmanna. Í ofanálag hefur hallarekstur ríkissjóðs til margra ára og í framhaldi af því aukin skuldasöfnun gert okkur erfiðara um vik að takast á við aðsteðjandi vanda. Þannig hefur hinn stöðugi hallarekstur ríkissjóðs ásamt oft á tíðum óæskilegum afskiptum stjórnmálamanna af einstökum atvinnufyrirtækjum og atvinnugreinum haft þær afleiðingar að við búum við hærra vaxtastig en æskilegt er. Vaxtastigið getur ekki lækkað svo um munar ef stöðugt eru gerðar kröfur um aukin ríkisútgjöld og það án þess að aukin skattheimta komi til. Það er einfaldlega svo, og eru ekki mikil vísindi, að ekki verður bæði sleppt og haldið.
    Það hlýtur að vera öllum alvarlegt umhugsunarefni, ekki síður almenningi en stjórnmálamönnum hvernig farið hefur verið með sameiginleg verðmæti þjóðarinnar síðustu tvo áratugi. Í góðærinu hefur átt sér stað sóun í stað þess að mynda sjóði til mögru áranna sem óhjákvæmilega kemur einhvern tíma að. Þessi mögru ár eru nú orðin sex í röð og því miður ekki útlit fyrir að á verði veruleg breyting til batnaðar á næstu missirum. Það hlýtur því að vera meginverkefni þessarar ríkisstjórnar í framtíðinni sem hingað til að hamla gegn því mótlæti sem þjóðin býr nú við.
    Það er oft vel til vinsælda fallið að hafa uppi háreisti og stóryrði eins og ýmsir stjórnarandstæðingar hafa tíðkað þar sem því er haldið fram að velferðarkerfið sé að hruni komið. Stjórnarandstaðan hefur einkum beint spjótum sínum að þeim heilbrigðisráðherrum sem setið hafa í þessari ríkisstjórn. Undangegnin tvö ár var það fyrrv. hæstv. heilbrrh. sem var úthrópaður, hann sæist ekki fyrir í árásum á gamalmenni, öryrkja og sjúka í þessu landi. Um tíma trúði þjóðin þessum gífuryrðum. Það hefur hins vegar komið á daginn, eins og alþjóð veit nú, að þjónustu velferðarkerfisins hefur ekki sett niður. Þvert á móti hefur hún víða verið aukin en einkum hefur verið leitast til að nýta takmarkaða fjármuni, þannig að þeim sé fyrst og fremst beint til þeirra sem mest eru þurfandi í samfélaginu.
    Ég veit og er þess fullviss að á þeim nótum mun núv. hæstv. heilbrrh. vinna og þrátt fyrir harkalega aðför sem hann hefur þegar orðið fyrir og mun verða fyrir nú á næstu vikum í þinginu og í þjóðfélaginu þá mun hann umfram allt vinna að því að bæta hag þeirra sem við lökust skilyrði búa. Því hlutverki mun heilbrrh. reynast trúr, trúrri heldur en ýmsir þeir sem hæst kann að láta í.
    Á allra síðustu dögum höfum við heyrt válegri tíðindi frá grannþjóð okkar Færeyingum en nokkurn óraði fyrir. Ungt fólk er að yfirgefa þjóð sína þar sem rætur þess liggja og reynir að leita á önnur mið. Það fólk í Færeyjum sem aflað hefur sér menntunar sækist eftir störfum annars staðar. Þetta heitir atgervisflótti. Það er óþarft að rekja raunasögu Færeyinga en ég lít með hryllingi til þess kafla sem nú er að hefjast í þeirri harmsögu. Svo er komið að Færeyingum er ljóst að rót hins mikla vanda sem þjóðin býr við og mun búa við næstu árin er gegndarlaus skuldasöfnun í kjölfar offjárfestingar þjóðarinnar í skjóli þess að vilja gera allt fyrir alla án tillits til þess hvort fjármunir eru fyrir hendi og án tillits til þess hvort þarfir voru til staðar. Stjórnmálamönnum er þar um kennt enda hafa þeir farið með sameiginlega sjóði þjóðarinnar. Ég ætla í einlægni að vona að til þess megi aldrei koma í samfélagi okkar að unga fólkið kjósi að yfirgefa þjóð sína, að atgervisflótti verði. Svo mun hins vegar fara ef ekki verður spyrnt við fótum, smærri hagsmunir verða að víkja fyrir hinum stærri. Alþfl., Jafnaðarmannaflokkur Íslands, vill ekki vera einn þeirra stjórnmálaflokka sem koma þjóð sinni í vanda viðlíkan þeim sem er í Færeyjum. Við slíkar aðstæður geta hugsjónir jafnaðarmanna ekki náð fram að ganga, kjör hinna lakast settu verða ekki varin. Því er það þjóð okkar nauðsynlegt að ríkisstjórn, þing og þjóð megi greina kjarnann frá hisminu, sjá skóginn fyrir trjánum í þeirri baráttu sem fram undan er.