Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 23:01:05 (27)

[23:01]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti, gott kvöld, góðir Íslendingar. Í lýðræðisþjóðfélagi er opin og hispurslaus umræða nauðsynleg. Eðli máls samkvæmt eru skiptar skoðanir um einstakar ákvarðanir og viðhorf stjórnmálamanna. Víða erlendis er gert út um slík ágreiningsefni með vopnavaldi. Það hefur verið að gerast í Rússlandi síðustu dægrin. Við hér á Íslandi förum hinar lýðræðislegu leiðir, við ræðum málin jafnvel þótt deila megi um gagnsemi umræðunnar á stundum. En þótt skoðanir séu skiptar um einstök mál eru ákveðin grundvallaratriði sem flestir ef ekki allir Íslendingar eru sammála um. Ég hygg að landsmenn allir telji það mannréttindi að hver vinnufær maður hafi atvinnu. Á sama hátt binst fólk tryggðarböndum um að gæta náungans, tryggja framfærslu og heilsu hvers einasta Íslendings eins og frekast er kostur. Þetta hefur stundum verið nefnt velferðarkerfi. Samhjálp og aðstoð fólks gagnvart meðbræðrum sínum og systrum sem eiga um sárt

að binda. Í þeim efnum er málaflokkur heilbrigðis- og tryggingamála hvað mikilvægastur. Rúmlega 47 þús. millj. kr. renna til að tryggja heilsu og hag landsmanna á þessum vettvangi. Milli 10 og 15 þús. einstaklingar veita þessa þjónustu. Langflestir landsmanna njóta hennar. Það hefur verið mótstreymi í íslensku þjóðfélagi á umliðnum missirum og árum. Þjóðartekjur hafa dregist saman, það hefur harðnað á dalnum. Um þær staðreyndir þarf ekki að deila. Þessi efnahagskreppa er ekki bundin eingöngu við Ísland. Það hefur einnig verið atvinnu- og efnahagskreppa hjá öðrum iðnvæddum þjóðum. Hér hefur hún hins vegar lagst á með tvöföldum þunga vegna erfiðleikanna í sjávarútvegi. Við höfum því háð varnarbaráttu. Það er óhjákvæmilegt að slíkur samdráttur leiði til erfiðleika hjá fólki. Hvert einasta heimili finnur fyrir andstreyminu. En í mótvindi er mikilvægt að hrekjast ekki af leið, þá reynir á þolgæði og kraft. Íslendingar hafa kraftinn og þolið, það hafa þeir sýnt áður og það munu þeir aftur sanna nú. Við munum komast upp úr öldudalnum með sameiginlegu átaki.
    Því hefur verið haldið fram að á erfiðleika- og samdráttartímum sé mikil hætta á því að samhjálpina bresti, að áhugi fólk á því að rétta náunganum hjálparhönd minnki --- hver verði sjálfum sér næstur. Þetta má ekki gerast. Við verðum að standa vörð um grundvallaratriði, markmiðin um atvinnu fyrir alla, að allir geti notið menntunar sem þeir kjósa og við búum vel að öldruðum sem við eigum svo margt að þakka, að við hlúum að börnum okkar, framtíðinni, og við gætum að sjúkum, öryrkjum og öðrum þeim sem um sárt eiga að binda. Samhjálparþjóðfélagið má ekki bresta þótt vindar blási.
    Í starfi mínu sem heilbrrh. á umliðnum mánuðum hef ég reynt að haga verkum mínum á þann veg að grundvöllur velferðarkerfisins raskist ekki. Hinu verður ekki fram hjá því horft að þeir fjármunir sem til þessara málaflokka renna eru af skornum skammti. Krónunum fækkar, peningarnir eru einfaldlega ekki til í þjóðarbuddunni til að halda áfram á óbreyttri braut. Í því ljósi hef ég reynt að spara og hagræða á þann veg að meginatriði, grundvöllurinn, máttarstólpar velferðar og samhjálpar megi halda sér.
    Ýmsar þær tillögur sem ég hef kynnt með þessi markmið að leiðarljósi hafa hlotið hörð viðbrögð. Tillögur um að sveitarfélögin taki að sér rekstur leikskóla sjúkrahúsanna á næsta ári, sem lögum samkvæmt er þeirra verkefni, hafa verið gagnrýndar. Ég hef af þeim sökum verið sakaður um að vera óvinur barna --- ekkert minna. Tillögur um tilfærslur og hagræðingu í kerfi áfengismeðferðar, þ.e. flutningur vistmanna á Gunnarsholti yfir í önnur jafnvirk en ódýrari úrræði hafa kallað fram viðbrögð þar sem mér hefur verið núið því um nasir að ýta fólki út á götu í eymdina og óöryggið, út á guð og gaddinn, sem virðulegur þingmaður orðaði svo skemmtilega hér áðan.
    Hugmyndir mínar um að marka heilbrigðis- og velferðarkerfinu nýjan tekjustofn, heilsukort, nýja peninga sem skattgreiðendur borga, ekki aðeins þeir sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda, hefur verið kallað það að brjóta niður grundvöll heilbrigðiskerfisins, búa til tvöfalt kerfi fyrir ríka og fátæka --- ekkert minna. Þetta er út í hött. Það má samkvæmt þessu hvorki spara né afla fjár. Er það trúverðugur málflutningur af hálfu stjórnarandstöðu? Ég segi nei.
    Málefnalegar umræður um þessar tillögur og aðra þætti heilbrigðis- og tryggingamála eru nauðsynlegar. Ég frábið mér hins vegar að stóryrði og fráleitar staðhæfingar á borð við þær sem ég rakti á undan komi að gagni. Ég mun láta einskis ófreistað að tryggja hag þeirra barna sem hafa verið vistuð á leikskólum sjúkrahúsanna og það sama gildir um starfsfólk leikskólanna. Hver einasti vistmaður á Gunnarsholti sem hefur þörf fyrir áframhaldandi heilbrigðisþjónustu að mati okkar færustu sérfræðinga fær hana, svo einfalt er það.
    Heilsukort munu ekki leiða til grundvallarbreytinga á velferðarkerfinu, þau munu hins vegar verða til þess að nýir fjármunir munu koma inn í heilbrigðis- og tryggingakerfið til að styrkja það. Framlag hvers einstaklings til þessa er ætlað um 2.000 kr. á ári, eða sem svarar 5 kr. og 48 aurum á hverjum degi. --- Ég endurtek: 5 kr. og 48 aurar á hverjum degi, frá hverjum Íslendingi inn í heilbrigðiskerfið. Er það leiðin til að rústa okkar ágæta velferðarkerfi?
    Það er nefnilega alvarlegt mál þegar því er skrökvað að tilfærslur og hagræðing og tekjuöflun til velferðarþjónustu þýði ekkert minna en eyðileggingu velferðarkerfisins. Það er auðvitað fráleitt. Ekki síst í ljósi þess að útgjöld til þessara mikilvægu málaflokka eru upp á 47 þús. millj. kr. á næsta ári og ríflega það, hækkar raunar að krónutölu milli ára, frá því að vera 46,1 milljarður í fjárlögum á þessu ári í 47,6 milljarða á næsta ári. Það er með öðrum orðum aðeins reynt að stemma stigu við útgjaldaaukningunni, treysta grundvöll velferðar.
    Hér má ætla af ræðum stjórnarandstæðinga og fjölmiðlaumræðu á umliðnum vikum að ég hafi það eitt markmið og það er að rústa velferðarkerfið. Það eru algjör öfugmæli. Sumir sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Allt mitt starf miðar þvert á móti að því að tryggja áfram þau viðhorf samhjálpar og aðstoðar sem heilbrigðis- og tryggingakerfið okkar byggir á. Ég vil forða því að við stöndum frammi fyrir því eftir einhver missiri eða ár að þetta mikilvæga samhjálparkerfi okkar sé orðið okkur fjárhagslega ofviða og það hrynji til grunna. Við verðum að finna því fjárhagslega traustan grundvöll. Ég bið um samvinnu um þau markmið. Í því sambandi mun ég freista þess með aðgerðum í lyfjamálum að lækka álagningu lyfja, lækka með öðrum orðum lyf í verði. Kostnaður velferðarkerfisins vegna rannsókna og röntgens mun lækka. Fyrirkomulag á störfum lækna innan sjúkrahúsa og utan er til skoðunar hjá Ríkisendurskoðun og mun væntanlega leiða til sparnaðar. Þetta eru örfá dæmi um það að útgjöld í kerfinu verða minnkuð án þess að það muni hafa nokkur áhrif á þjónustu við notendur. Við höfum byggt upp trausta og góða þjónustu í heilsugæslustöðvum um allt land. Við eigum fullkomin sjúkrahús í öllum landshornum. Við eigum á að skipa vel menntuðu og hæfu starfsfólki í heilbrigðismálum. Við eigum gott almannatryggingakerfi. Við eigum þjóð sem er heilsuhraust, þjóð sem stendur saman, þjóð sem byggir á þeim grunni að samfélagið lætur sig varða um afkomu hvers einasta þjóðfélagsþegns.
    Um leið og við hagræðum heldur uppbyggingin áfram þar sem þörfin er hvað brýnust. Ný deild fyrir 25--30 aldraða einstalinga opnar hjá Eir nk. föstudag hér í Reykjavík. Stofnun fyrir fjölfatlaða er að hefja rekstur á Reykjalundi þessa dagana. Við réttum sárum og þjáðum í Bosníu hjálparhönd. Nýir möguleikar, svo sem eins og í Bláa lóninu, vekja vonir um gjaldeyrisskapandi starfsemi í heilbrigðiskerfinu. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur þegar heilsan er annars vegar. Við skulum því ekki gleyma grundvallaratriðum heilbrigðismálanna, nefnilega þeim að stuðla að almennu heilbrigði með breyttum og bættum lífsháttum. Að því er unnið með vaxandi fyrirbyggjandi starfi ýmiss konar og síðan því að freista þess að lækna sjúka og lina þrautir þeirra. Heilbrigðiskerfið er til fyrir fólkið en ekki fólkið fyrir kerfið. Það er meginatriðið. Við megum ekki missa sjónar af aðalatriðum í hávaða um aukaatriðin. Margar fjölskyldur eiga erfitt með að láta enda ná saman. Það þarf að lækka vexti. Að því er unnið. Það þarf að lækka matarverð, það gerist m.a. með auknu frelsi varðandi innflutning landbúnaðarafurða. Það þarf að ná fram sátt um raunverulega hagræðingu í sjávarútvegi, þar mun Þróunarsjóður gegna mikilvægu hlutverki. Það þarf markaðssókn fyrir afurðir okkar, EES-samningurinn mun opna nýjar leiðir í þeim efnum. Við þurfum að styrkja stoðir atvinnuveganna og vinna gegn atvinnuleysi. Við munum nýta auðlindir okkar á næstu árum. Við munum halda áfram að virkja og selja rafmagn í auknum mæli til stór- og smáiðnaðar víða um land. Ferskvatnið okkar góða mun skila okkur gjaldeyristekjum í næstu framtíð. Hugvit og nýsköpun opnar okkur nýjar leiðir. Við Íslendingar munum vinna okkur út úr hinum stóru vandamálum en í þeirri baráttu gagnast ekki yfirboð eða langir óraunhæfir loforðalistar stjórnarandstöðu, heldur traust og ábyrg landsstjórn núv. ríkisstjórnar.
    Góðir Íslendingar. Nú er ekki tíminn til að missa móðinn. Nú er tíminn til að þétta raðirnar og standa saman til nýrrar sóknar. Við Íslendingar eigum góða möguleika fyrir stafni. Við eigum að sníða okkur stakk eftir vexti og byggja á hinum góða grunni vinnusemi og þolgæði með trú á getu okkar og kraft. Stöndum saman að þeim markmiðum, þá þurfum við ekki að kvíða framtíðinni. --- Góðar stundir.