Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 23:23:46 (29)

[23:23]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Lítilsvirðingin sem ríkisstjórnin sýnir þegnum þessa lands er illþolanleg. Þessi lítilsvirðing birtist með ýmsum hætti. Með þyngri sköttum á laun, jafnvel þau allra lægstu, og það þótt kaupmáttur þessara launa fari minnkandi. Á sama tíma sleppa þeir sem eiga umtalsvert fjármagn. Undanbrögð ríkisstjórnarinnar nú þegar loksins átti að leggja á fjármagnstekjuskatt eru því miður ekki

aðeins hlægileg heldur allt of dýr fyrir þá sem þurfa að borga í staðinn. Samningar við stéttarfélög eru í uppnámi vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að sækja 1,5 milljarða í vasa launþega á móti á svona að sletta 150 millj. kr. í barnafjölskyldur og þykjast kvitt.
    Sjúklingar fá sinn skerf af lítilsvirðingu. Þeir mega lifa í stöðugri óvissu um það hvort þeir hafi efni á því að greiða fyrir lyfin sín og núna síðast hvort þeir verði skattlagðir sérstaklega með einum eða öðrum hætti. Geðþóttaákvarðanir virðast ráða í samskiptum ríkisins við opinbera starfsmenn. Uppsagnir og endurráðningar upp á margvísleg býti verða sífellt algengari. Ræstingarfólki í skólum var heitið því að kjör þeirra yrðu þau sömu og fyrr í náðarfaðmi einkavæðingarinnar en annað kom á daginn. Starfsfólki á sjúkrahúsum er sagt að anda rólega þegar það fréttir óvænt að börnum þeirra verði vísað út af leikskólum sínum um áramótin. Heilbrrh. telur að þetta hljóti að reddast, en, hæstv. heilbrrh., þetta reddast ekki. A.m.k. ekki með þessum vinnubrögðum. Reykjavíkurborg er t.d. ekki reiðubúin til að hlaupa til með pyttlu og setja undir þennan leka. Svona vinnubrögð duga ekki.
    Skólastjórnendum og nemendum er gert nánast ókleift að skipuleggja starf sitt vegna niðurskurðar og róðurinn er þungur þegar skólastarfið hefst. Íslenskukennslu hefur þurft að skera niður á sama tíma og erlend áhrif í sjónvarpi og öðrum miðlum eru ört vaxandi. Verkmennt á undir högg að sækja vegna niðurskurðarins. Það er dýr kennsla og freistandi að skerða hana. Á hverju á verkmenning framtíðarinnar að byggjast?
    Í tungumálakennslu í framhaldsskólum er það orðið alsiða að fjöldi í hóp sé yfir 30 þótt allir séu sammála um að slíkt sé útilokað og ekki bjóðandi í nokkurri námsgrein.
    Það er lítilsvirðing við fjölskyldur áfengissjúklinga og ýmsa þá sem standa höllum fæti í samfélaginu að skerða þjónustu við áfengissjúklinga og það án þess að geta bent á önnur og betri úrræði. Slíkt getur reynst dýr sparnaður og því miður var ekkert sem hönd var hægt að festa á að heyra í máli hæstv. ráðherra nú hér áðan.
    Mesta lítilsvirðingin sem ríkisstjórnin hefur sýnt þjóðinni er þó sú að leyfa henni ekki að segja álit sitt á EES-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað er svona háskalegt við álit þjóðarinnar?
    Ríkisstjórnin verður þó seint sökuð um það að bera ekki virðingu fyrir einhverju og einhverjum. Hún ber greinilega óttablandna virðingu fyrir fjármagnseigendum. Það má ekki sýna neina fljótfærni þegar þeir eru skattlagðir, en sjúklingar mega sæta því að á þeim hafa verið gerðar margar og misvelhugsaðar skattheimtutilraunir. Ríkisstjórnin ber einnig óttablandna virðingu fyrir skrifræðinu í Brussel. Svo mikla að á verkefnalista hennar er enn að finnan ýmis forgangsverkefni beint af borðunum í Brussel, svo sem frv. til laga um flutninga með járnbrautum, skipgengum vatnaleiðum og fleira vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Það leynir sér ekki að ríkisstjórnin telur að brýn þörf sé á slíkri löggjöf hér á landi. En þjóðina virðir ríkisstjórnin lítils eins og þau dæmi sanna sem ég rakti áðan.
    Hugsunarháttur lítilsvirðingar er hættulegur. Hann eykur það bil sem er á milli þjóðarinnar og valdhafa. Lítilsvirðing getur haft mörg andlit, valdníðslu mannfyrirlitningar og stundum kvenfyrirlitningar. Athyglisvert dæmi um hið síðastnefnda er framkoma samherja hæstv. félmrh. í hennar garð. Þegar hún fékk sig fullsadda af óheilindum formanns síns afgreiddi hann gagnrýni hennar sem hálfgert bull. Það er sýnu athyglisverðara í ljósi þess að hæstv. forsrh. kvartaði nokkrum vikum síðar undan óheiðarleika Alþfl. í samstarfi og vísaði til samstarfs við sama formanninn. Þá þótti sú yfirlýsing hafa mikið vægi og menn veltu því fyrir sér hvort nú kæmi til stjórnarslita. Hugarfar og fordómar ráða æðimiklu í samfélaginu og slíkt birtist konum í ýmsum myndum. Slíkt birtist m.a. í því að gera lítið úr gagnrýni konu í ráðherrastól og alvarlegri eru þau þegar ofbeldi gegn konum fær slaka umfjöllun í rannsóknar- og dómskerfi okkar.
    Fjölda nauðgunarmála er vísað frá á ári hverju og sumir dómar sem kveðnir eru upp í slíkum málum eru smánarlega vægir. Þegar svo er komið er varla að undra þótt þjóðin andmæli. Þegar slíkt hugarfar ræður ferðinni í dómskerfi eða hjá öðrum ráðamönnum þá er ástandið hjá okkur lítið betra en þar sem stjórnvöld líða það að nauðganir séu þáttur í stríðsrekstri.
    Við höfum risið upp á alþjóðavettvangi og fordæmt grimmdarverk og nauðganir í Bosníu. Það er vel. En við ættum að gefa því gaum að sá hugsunarháttur sem umber kvenfyrirlitningu í einhverri mynd greiðir götuna fyrir ofbeldi gegn konum. Því hefur verið haldið fram að jarðvegurinn fyrir ofbeldisverkin í Bosníu hafi verið kvenfyrirlitning og klámiðnaður. Það kann að virðast langsótt en ef málið er skoðað í ljósi þeirrar staðreyndar að mörg þessara grimmdarverka voru fest á myndband og dreift á almennan klámiðnaðarmarkað er þó erfitt að neita þessum tengslum.
    Valdhroki og lítilsvirðing birtist í ýmsum myndum í hinum margvíslegu samfélögum heimsins. Stríðsrekstur og grimmdarverk þrífast best í andrúmslofti valdhroka og lítilsvirðingar fyrir öllum mannlegum gildum.
    Hroki mannsins gagnvart umhverfinu hefur valdið okkur öllum ómældu tjóni, hugsanlega óbætanlegu. Hroki Vesturlanda gagnvart ríkjunum í suðri er tímasprengja sem gæti sprungið þá minnst varir. Þróunaraðstoð í margvíslegri mynd er nauðsynleg til að bæta samskipti þjóðanna og siðferðisskuld, sem okkur ber að greiða. Við Íslendingar ættum ekki að gleyma tíma nýlendukúgunar, þótt við sitjum nú á bekk með þeim betur megandi í veröldinni.
    Vaxandi lítilsvirðing í garð almennings ógnar lýðræði, bæði hér á landi og annars staðar. Lítilsvirðing í garð einstakra hópa samfélagsins, stórra og smárra, er ekki bara siðlaus heldur einnig háskaleg.

Við brjótum á börnum okkar ef við búum þeim ekki betra samfélag, sómasamlega skólagöngu og haldgóðan undirbúning út í lífið. Við verðum einnig að bregðast við því vaxandi ofbeldi og vímuefnaneyslu sem nú blasir við unglingum. Við verðum að tryggja sjúkum, öldruðum og fötluðum mannsæmandi líf í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin hefur engan rétt til að ráðskast með þessa hópa án þess að tala við þá sem í hlut eiga. Við verðum að útrýma þeim hugsunarhætti, sem elur á fordómum. Það kann t.d. að henta einhverjum að gera lítið úr því sem konur segja og gera. Þannig er reynt að þagga niður í konum í ráðherrastólum og víðar. Þannig er reynt að þegja ofbeldi gagnvart konum í hel. Þannig er reynt að þvæla konum inn og út af vinnumarkaðnum eftir geðþótta annarra en þeirra sjálfra.
    Virðulegi forseti. Smærri hagsmunir verða að víkja fyrir hinum stærri, sagði hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson hér fyrr í kvöld. Ég held að hann hljóti að hafa meint: Hagsmunir hinna smærri verða að víkja fyrir hagsmunum hinna stærri.
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Það er hart að þurfa yfir höfuð að fjalla um virðingu og lítilsvirðingu í þessum sölum. En virðingarleysi stjórnvalda gagnvart almenningi, gagnvart einstökum samherjum sínum, gagnvart stjórnarandstöðunni og gagnvart almennum kröfum um þokkalegt siðferði er slíkt að ekki verður við unað. Ríkisstjórn með einhverja sómatilfinningu væri fyrir löngu farin frá. --- Góða nótt.