Rekstur dagvistarheimila sjúkrahúsanna

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:10:47 (39)


[14:10]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér er í sjálfu sér ekki tími til að ræða þá fjölmörgu þætti heilbrigðismála sem hafa verið í umræðunni að undanförnu. Fyrstu spor hæstv. ráðherra sem eru ekki nógu góð, því miður. Það er ekki ráðrúm til að ræða um heilsukortin og ekki atvinnuleysisskattinn sem hann ætlar að leggja á, sjúklingaskattinn og það er ekki ráðrúm hér til að ræða um það af hverju hann ætlar að leggja niður Framkvæmdasjóð aldraðra. Hins vegar er hér ráðrúm til að ræða um það við hann af hverju hann fer svona fram í því máli sem snertir leikskóla í tengslum við spítala. Af hverju eru vinnubrögðin svona? Ég trúi því ekki að hann hafi boðið Hafnfirðingum upp á vinnubrögð af þessu tagi þann tíma sem hann var bæjarstjóri í Hafnarfirði og var talinn hafa staðið sig vel. Ég trúi því ekki að hann hafi boðið Hafnfirðingum upp á vinnubrögð sem eru þannig að tilkynna með nokkurra daga fyrirvara að það eigi að loka heilu stofnununum. Ég trúi því ekki að hann hafi þar ástundað vinnubrögð eins og þau sem hafa það í för með sér að um 450 börn hafa eins og nú horfir ekki leikskólapláss um næstu áramót. Ég trúi því ekki að hann hafi boðið Hafnfirðingum upp á það að foreldrar hafi átt það yfir höfði sér að missa pláss fyrir börn sín eftir örfáa mánuði. Ég trúi því ekki að hann hafi unnið þannig gagnvart stofnunum í Hafnarfirði að þær yrðu í raun og veru í uppnámi vegna þess að fólkið hefði ekki aðstöðu til þess að börnin yrðu í einhverri gæslu eða á leikskóla. Þess vegna vil ég segja við hæstv. heilbr.- og trmrh. í fullri vinsemd: Það er vissulega ástæða til þess að ríkið leggi fjármuni til þess að reka leikskóla hér, alveg sérstaklega í Reykjavík af því að borgarstjórnaríhaldið í Reykjavík hefur staðið sig mjög illa. Það er sérstök ástæða til þess að skora nú á hæstv. heilbr.- og trmrh. að fresta málinu. Fara í heiðarlegar og opnar viðræður við foreldrana, sjúkrahúsin og sveitarfélögin. Og ég er alveg viss um það að niðurstaðan úr þeim viðræðum gæti orðið jákvæð fyrir ríkið og a.m.k. jákvæðari fyrir hæstv. ráðherra en þau vinnubrögð sem hann hefur tamið sér að undanförnu sem eru því miður líkari vinnubrögðum forvera hans en góðu hófi gegnir, hæstv. forseti.