Rekstur dagvistarheimila sjúkrahúsanna

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:18:21 (43)


[14:18]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið þá var ég fyrsti flm. að tillögu sem fól það í sér að hefja viðræður við sveitarfélögin um að þau tækju yfir leikskólarekstur sjúkrahúsanna. Hér er í raun og veru verið að fjalla um tvö mál. Í fyrsta lagi það hver á að reka leikskóla í landinu og greiða rekstrarkostnað þeirra. Í öðru lagi eru það starfskjör starfsfólksins á sjúkrahúsunum. Er það hluti af starfskjörum að fá tryggða vist fyrir börn sín á leikskólum? Þetta eru tvö mál. Þau eru skyld en þau eru tvö. Á þau verður að horfa í sitt hvoru lagi. Ef við ætlum að hafa tvenns konar rekstrarform á leikskólum í landinu þá erum við að mismuna sveitarfélögum í landinu. Við getum ekki gert upp á milli sveitarfélaga í sambandi við rekstur leikskóla þegar um er að ræða 200 millj. kr. upphæð. 200 millj. kr. er meira en helmingurinn af öllum niðurgreiðslum ríkisins vegna upphitunar á köldum svæðum landsbyggðarinnar. Þannig að hér er verið að fjalla um lífskjör í landinu.
    Virðulegi forseti. Hvað varðar starfskjör fólksins á sjúkrahúsunum, eigum við að niðurgreiða dagvistun með því að styrkja kjör fólksins með þeim hætti? Ég tel að það geti fyllilega komið til greina. En þá verða að gilda sömu kjör fyrir starfsfólk allra sjúkrahúsanna í landinu. Við getum ekki gert upp á milli starfsfólks sjúkrahúsa eftir búsetu. Mér er t.d. kunnugt um að það kostar 30 þús. kr. af hálfu ríkisins að hafa barn á leikskóla sjúkrahúss í Reykjavík. Á sama tíma nýtur starfsfólk á á sjúkrahúsum á landsbyggðinni ekki slíkra hlunninda í slíkum mæli. Hér er fólki mismunað í kjörum eftir búsetu.