Rekstur dagvistarheimila sjúkrahúsanna

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:23:23 (45)


[14:23]
     Sigríður A. Þórðardóttir :
    Virðulegi forseti. Ákvörðun heilbrrh. um að hætta rekstri barnaheimila á ríkisreknum sjúkrastofnunum og gefa sveitarfélögunum kost á að taka við rekstri þeirra hefur hlotið hörð viðbrögð og gagnrýni starfsmanna Ríkisspítalanna síðustu dægrin. Í þeirri umræðu allri hefur lítið farið fyrir kjarna málsins sem er: Á ríkið að reka dagvistarstofnanir eða öllu heldur á ríkið að reka dagvistarstofnanir fyrir ákveðnar stéttir? Svarið við því er nei. Það er ekki í verkahring ríkisins að reka barnaheimili. Það er hins vegar verkefni sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafa á sínum herðum þá almennu skyldu að þjóna íbúunum á þessu sviði. Þar á engin stétt að eiga réttindi fram yfir aðra. Það er þess vegna ógjörningur fyrir sveitarfélögin að taka við þessum barnaheimilum og reka þau á sama grunni og Ríkisspítalarnir hafa gert heldur hljóta þau, ef þau vilja taka við þessum stofnunum, að reka þær sem hluta af því kerfi sem þegar er til staðar hjá þeim og allri eiga að hafa aðgang að.
    Ef hins vegar er litið á þetta mál frá sjónarhóli starfsmanna spítalanna er alveg ljóst að það hlýtur að snerta þá illa að aðdragandi slíkra breytinga sé ekki lengri en raun ber vitni og um það snýst hin hlið málsins.
    Þetta fólk á vissulega sinn rétt. Það hefur gert samninga við sinn vinnuveitanda og barnaheimilisvist er í mörgum tilfellum hluti þeirra samninga. Í samskiptum manna er ætíð farsælast að ræða málin, undirbúa og aðlaga þegar breytingar eru á döfinni. Ég treysti því að heilbrrh. finni viðunandi lausn á þessu máli og gefi því eðlilegan aðlögunartíma í samvinnu við sveitarfélögin, starfsfólk og forráðamenn Ríkisspítalanna.