Fjárframlög til Gunnarsholts

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:37:11 (50)


[14:37]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Á Íslandi eru um 450 rúm sem skilgreind eru til meðferðar gegn áfengissýkinni. Þau eru af misjöfnum toga. Sum þeirra eru með þeim hætti sem gerist á Vogi og þar fer afeitrun fram og virk meðferð. Önnur er af þeim toga að þar er um athvarf og endurhæfingu að ræða að aflokinni afeitrun og eftirmeðferð. Enn önnur rúm má skilgreina á þann veg sem litið er til þegar Gunnarsholt á í hlut. Þar liggur fyrir varðandi mat sérfróðra manna á stöðu þess fólks, sem þar hefur verið vistað til lengri eða skemmri tíma, að mjög er misjöfn þörf þeirra fyrir þessi ólíku meðferðarúrræði sem ég nefndi áðan. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að sá vistmaður sem er til meðferðar í Gunnarsholti vegna áfengissýki hefur verið þar í 13 ár. Með öðrum orðum, menn kunna að spyrja hvernig skilgreining er á starfsemi Gunnarsholts? Ægir þar saman fólki sem er til virkrar meðferðar og nokkurra vikna eða í lengsta falli nokkurra mánaða áfengismeðferð og aftur hinna sem halda þar heimili?
    Til að gera langa sögu stutta þá eru vistmenn á Gunnarsholti 25 talsins, þar af 23 karlar. Meðalaldur þeirra er 50 ár. Það er mat sérfróðra aðila að fjórir þessara ættu frekar heima á Víðinesi eða sambærilegri stofnun. Fimm á dvalarheimili. Sex í stoðbýlum og eftirmeðferðarstofnunum sem ég nefndi áðan og 10 í virkri eftirmeðferð á borð við þá sem gerist að Staðarfelli.
    Það er auðvitað ekki hægt að bera saman ólíka hluti þegar rætt er um kostnað. Ég nefni hins vegar hv. þingheimi nokkrar tölur. Það gefur auga leið að kostnaður við virka meðferð á Vogi, þar sem sérhæft starfsfólk er hvað flest, kostar mestan pening. Þar kostar dagurinn 5.896 kr. Í Gunnarsholti, þar sem visttími aðila getur þetta verið frá 3--6 mánuðum upp í 13 ár, er þessi tala 4.800 kr. Í Víðinesi er þessi tala 3.300 kr.
    Með öðrum orðum, 1.600 þús. kr. kostar að vista hvern einstakling á ári í Gunnarsholti, 1.100 þús. kr. í Víðinesi, í Staðarfelli 1.200 þús. og á venjulegu dvalarheimili fyrir aldraða um 920 þús. kr.
    Þær hugmyndir sem hér liggja að baki eru að skoða þessi mál með heildstæðum hætti, tryggja virka meðferð gagnvart þeim einstaklingum sem á því þurfa að halda. Tryggja skjól fyrir þá aðila sem á langtímameðferð þurfa að halda og síðan þá sem þurfa þak yfir höfuðið, heimili til lengri tíma, heimili við hæfi í samstarfi við viðkomandi sveitarfélög þar sem framfærsluskyldan liggur.
    Með öðrum orðum, virðulegi forseti, ég hygg að það leiði okkur ekki fram á veg að taka út einstaka þætti með þessum hætti, hvað þá hag einstaklinga, einstakra einstaklinga og vísa til langrar og strangrar ævi þeirra og að þeir hafi hvergi höfði sínu að halla. Grundvöllur þessara tillagna og hugmynda er auðvitað sá að hver einasti einstaklingur sem þarna á hlut að máli njóti öryggis og vistunar á stofnun sem er við hæfi. Sumir, sem betur fer, (Forseti hringir.) eiga þess kost að ganga út í lífið á nýjan leik með styrk og stuðning og verða mætir borgarar og leggja til samfélagsins í ríkum mæli. Við vonum að þeir verði sem flestir. En ég vil undirstrika, virðulegi forseti, að þær hugmyndir sem hér liggja að baki eiga ekkert skylt við það sem hér kom ( Forseti: Tíminn er búinn.) fram í ræðum einstakra hv. þm. í gær að verið væri að reka menn út á guð og gaddinn. Það eru öfugmæli. (Forseti hringir.) Hér er verið að gæta að hag þessara manna og annarra þeirra sem um sárt eiga að binda.