Fjárframlög til Gunnarsholts

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:45:26 (52)

           [14:45]
     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hér fer fram þá bað ég í gær Ríkisendurskoðun að taka saman rekstraryfirlit áranna 1989--1992 yfir vistheimilið í Gunnarsholti, skipt á gjaldategundir. Hér er ekki tími til þess að rekja þetta yfirlit en samkvæmt því koma fram tölur sem ekki ríma við þær upplýsingar sem fram komu í máli hæstv. ráðherra hér áðan. Samkvæmt þessu yfirliti þá var heildarkostnaður á legudag árið 1992 3.800 kr. Ráðherra nefndi 4.800 kr. í máli. Er þá sérstakt viðhald og einnig almennt viðhald og umsjón húsnæðis tekið með. Sé þetta dregið frá og sérstakt eða almennt viðhald er ekki í ríkum mæli á hverju ári, þá lækkar þessi tala.
    Heildarkostnaður í rekstri árið 1992 var 50 millj. kr. Sértekjur stofnunarinnar voru 15,5 millj. kr. og er þá heildarkostnaðurinn kominn í 35 millj. og að frádregnu sérstöku viðhaldi og umsjón með húsum væri kostnaðurinn 31 millj. kr. yfir það ár. Þess er einnig að geta að skrifstofa Ríkisspítalanna tekur til sín hluta af kostnaði vegna launaútreiknings og annarrar umsjónar við þessa stofnun og það er upplýst af hálfu þeirra aðila að sá kostnaður mun ekki falla niður vegna þess hvað hér sé um litla rekstrareiningu að ræða en sá kostnaður sem tekinn var af heimilinu 1992 var um 2 millj. kr. Þar með væri kostnaður við heimilið nettó kominn niður í 29 millj. kr. árið 1992. Er þá vandséð hvernig eigi að spara 40 eða 60 millj. kr. sem heyrst hafa tölur um.
    Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að kynna sér þetta mál vel. Hæstv. ráðherra er nýr í starfi og það virðist svo að honum hafi borist upplýsingar sem ekki ríma við það sem fram kemur í þessum gögnum og ég vænti þess að það verði skoðað vandlega áður en þetta mál verður endanlega afgreitt.