Fjárframlög til Gunnarsholts

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:52:54 (55)


[14:52]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Fyrst örfáar upplýsingar um Gunnarsholtshælið. Það var stofnsett 1954 og er því senn 40 ára. Spyrja má, eru það vel valin tímamót að leggja það nú niður eftir góða þjónustu?
    Sl. tvö ár hefur verið gert nokkurt átak til að viðhalda og betrumbæta fasteignir stofnunarinnar. Þessi stofnun var ein ódýrasta heilbrigðisstofnun landsins á síðasta ári og þar vil ég taka undir orð hv. þm. Pálma Jónssonar hér áðan. Þar er húsrými fyrir 35 vistmenn en á þessu ári hafa að jafnaði verið lagðir inn 24--28 vistmenn og er sú ráðstöfun vegna sparnaðar. Flestir vistmanna eiga ekki kost á að vistast annars staðar og þurfa langdvalarmeðferð. Öldruðum vistmönnum hefur verið komið fyrir á dvalarheimilum aldraðra að Ási í Hveragerði og víðar. Þetta hefur stundum tekist vel en í öðrum tilfellum engan veginn. Nú dvelja á hælinu fimm vistmenn sem ekki reynist unnt að hafa til vistunar annars staðar vegna agabrota. Meðalaldur vistmanna Gunnarsholtshælisins er 45--50 ár. Nú dvelja þar tveir vistmenn sem eru 72 ára.
    Það hefur ávallt verið lögð áhersla á að vistmenn hafi aðstöðu til að vinna á hælinu og reynt að hafa vinnuna sem fjölbreyttasta. Þessi vinnuaðstaða fyrir vistmenn hefur verið undirstaða meðferðar. Þá er það nokkuð stórt atriði að oft er svo að mönnum er komið þangað af Landspítala og öðrum sjúkrahúsum til að stytta dvalartíma þeirra á dýrum spítölum. Oft hefur þetta til komið vegna þess að óreglumenn slasast, t.d. beinbrotna.
    Ekkert samráð hefur verið haft við forstöðumenn Gunnarsholtshælisins um fyrirhugaða lokun staðarins eða væntanlega vistun sjúklinga á öðrum stofnunum. Hefði ekki verið ástæða til að ræða þessi mál fyrst í heilbrigðiskerfinu, leita hagræðingar og sparnaðar

í stofnuninni, sem raunar er stöðugt verið að, í stað þessa óðagots og miskunnarleysis? Allar fjölskyldur í landinu þekkja vandamál ofdrykkjunnar en það slær misjafnlega fast. Stundum er það afi eða amma, faðir eða móðir, dóttir eða sonur, nákominn frændi eða frænka. Sumum er hægt að bjarga, öðrum ekki. Stofnun eins og Gunnarsholt þarf að vera til staðar þegar fjölskyldur eru vanmegna og hafa gefist upp við að leysa vandamál ættingja sinna. (Forseti hringir.) Ég skammast mín ekki fyrir að játa að vistheimilið í Gunnarsholti hefur leyst vandamál í minni fjölskyldu. ( Forseti: Tíminn er búinn.) Ég er alveg að ljúka máli mínu. Ég vil benda hæstv. heilbrrh. á það sem virðist fara fram hjá honum að samdráttur á erfiðum tímum á ekki að vera í tekjutilfærslum ríkissjóðs milli þegnanna sem velferðarkerfið er hluti af heldur miklu fremur í beinum útgjöldum ríkissjóðs til kaupa á vörum og þjónustu. (Forseti hringir.) Nefna má sem dæmi --- ég er alveg að ljúka máli mínu --- að ferða- og bifreiðakostnaður stjórnvalda kostar milljarða kr. og skattsvik samkvæmt könnun á annan tug milljarða kr. eða meira en nemur halla á ríkissjóði. Þar á að bera niður en ekki hjá sjúkum og öldnum. Svo eru aðrir sem sleppa við skattgreiðslu lögum samkvæmt eins og t.d. fjármagnseigendur, þeir eru betur í stakk búnir til að taka á sig byrðar en vistmenn á heilsuhælum. ( Forseti: Tíminn er löngu liðinn.) Við lokun Gunnarsholts sparast reyndar ekkert, það er mat Tómasar Helgasonar yfirlæknis og honum trúi ég betur en hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.) Meðferð Íslendinga á áfengissjúklingum hefur vakið athygli í öðrum löndum sem leitað hafa á náðir okkar. Ég mótmæli gerræði hæstv. heilbrrh. gagnvart sjúklingum og starfsfólki í Gunnarsholti.