Fjárframlög til Gunnarsholts

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 15:01:52 (59)


[15:01]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Það vekur nokkra athygli í þessari umræðu að fjórir þingmenn Suðurl. láta sig sérstaklega þetta mál varða. Hér lagði einnig inn orð einn hv. þm. Vesturl. sem hafði raunar meiri áhyggjur af framtíð Staðarfells sem mun vera í hans kjördæmi. Þetta vekur spurningar. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að ef áhyggjur af vistmönnum þarna eru efst á baugi og fara eftir kjördæmum þá væru það þingmenn Reykv. sem ættu að hugsa sinn gang. Frá Reykjavík eru 14, frá Akureyri koma 4, frá Reykjaneskjördæmi 4 og annars staðar frá 3, alls 25.
    Ég vil segja almennt um þetta, virðulegi forseti, að það fer fram umræða og hefur farið fram og nýttur verður tíminn til áramóta að meta hvern einasta einstakling sem þarna er. Það verður engum einstaklingi þar vísað á dyr og út í önnur óundirbúin úrræði. Það verður litið á hvern einasta einstakling.
    Ég er auðvitað tilbúinn til þess að ræða þau mál og skoða þau og skilgreina í samráði við fjárlaganefndarmenn og aðra þá sem málinu sýna áhuga og bera saman tölur þannig að við byggjum þessi mál á staðreyndum en ekki staðhæfingum sem ganga á víxl. Það er auðvitað lykill málsins. Það er annar lykill málsins. Hinn lykill málsins er sá að þessir aðilar fái úrræði við hæfi. Sannleikurinn er sá að ýmsir hafa efasemdir um það þegar jafnólíkum hópi manna og kvenna er safnað saman eins og hefur verið að Gunnarsholti um langt skeið þá hafi sú meðferð á stundum ekki passað fyrir alla þá sem þar hafa komið við. Vissulega, sem betur fer, hefur Gunnarsholt, Staðarfell, starfsemi SÁÁ, starfsemi Ríkisspítalanna á Vífilsstöðum, á Landspítalanum, skilað okkur bættum og betri þjóðfélagsþegnum og svoleiðis verður það vonandi áfram. Fleiri þætti mætti nefna eins og fyrirbyggjandi starf sem ég vil einnig leggja ríka áherslu á. Meginatriðið er það að við höfum staðið býsna vel að þessu máli þó ævinlega megi betur gera.