Þingsköp Alþingis

4. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 15:09:17 (60)

[15:09]
     Flm. (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis frá árinu 1991 með breytingum sem á þeim voru gerðar sl. haust.
    Flm. auk mín eru aðrir formenn þingflokka, þau hv. þm. Páll Pétursson, Rannveig Guðmundsdóttir, Ragnar Arnalds og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
    Tildrög þessa frv. eru þau að í sumar hafa átt sér stað nokkrar viðræður milli formanna þingflokka um breytingar á vinnubrögðum hér á Alþingi í því skyni að komast hjá deilum og þrætum um formsatriði, fundahöld og afgreiðslu mála sem því miður hafa sett allsterkan svip á störf þingsins. Reynt hefur verið að fá niðurstöðu um ýmis ágreiningsatriði í þingstörfunum og búa þannig um hnútana að afgreiðsla þingmála gæti orðið greiðari auk þess sem komið yrði á betri samvinnu milli þingflokka stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar um þinghaldið í víðustu merkingu.
    Reyndar sendi forseti þingsins sumarið 1992 formönnum þingflokka bréf með ábendingum um ýmis atriði sem æskilegt væri að tekin væru til umræðu á milli þingflokkanna í því skyni að breyta ákvæðum laganna í ljósi reynslunnar af þingstörfum á fyrsta þingi eftir þær miklu breytingar sem urðu á skipan Alþingis með stjórnarskrárbreytingu 1991, þ.e. þegar deildir þingsins voru afnumdar og Alþingi hóf störf í einni málstofu. Ekkert varð þó af breytingum í tilefni af þessu bréfi á síðasta þingi.
    Nú er hins vegar fengin tveggja ára reynsla af störfum Alþingis í einni málstofu og nýjum þingsköpum og það verður að segjast eins og er að á þeim þingsköpum sem við höfum búið við undanfarið eru ýmsir gallar sem menn hafa talið nauðsynlegt að líta á með tilliti til þess að ná samstöðu um að sníða þá af. Ég hygg að það hafi verið sammæli allra þeirra sem stóðu að breytingum á þingsköpunum 1991 að þessar reglur yrðu til endurskoðunar um einhvern tíma meðan menn væru að átta sig á hinu nýja formi til fullnustu og nauðsynlegt gæti verið að breyta vinnubrögðum í samræmi við slíka endurskoðun.
    Ég hygg að það sé einkum tvennt sem menn hafa tínt til sem ágalla í þingstörfunum: Annars vegar of langar umræður --- og þar af leiðandi of langir fundir í þinginu --- og svo hins vegar að ekki hafi tekist eins góð samvinna milli allra þingflokka um stjórn þinghaldsins og vonir stóðu til vorið 1991. Og það má segja að það hafi einkum verið þessi atriði sem við þingflokksformenn höfum haft í huga í viðræðum okkar nú upp á síðkastið um breytingar á þingsköpunum.
    Þó að hér séu lagðar til breytingar á nokkrum greinum þingskapalaganna, sem sumar hverjar eru að okkar dómi mjög mikilvægar, er þó margt fleira sem til umræðu kom í viðræðum þingflokksformanna að þessu sinni. En ýmist var að ekki var samstaða um að taka á þeim atriðum sem þar voru reifuð eða ekki tími til þess að koma þeim í það horf að allir gætu sáttir talist. Mörg slík atriði bíða þess vegna síðari endurskoðunar og ekki víst að um þau verði mikill ágreiningur.

    Eins og fram kemur í greinargerð þess frv. sem hér liggur frammi lítum við, sem þetta frumvarp flytjum, svo á að það sé einn liður í heildarendurskoðun þingskapa í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur og það er ásetningur okkar að halda þeirri endurskoðun áfram með það að markmiði að ný þingsköp megi liggja fyrir við upphaf nýs kjörtímabils 1995.
    Því er ekkert að leyna að það er á margan hátt erfitt að gera breytingar á þingsköpum á miðju kjörtímabili og breyta jafnframt trúnaðarstörfum í þinginu. Þess vegna væri að okkar dómi heppilegra að þingflokkar kæmu sér saman um framtíðarskipan mála í þinginu án tillits til þess hvaða einstaklingar skipa trúnaðarstörf á Alþingi um þessar mundir eða hvaða þingflokkar verða í stjórn og hverjir í stjórnarandstöðu.
    Þetta vildi ég gjarnan að kæmi hér fram í upphafi máls míns um þetta frv., virðulegi forseti. Kem ég þá að efni sjálfs frv.
    Í 1. og 2. gr. frv. eru ákvæði um störf þingnefndanna. Annars vegar eru í 1. gr. ákvæði um boðun þingfunda. Þessi breyting er nú gerð til þess að tryggja það að skylt sé að halda fund í nefnd, ef ósk berst um það frá a.m.k. þriðjungi nefndarmanna, til þess að taka til umræðu og hugsanlega afgreiðslu þau mál sem tilgreind eru. Það má segja að hér sé um nokkurs konar öryggisatriði að ræða þannig að formaður nefndar geti ekki staðið gegn óskum meiri hluta nefndar um að halda fund og afgreiða mál sem meiri hluti nefndarinnar telur áríðandi að fái afgreiðslu.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að ákvæði þessarar greinar eru fyrst og fremst hugsuð að því er varðar störf þingnefndanna yfir þingtímann enda eru í gildi sérstakar reglur um störf þingnefnda utan þingtíma sem settar voru af forsætisnefnd strax sumarið 1991. Þær reglur eru að því er ég tel í góðu samræmi við ákvæði þessarar greinar.
    Í 2. gr. er svo ákvæði um það hvernig með skuli fara ef ágreiningur er í þingnefnd um hvort lokið skuli afgreiðslu máls og það ,,tekið út úr nefndinni`` eins og við köllum það gjarnan hér á Alþingi. Í þessari grein eru sett þau ákvæði að komi fram tillaga frá einhverjum nefndarmanni um að mál skuli tekið út úr nefndinni, þá er formanni hennar skylt að taka þá tillögu til afgreiðslu á þeim fundi þegar hún kemur fram. Þannig getur formaður ekki komið í veg fyrir að meiri hluti nefndar ráði því hvenær mál er afgreitt frá nefndinni. En þar sem hér er um viðkvæmt atriði að ræða höfum við flutningsmenn orðið ásáttir um að til þess að mál sé tekið út úr nefnd með þessum hætti þurfi að liggja fyrir samþykki meiri hluta nefndarmanna, þ.e. fimm nefndarmanna í fastanefndum þingsins öðrum en fjárlaganefndinni, þar sem meiri hluti nefndarmanna er sex. Ég vænti þess fastlega að sem sjaldnast reyni á ákvæði 2. gr. frv. og að friður megi ríkja um það, eins og oftast hefur verið, hvenær mál skuli taka út úr nefnd. Hér er fyrst og fremst um nokkurs konar öryggisatriði að ræða sem sjálfsagt er að hafa í þingsköpum.
    Í 3. gr. frv. eru ákvæði um umræður um skýrslur. Það ákvæði skýrir sig að mestu leyti sjálft og er einn þáttur af nokkrum í þessu frv. sem ætlað er að setja reglur og ramma utan um umræður í þinginu. Til þessa hafa ekki verið slík ákvæði um skýrslur og það þótti eðlilegt að hafa samræmi milli umræðna um þær og til að mynda hinna lengri utandagskrárumræðum, sem ákvæði eru um í 50. gr. þingskapa.
    Þau ákvæði sem er að finna í þessu frv. um takmörkun ræðutíma koma fram í 5. gr. frv. en að nokkru leyti einnig í 3. gr. og 6. gr.
        Ef ég vík fyrst að 5. gr., sem má telja meginefnisgrein frv., þá er nú stefnt að því að gera þá meginbreytingu á hinni almennu reglu um umræður í þinginu að takmarka 1. umr. um lagafrumvörp. Reglan verður sú að framsögumenn máls, hvort sem það eru ráðherrar eða þingmenn, megi ekki tala lengur en 30 mínútur í fyrsta sinn, 15 mínútur í annað sinn og 5 mínútur í þriðja sinn. Aðrir þingmenn og ráðherrar mega ekki tala lengur en 20 mínútur í fyrra sinn og 10 mínútur í síðara sinn.
    Ég legg áherslu á að þessi regla á einungis við um 1. umr. en gert er ráð fyrir því að sömu reglur gildi um 2. og 3. umr. og verið hafa áður í þingsköpunum, þ.e. að þá sé ræðutími ekki takmarkaður.
    Þar sem lagafrumvörp eru hins vegar mjög misjafnlega efnismikil hefur orðið samkomulag um það jafnframt að opna leið fyrir þingflokka til þess að óska eftir því að þessi ræðutími verði lengdur, allt að því tvöfaldaður, en þá þarf að liggja fyrir rökstudd beiðni frá formanni þingflokks þar að lútandi áður en frv. er tekið til umræðu hér í þingsalnum. Þess er fastlega vænst að slík lenging heyri til undantekninga og verði því aðeins beitt að um sé að ræða veigamikil og margþætt frumvörp.
    Ég get ekki leynt því að um þetta atriði voru nokkuð skiptar skoðanir milli þingflokksformanna en þetta varð niðurstaðan og hér er á ferðinni málamiðlun sem við höfum gert í góðri trú og okkar í milli formenn þingflokka og aðrir þingmenn fallist á innan þingflokkanna að því er mér er best kunnugt.
    Önnur meginbreytingin er á hinum svokölluðu þingskapaumræðum og er þau ákvæði að finna í 4. gr. frv. og a- og b-lið 5. gr. Með frv. er stefnt að því að þær umræður sem kallaðar hafa verið þingskapaumræður falli niður en í stað þess geti komið sérstakar umræður við upphaf þingfundar, athugasemdir sem þingmenn geti gert og varða störf þingsins. Gert er ráð fyrir því að slíkar athugasemdir og umræður um þær megi ekki standa lengur en í 20 mínútur á hverjum fundi. Enginn megi tala oftar en tvisvar og ekki lengur en tvær mínútur í senn. Ég vek athygli á því að með þessum ákvæðum geta fleiri en einn þingmaður komið athugasemd á framfæri við sama tækifæri og fengið um hana umræður ef það rúmast innan þess tíma sem til þessara umræðna er ætlaður í fundarbyrjun, þ.e. 20 mínútna.
    Það er von okkar að þessi nýbreytni geti orðið farvegur fyrir þann hluta þingskapaumræðunnar sem

hefur verið af almennu tagi og ekki lotið að raunverulegum athugasemdum við stjórn forseta á þingfundinum.
    Að því er varðar hins vegar slíkar athugasemdir um fundarstjórn forseta, þá er gert ráð fyrir því að þingmenn hafi áfram skýlausan rétt til að gera athugasemdir ef þeim þykir sem fundarskapa sé ekki réttilega gætt eða eitthvað sé ábótavant í fundarstjórn eða skipulagi forseta. Það er hugmynd okkar að þetta ákvæði verði skýrt eins þröngt og kostur er þannig að athugasemdir af þessu tagi séu einungis um fundarstjórn forseta en ekki um önnur mál sem svo oft hafa flotið með þegar þingmenn hafa kvatt sér hljóðs um þingsköp.
    Í þessu sambandi er svo lagt til að þingmönnum sé einungis heimilt að tala tvisvar ef þeir gera athugasemdir um fundarstjórn, þ.e. þeim er heimilt að gera athugasemd, síðan má reikna með að þeir fái svör frá forseta og þá hafa þeir jafnframt heimild til þess að hreyfa athugasemdum við svörin ef þeim sýnist svo. Tímamörk slíkra athugasemda um fundarstjórn verða hin sömu og um þingsköp áður, þ.e. þrjár mínútur í senn.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að það er von okkar, sem að þessu frv. stöndum, að þessar breytingar á þingskapaumræðunni verði til þess að aðskilja þær athugasemdir sem eru nánast af formlegu tagi og svo þær athugasemdir sem eru víðtækari, nálgast jafnvel að vera pólitískar yfirlýsingar; þessi atriði séu skilin að og fundið sitt formið fyrir hvort atriði. Ég vona að minnsta kosti að þetta muni draga úr umræðum af þessum toga og gera umræður um sjálf þingmálin samfelldari og hnökralausari.
    Þá er jafnframt í 6. gr. ákvæði um það að stytta þann tíma sem þingmenn hafa til þess að gera grein fyrir atkvæði sínu. Í núverandi þingsköpum eru engin bein ákvæði um þennan rétt þingmanna, en það hefur lengi tíðkast að menn gerðu grein fyrir atkvæði sínu við nafnakall og nú á síðustu missirum, eftir að atkvæðagreiðslukerfið var sett upp í þingsalnum, hafa menn enn fremur gert grein fyrir atkvæði sínu við slíka atkvæðagreiðslu. En okkur þykir að tími þingmanna til þess að flytja slíka greinargerð sé óeðlilega rúmur og það megi að skaðlausu stytta hann niður í eina mínútu.
    Í 7. gr. frv. eru ákvæði er varða störf formanna þingflokka. Annars vegar ef milli þeirra er samkomulag, þ.e. allra þingflokka, þá sé forseta heimilt að breyta ræðutíma til samræmis við slíkt samkomulag frá því sem ákveðið er í öðrum greinum þingskapanna og ákveða hve lengi umræða megi standa. En það þykir sjálfsagt ef einhverjum þykir á sig hallað að þá sé slíkt samkomulag staðfest með samþykkt þingfundarins sjálfs. Þarf ósk um slíkt að koma frá a.m.k. þremur þingmönnum. Jafnframt er áréttað að formenn þingflokka séu umboðsaðilar flokka sinna gagnvart forseta að því er varðar lengingu á ræðutíma um þingsályktunartillögur, skýrslur og frumvörp þannig að forseti taki ekki við beiðnum frá einstökum þingmönnum um þessi atriði. Þetta teljum við mikilvægt að sé skýrt í þingsköpunum. Það eru hliðstæð ákvæði í kaflanum um útvarpsumræðu og hefur það orðalag verið haft til hliðsjónar að þessu leyti.
    Í 8. gr. frv. eru þeir frestir sem gilda um stefnuræðu forsætisráðherra styttir frá því sem nú er. Í 73. gr. núgildandi þingskapa segir að stefnuræðu skuli flytja innan 10 daga frá þingsetningu en í frv. er gert ráð fyrir því að þessi frestur verði aðeins 5 dagar. Í frv. stendur að ræðunni skuli komið til þingmanna eigi síðar en þremur dögum áður en hún er flutt í stað viku eins og er í núgildandi lagaákvæðum. Þetta er m.a. gert til þess að stuðla enn frekar að því að stefnuræða forsætisráðherra verði flutt við upphaf þings og hinar fyrstu raunverulegu pólitísku umræður í þingsalnum fari fram um þá ræðu. Okkur þykir fara vel á því að hún sé nánast fyrsta mál þingsins þegar það hefur lokið þeim formsatriðum sem fram fara á þingsetningarfundi.
    Ég hef þá, virðulegi forseti, lokið við að gera grein fyrir efnisatriðum þessa frv. og vísa að öðru leyti til athugasemda sem því fylgja. Ég vil eins og fram kemur í upphafi greinargerðar með frv. geta þess að jafnframt hefur tekist mikilvægt samkomulag milli þingflokkanna um að þingflokkar stjórnarandstöðunnar taki að sér formennsku í þremur þingnefndum og varaformennsku í fjórum nefndum. Þetta teljum við mikilvæga breytingu sem miði að því að efla samvinnu þingflokka um stjórn þinghaldsins. Ég get upplýst við þetta tækifæri að þær nefndir sem hér er um að ræða eru efh.- og viðskn., iðnn. og umhvn. þar sem gert er ráð fyrir að stjórnarandstöðuflokkarnir taki við formennsku, en einnig er gert ráð fyrir að þeir taki við varaformennsku í utanrmn., sjútvn., félmn. og heilbr.- og trn. þingsins.     Þessi breyting byggist á því að milli manna hér á Alþingi ríki traust og að það sé samkomulag um þær vinnureglur sem hér tíðkast þótt ágreiningur sé um pólitísk stefnumál. Slíkur ágreiningur á ekki að ganga svo langt að þingmenn geti ekki átt góða samvinnu um þingstörfin sjálf og um afgreiðslu mála.
    Við lítum svo á að hér sé verið að feta leið í þá átt að þingflokkar fari með formennsku í fastanefndum þingsins sem næst eftir þingstyrk sínum, en eins og ég hef áður sagt, þá er verið að stíga fyrsta skrefið --- að sumu leyti til reynslu --- og enn fremur verður að hafa í huga að það er erfitt á miðju kjörtímabili að gera róttækar breytingar í þessu efni. En ég legg áherslu á að þetta atriði er hluti af því samkomulagi sem tekist hefur um breytingar á þingsköpunum. Þetta er ekki löggjafaratriði heldur samkomulag milli þingflokkanna --- gert í þeirri trú að það bæti starfshætti og vinnubrögð í þinginu.
    Það má enn fremur geta þess að í þessu frv. er ákvæði til bráðabirgða um það að þessar nýju reglur verði teknar til endurskoðunar fyrir upphaf næsta þings í ljósi þeirrar reynslu sem fæst af þeim á þessu þingi og geri ég þá fastlega ráð fyrir að þetta mál verði allt metið að nýju, hugsanlega með það fyrir augum að taka stærri skref ef vel gengur, en auðvitað verða menn að vega og meta reynsluna af öllum þessum atriðum þegar hún er fram komin.
    Ég vil svo nota þetta tækifæri til þess að þakka meðflutningsmönnum mínum fyrir ágæta samvinnu við undirbúning þessa frv. Mér finnst sú samvinna og sú niðurstaða sem fengist hefur benda til þess að við séum á réttri leið við að endurbæta starfshætti okkar hér á Alþingi. Og þó ég viti mætavel að því trúir sjálfsagt enginn maður að það geti verið skemmtilegt á fundum þingflokksformanna, þá var það nú svo í þessari vinnu. Þetta var skemmtilegt samstarf og það tókst bara býsna vel, mundi ég telja.
    Ég legg ekki til, virðulegi forseti, að þessu frv. verði vísað til nefndar. Það hefur verið til umfjöllunar í öllum þingflokkum undanfarin dægur og því ástæðulaust að taka frv. til athugunar í sérstakri þingnefnd. Ég legg hins vegar til, virðulegi forseti, að frv. verði vísað til 2. umr.