Þingsköp Alþingis

4. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 15:33:52 (62)


                [15:33]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Alþingi sem stofnun nýtur mikillar virðingar meðal þjóðarinnar. Það heyrum við í umræðum fólks um Alþingi, það finnum við í viðmóti fólks sem kemur í þetta hús og það finnur sá sem kjörinn er til setu á Alþingi. Við alþingismenn finnum ekki síst þessa sterku tilfinningu á þeirri hátíðlegu stundu sem setning Alþingis er og í væntingum okkar þann dag varðandi störfin fram undan.

    Hins vegar er það svo að í umræðunni um störf okkar alþingismanna kveður stundum við annan tón. Við heyrum þær gagnrýnisraddir að umræður sem fara fram í þessari virðulegu stofnun séu ekki ávallt með þeim brag og virðuleikablæ sem fólk ætlast til. Þessi sjónarmið höfum við alþingismenn oft rætt í okkar hópi og haft skoðanir á hvað sé til ráða. Í þeirri umræðu hefur það einmitt oft verið nefnt hve málum sé á annan veg háttað í þjóðþingum nágrannaþjóðanna, hvernig þar hefur í tímans rás verið breytt starfsháttum og hvað af því mætti læra og taka til eftirbreytni, hvað okkur sjálfum finnst að betur mætti fara.
    Það frv. sem hér er til umræðu er afrakstur umfjöllunar þingflokksformanna um þessi mál og vilji þeirra til að gera breytingar á starfsramma þeim er við störfum eftir. Settar eru skorður við ræðutíma í 1. umr. auk annarra breytinga sem þegar hafa verið tilgreindar. Skiptir þar máli að brotin er upp hin hefðbundna þingskapaumræða sem fengið hefur á sig fremur neikvæðan blæ, ekki síst út í frá. Samkomulag er um að taka ákveðið skref í breyttri verkaskiptingu stjórnar og stjórnarandstöðu með því að færðir verða til stjórnarandstöðunnar mikilvægir þættir stjórnunarstarfa í þinginu, þ.e. formennska og varaformennska í nefndum.
    Þingflokksformenn standa allir að baki þeim breytingum sem felast í þessu frv. og það er afar mikilvægt hve víðtæk sátt hefur náðst um þetta mál sem nefnt er tímamótasamkomulag og það tel ég einmitt þetta frv. vera. Alþfl. stendur einhuga að þessu samkomulagi og hefur viljað leggja verulega af mörkum til að efla þá nýju ásýnd sem Alþingi fær með því að stjórnarandstaðan tekst á hendur ný stjórnunar- og virðingarembætti og með breyttum þingsköpum. Þannig lætur Alþfl. af hendi formennsku í iðnn. og umhvn. sem stjórnarandstaðan mun fara með og jafnframt lætur Alþfl. stjórnarandstöðunni eftir varaformennsku í sjútvn. og utanrmn. Með þessu vill flokkurinn undirstrika vilja sinn til að bæta starfshætti á hinu háa Alþingi.
    Hér erum við vissulega að fjalla um starfsrammann sjálfan, sjálf þingsköpin og verkaskiptingu okkar í milli. Það sem ræður þó úrslitum um hvernig til tekst erum við sjálf. Ramminn um starfsdag okkar er eitt, orð okkar, athafnir, samviska okkar og vinnulag er annað. Það mun reyna á okkur sjálf á því ári sem fer í hönd, hvernig við förum með það sem við hér sættumst á. Það mun reyna á hvort sá trúnaður skapast í samskiptum og vinnulagi að við, að loknu því tilraunaári sem fram undan er, óskum að halda áfram og vonandi gera enn betur í að efla ábyrgð, bæta vinnubrögð og þar með efla virðingu fyrir störfum okkar. Við höfum sameinast um veigamikið skref sem ég trúi að reynist til góðs.