Valfrelsi í lífeyristryggingum

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 11:13:52 (75)


[11:13]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Hér er flutt mál varðandi valfrelsi í lífeyristryggingum og er ekki nema allt gott um það að segja. Hins vegar þótti mér framsögumaður fara nokkuð frjálslega með staðreyndir hvað lífeyrissjóði áhrærir og upphaf þeirra. Hann talar um að eitt mesta óréttlæti hér á landi sé svokölluð skylduaðild að lífeyrissjóðum. Það kann vel að vera en ef svo er þá hefur það verið allar götur frá því að lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir. Áður og fyrr voru það eingöngu opinberir starfsmenn sem nutu þess að eiga aðild að lífeyrissjóði. En í kjarasamningum ýmissa stéttarfélaga náðist sá áfangi að lífeyrissjóðir voru stofnaðir og ég veit ekki hvar það fólk stæði í dag sem ekki ætti aðild að lífeyrissjóðum og er komið nokkuð til ára sinna og farið að þiggja greiðslur úr þessum sjóðum.
    Hvað það áhrærir að einhver höft séu á mönnum sem lúti að því að enginn fái að eiga aðild að lífeyrissjóði nema hann sé bundinn tilteknu stéttarfélagi þá er það rangt. Aðild að lífeyrissjóði og stéttarfélagi eiga enga samleið öðruvísi en í þá veru að viðkomandi aðili greiðir í þann lífeyrissjóð hvar kjarasamningar lúta að. En það er engin skylduaðild að viðkomandi verkalýðsfélagi. Hins vegar er það svo allt annað mál hvort maðurinn greiði í viðkomandi stéttarfélag.
    Það er einn stór þáttur í þessu máli sem hv. flm. hafa ekki vikið einu orði að og það er hinn tryggingarlegi þáttur lífeyrissjóðanna. Það eru dæmi um að lífeyrissjóðir, sumir hverjir, greiði í dag jafnháa upphæð í örorkubætur og þeir greiða í lífeyrisbætur. Hvar ætla menn að finna tryggingalegum þætti lífeyrissjóðanna stað? Það má kannski segja sem svo að þegar lífeyrissjóðirnir í upphafi lögðu upp með þá ætlan að greiða lífeyri þá hafi ekki verið hugað nógsamlega að þessum þætti lífeyrissjóðanna en það eru ekki neinir smáaurar, þær skuldbindingar sem lífeyrissjóðirnir eru búnir að gangast undir. Og þegar menn tala um að það sé óréttlæti að vera skyldugur til að vera í lífeyrissjóði þá hittir maður samt sem áður unga menn í dag sem hafa lent í þeirri ógæfu að verða öryrkjar og þeir segja: Ja, ég veit ekki hvar ég stæði með mína fjölskyldu ef ég hefði ekki verið skyldaður til að greiða í lífeyrissjóð vegna þess að ég fæ örorkubætur út úr sjóðnum. Og hvernig gerist það? Það gerist með þeim hætti að maður sem verður öryrki þrítugur --- ég held að þingheimur geri sér ekki alveg grein fyrir þessu. Ungur maður, þrítugur, og hefur haft einhverjar X-tekjur undanfarin ár, hann er framreiknaður með sömu tekjur og hann hafði sl. fimm ár áður en hann varð öryrki fram til 65 ára eða 70 ára aldurs. Það er útgangspunktur örorkubóta sem hann fær greitt. Þetta er ekki hvað síst einn af mikilvægum þáttum lífeyrissjóðanna sem ég held að flm. hafi ekki horft á.
    Það væri hins vegar mikið fagnaðarefni ef hægt væri að finna tryggingarlegum þætti lífeyrissjóðanna annan farveg en í dag vegna þess að það er að verða mikil byrði á sjóðunum. Og það er kannsi einn þátturinn af því sem hv. flm. kom hér inn á, sem er að gera mörgum lífeyrissjóðum mjög erfitt að standa við skuldbindingar sínar. En stærsti vandi lífeyrissjóðanna hvað það varðar að standa við skuldbindingar sínar liggur fram að árinu 1980. Þegar verðtrygging kemst á fara lífeyrissjóðirnir að fá inn greidda þá sömu upphæð og þeir lánuðu út áður og kannski ívið betur í þeirri vaxtapólitík sem rekin hefur verið hér í gegnum árin. Það hlýtur líka að vakna sú spurning með tilliti til Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna þegar ríkið þarf að borga á milli 10--20 þús. kr. á mánuði með hverjum einasta opinberum starfsmanni til verðtryggingar: Eru menn með þessari breytingu um valfrelsi í lífeyristryggingum að hugsa um að opna þá um leið Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna þannig að verkamaðurinn í Dagsbrún eða trésmiðurinn hjá Trésmíðafélagi Reykjavíkur eigi nú orðið greiðan aðgang inn í Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna? Það væri í sjálfu sér gott valfrelsi miðað við þann áunna rétt sem opinberir starfsmenn fá út úr sínum lífeyrissjóði umfram hina almennu lífeyrissjóði.
    Það má svo deila um það hvort þetta sé brot á mannréttindum, að vera skyldaður til að greiða í lífeyrissjóð. En miðað við það sem ég sagði áðan og það sem hefur gerst meðal margra sem hafa því miður orðið öryrkjar vegna starfa síns, og ekki hvað síst er sá hópur stór meðal sjómanna, ég veit ekki hvar menn ætla að finna þeim stað í tryggingunum ef það á að opna þessa lífeyrissjóði, þ.e. að menn ráði því hvort þeir greiði í þessa sjóði eða ekki.
    Ég verð að segja það að ég er ekki sammála flm. þessarar þáltill. um að það sé gríðarlegt óréttlæti að vera með skylduaðild að lífeyrissjóðum. Ég held að hún ætti að vera að einhverju leyti þó svo að það verði ákveðið að menn skuli greiða í lífeyrissjóði þó þeir hafi valfrelsi þar um. Og ekki væri það úr vegi ef Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna yrði opnaður fyrir hinn almenna launamann.