Valfrelsi í lífeyristryggingum

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 11:21:29 (76)


[11:21]
     Flm. (Árni M. Mathiesen) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Ég held að það gæti nokkurs misskilnings í málflutningi hv. 16. þm. Reykv. Hann nefndi sérstaklega tryggingaþáttinn og

örorkubæturnar. Ég nefndi það alveg sérstaklega í minni ræðu að það væri einn hluti af vanda sjóðanna og var ég þá sérstaklega með í huga Lífeyrissjóð sjómanna þar sem greiðslur vegna örorkubóta hafa verið miklum mun meiri en útreikningar sjóðsins höfðu fyrir fram gert ráð fyrir. Hann gerði hið meinta óréttlæti að umræðuefni og taldi þá að flm. teldu að það væri óréttlæti í því fólgið að menn væru skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóði. Þar hefur hann hreinlega misskilið tillöguna og vil ég benda honum á að lesa seinustu málsgrein tillögunnar þar sem ekki er gert ráð fyrir að hróflað verði við skyldu launamanna eða sjálfstætt starfandi atvinnurekenda til að greiða í lífeyrissjóð. Það er um það að ræða að þeir geti valið í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða og á hvaða formi þeir tryggja sér þau lífeyrisréttindi og þær tryggingar sem þeir telja sig þurfa á að halda. Ég er í engum vafa um að sjómenn munu ekki hætt að greiða í lífeyrissjóð eða afla sér þeirra lífeyristrygginga sem fela í sér þann tryggingaþátt sem örorkubæturnar hafa sannanlega verið sjómönnum. Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Þar af leiðir að ekkert í þessari tillögu ógnar þeim sem reka hagstæða lífeyrissjóði sem veita aðildarmönnum sínum sambærilega ávöxtun og þeir sjóðir gera sem best eru reknir.
    Hv. 16. þm. Reykv. gerði einnig að umtalsefni Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna sem ég vék að í framsöguræðu minni. Ég tel einmitt að sú breyting sem við leggjum til í tillögunni sé grundvöllurinn fyrir því að hægt sé að breyta um kerfi á lífeyristryggingum opinberra starfsmanna. Það var rétt sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi í sinni ræðu að ríkið greiðir tugi þúsunda á mánuði með hverjum ríkisstarfsmanni vegna greiðslutryggingarinnar sem er á þeirra lífeyrisgreiðslum. Það þarf að semja um þetta atriði við opinbera starfsmenn. Ef það á að breyta því þá verður að kaupa þessi réttindi af starfsmönnunum. Það verður þá væntanlega að koma fram í hærri launum sem þeim eru greidd fyrir þeirra vinnu. En til þess að þeir geti þá notað þessi laun sín til að afla sér sambærilegra lífeyrisréttinda þá verður að vera valfrelsi í lífeyrissjóðsmálum hér á landi. Þá verða þeir að geta valið um þá sjóði sem þeir vilja greiða til og um þá sjóði sem veita þeim þá tryggingu sem þeir telja sig þurfa á að halda. Þessi breyting sem hér er lögð til er grundvöllurinn fyrir því að hægt sé að gera breytingar á lífeyrismálum opinberra starfsmanna.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. ræddi reyndar önnur atriði meira í sinni ræðu heldur en tillöguna sjálfa. Hann ræddi annars vegar frv. sem fram er komið svipaðs eðlis og hann ræddi þingsköp og hann ræddi vaxtamál, sem ég held að ég hafi vikið að með einni setningu í minni framsöguræðu, en oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.
    Það er um frv. að segja sem fram er komið og nokkrir þingmenn Framsfl. hafa lagt fram að það er mjög athyglisvert frv. og mjög í anda þeirrar tillögu sem hér er lögð fram. En málin eru ekki að öllu leyti samhljóða. Frv. um eftirlaunasjóðina er að vissu leyti þrengra en þáltill. er og þar af leiðandi sé ég ekkert því til fyrirstöðu að um þessi mál sé fjallað í þingnefnd samtímis eða samhliða. Það hvernig málum er raðað á dagskrá þingsins er að sjálfsögðu á valdi forseta. En eins og þingmenn geta séð á dagskránni þá held ég að þeim sé í dag raðað einfaldlega í númeraröð eftir því hvernig þau voru lögð fram á þinginu. Oftar hef ég heyrt þingmenn kvarta um það úr þessum ræðustóli að ekki sé nægilega mikið tillit tekið til þess hvenær þingmál eru lögð fram, hvenær þau eru sett á dagskrána og frekar að þeir hafi kvartað yfir því að forseti sé að nota einhverjar aðrar reglur en þá sem ég var hér að nefna, þannig að þetta kemur mér örlítið á óvart.
    Varðandi vextina þá hafði ég í huga, þegar ég var að bera saman vaxtastigið, verðið á ríkisverðbréfum á eftirmarkaði, þá er ég ekki fyrst og fremst að hugsa um nafnvextina sem settir eru á bréfin því það er mjög auðvelt að vera með lága nafnvexti á ríkisverðbréfum en ætla sér ekki að selja nein ríkisverðbréf.