Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:08:01 (81)

[12:08]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það orkar kannski tvímælis sem hv. síðasti ræðumaður sagði að áhugi hefði farið dvínandi á hafréttarmálum á undanförnum árum. Það er rétt að því er varðar kannski áhuga almennings og útgerðaraðila hér innan lands. Hins vegar hefur það eðlilega verið svo eftir að gerð hafréttarsamningsins lauk að menn hafa lagt áherslu á að afla honum stuðnings, að afla honum staðfestingar nægilega margra ríkja til þess að hann yrði viðurkenndur sem gildur þjóðaréttur. Innan hafréttarins hefur síðan orðið viss þróun svo sem m.a. í nefndarstarfi á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem fjallað er um úthafsveiðiréttindi utan efnahagslögsögu ríkja. Loks er þess að geta að Íslendingar og íslenskir útgerðarmenn þar með taldir eru loksins að vakna til vitundar um það að við erum ekki einasta strandríki og höfum ekki bara þrengstu hagsmuna strandríkja að gæta heldur hljótum við sem ein af fimmtán öflugustu fiskveiðiþjóðum heims einnig að huga að því sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kýs að kalla með upphöfnu orðalagi ,,alþjóðavæðing sjávarútvegsins``. Það mál hefur verið á dagskrá íslenskra stjórnvalda á undanförnum áratugum einfaldlega vegna þess að fjölmargar þjóðir hafa leitað eftir samstarfi við okkur um þróun auðlinda og hagnýtingu og tækni á þessu sviði.
    Virðulegi forseti. Það sem ég vildi fyrst og fremst gera með því að koma hér aftur upp í ræðustól, var að gefa örstutt yfirlit yfir þau atriði sem þær þjóðir sem sett hafa fram kröfur á Hatton-Rockall svæðinu byggja kröfugerð sína á. Íslendingar vísa auðvitað til 76. gr. hafréttarsamningsins og þar með til hugtaksins um eðlilegt framhald landgrunns sem telja má að sé aðalregla í skilgreiningu landgrunns samkvæmt samningnum. Krafa Íslands byggist þá á því að fundnar séu rætur landgrunnshlíðarinnar og dregin lína 60 sjómílur þar fyrir utan. Beiting viðkomandi ákvæða tekur mið af því að á íslenska hafsvæðinu séu ekki fyrir hendi skýr mörk landgrunns á Íslands-Færeyjahrygg fyrr en komið er að Hatton-Rockall bankanum. Ytri mörk þessi eru sett fram í reglugerð nr. 196/1985.
    Á milli Hatton-Rockall svæðisins og Írlands/Skotlands liggur svokallað Rockall-trog sem er 3000 metra djúpt þar sem það er dýpst. Tilvera þess veikir mjög kenningar um að Hatton-Rockall svæðið sé óslitið framhald eða eðlilegt framhald meginlands Írlands og Bretlands. Írsk og bresk stjórnvöld hafa hins vegar haldið því fram að þar sem trogið liggi innan ytri marka efnahagslögsögu þeirra hafi það ekki áhrif á framhald landgrunnsins utan 200 sjómílna. Bresk stjórnvöld hafa bent á tengsl milli Skotlands og Hatton-Rockall svæðisins eftir Wyville Thomson-hryggnum. Danir halda því fyrst og fremst fram að Hatton-Rockall svæðið tengist Færeyjum sem eins konar ,,micro-meginland``. Rannsóknir sem hafa farið fram benda til þess að jarðskorpan á Hatton-Rockall svæðinu sé sama eðlis og jarðskorpan undir Færeyjum.
    Samkvæmt 125. gr. hafréttarsamningsins fá eyjar á stærð við Rockall hvorki landgrunn né efnahagslögsögu. Slík takmörkun á víðáttu landgrunns efnahagslögsögunnar teljast gildandi þjóðaréttur nú þegar og getur réttarstaða Bretlands og á Hatton-Rockall svæðinu byggst á eynni sem slíkri eða þessum 19 metra háa kletti. Á hafréttarráðstefnunni var hart barist á milli tveggja hópa sem studdu annars vegar skiptingu svæða eftir miðlínu og hins vegar skiptingu í samræmi við sanngirnissjónarmið. Í 83. gr. samningsins er að finna eins konar málamiðlun þar sem vitnað er annars vegar til þjóðaréttar og hins vegar til sanngjarnrar lausnar.
    Í nýlegum dómum Alþjóðadómstólsins í Haag hefur ríkt tilhneiging til þess að taka ekki tillit til

jarðfræðilegra þátta, enda oft talið óvinnandi verk að ráða úr mismunandi túlkun vísindamanna og þannig að vissu leyti er það fremur hvatning til þess að leita samninga sem byggja á sanngirnissjónarmiðum.
    Virðulegi forseti. Ég held að það næsta sem gerist í þessu máli sé að þeir þjóðréttarfræðingar sem voru settir til verka af hálfu Íslendinga og Breta munu skila sinni sameiginlegu skýrslu nú á næstunni. Í framhaldi af því tek ég undir það sem fram kom hjá hv. þm. Einari Guðfinnssyni að ég teldi eðlilegast af öllum ástæðum að þessu máli yrði vísað til utanrmn. Málið hefur verið á dagskrá Alþingis og utanrmn. allan tímann frá 1976. Öll sérfræðileg gögn sem til eru um það eru í fórum utanrmn. Þessi skýrsla, sem ég vitnaði til áðan, verður lögð fram og kynnt í utanrmn. þannig að ég tel að það sé í samræmi við venjur hér á hinu háa Alþingi og hefðir að vísa málinu til þeirrar nefndar enda væri ella um tvíverknað að ræða.