Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:15:00 (83)

[12:15]
     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Með þáltill. sem hér er til umræðu er vakið máls á málefni sem rétt er að við tökum til umfjöllunar á þessum tíma. Í tillögunni eða í greinargerðinni kemur fram að Alþingi hefur ekki ályktað um þessa hagsmunagæslu eða réttindagæslu okkar um árabil en rétt er að málið hefur verið til umfjöllunar innan nefnda þingsins, í þinginu og í ráðuneytum sem um það fjalla.
    Það sem mér þykir þó rétt að ég láti fram koma um þetta er í fyrsta lagi stuðningur minn við tillöguna en í öðru lagi að hér hefur verið sagt að umræða um að við höldum fram okkar réttindum á þessum hafsvæðum og öðrum hafi hljóðnað. Ég hygg að þar gæti nokkurs misskilnings ef við látum það fram fara frá Alþingi. Staðreyndin er sú að á undanförnum mánuðum hefur umræðan um rétt okkar á alþjóðlegum hafsvæðum og utan fiskveiðilögsögunnar vaknað til nýrrar áherslu með sókn íslenskra veiðiskipa á mið utan lögsögunnar. Fram að þeim tíma var umræðan að mestu innan þingsins og innan ráðuneytanna. En fyrir meira en áratug var þessi umræða að vísu í fjölmiðlum og mjög almenn en eðlilegt er þegar við lítum til baka að hún hafi ekki lengur verið mjög almenn. M.a. á þeim tíma sem um er liðinn lá fyrir nánast hvatning stjórnvalda til íslensks sjávarútvegs um að stunda veiðar innan lögsögunnar. Það var mjög lítil almenn hvatning og lítil almenn umræða sem vakti máls á þeim réttindum sem við hugsanlega eigum utan lögsögunnar. En á sl. vikum hafa bæði utanrmn. og sjútvn. Alþingis rætt þessi mál, einkum í samhengi við veiðar íslenskra skipa í Barentshafssmugunni, en inn í þær umræður nefndanna hafa líka komið málefni sem varða hugsanlegan rétt okkar á öðrum slíkum hafsvæðum.
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, láta fram koma til þess að ekki yrði eftir sá skilningur að Alþingi og þingmenn hafi látið þessi mál liggja í þagnargildi.
    Í þriðja lagi hvað varðar þessa tillögu tel ég mikið álitamál hvort við förum þá leið að velja sérstaka nefnd um mál sem hefur verið innan þingnefnda og ráðuneyta, innan fastanefnda þingsins, og virðist ekki hafa breytt um eðli eða efni, aðeins að áherslu. Ég tel rétt að við ræðum þetta atriði en ég vek athygli á því sem fram kemur í grg. að flm. vísar oft og ítrekað til Jan Mayen-sáttmálans. Í því samhengi verður þess að geta að þær þjóðir sem við þar náðum samningum við hafa ekki verið tilbúnar til sátta við okkur um Smuguna í Barentshafi sem við höfum nú sótt til og viljað ná samningum um hvernig yrði stjórnað veiðum á, en það samkomulag, Jan Mayen-sáttmálinn, er vissulega eða getur verið fyrirmynd í víðara samhengi um mál af þessu tagi en hefur samt sem áður ekki leitt til nýrra samninga í þeirri mynd. En ég tel rétt við umfjöllun um þetta mál, virðulegi forseti, að hv. utanrmn. ræði hvort ástæða er til að frá þinginu fari einnig þál. um málefni okkar eða réttindi okkar á öðrum alþjóðlegum hafsvæðum, þ.e. smugum sem við köllum svo. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé um sömu réttindi að ræða eða sömu spurningu eins og á þessum svæðum sem tillagan fjallar um en ég tel að réttindum okkar á þeim svæðum eigi að halda fram. Við verðum að sækja þau. Við megum ekki glata þeim með því að hætta að gæta þeirra.