Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:19:10 (84)

[12:19]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Reykn. taldi það einhvern misskilning sem fram kom í máli mínu að umræðan og áhuginn á hafréttarmálum hefði eitthvað slævst í þjóðfélaginu. Ég held að það blasi nú svo við hverjum manni að umræðan um hafréttarmál hefði náttúrlega hljóðnað mjög miðað við þá miklu umræðu sem átti sér stað fyrir nokkrum árum síðan. Ég vakti hins vegar á því athygli að þetta væri nú sem

óðast að breytast og undir þetta tók hv. þm. raunar í sínu máli og gerði að nokkru meginmáli í ræðu sinni þannig að mér virtist nú að eftir að hann hafði slegið fram að um misskilning væri að ræða af minni hálfu þá tæki hann undir þann málatilbúnað sem ég hafði hér uppi fyrr í dag.
    Ég held, svo að það fari ekkert á milli mála, að auðvitað hafi þessi áhugi verið til staðar og einnig í stjórnkerfinu eins og fram hefur komið rækilega í máli hæstv. utanrrh. En það breytir hins vegar ekki því að áhugi, við skulum segja útgerðarmanna, sjómanna, alls almennings í landinu, á því að nýta þessa miklu möguleika sem vissulega eru fyrir hendi og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur verið manna ötulastur að benda á, sá áhugi hefur því miður legið nokkuð niðri, einfaldlega vegna þess að við höfum verið á fullu að nýta þá möguleika sem eru til staðar í okkar eigin efnahagslögsögu. Núna þegar þeir möguleikar eru að þrengjast þá leita menn nýrra tækifæra, þeirra tækifæra sem fyrst og fremst bjóðast utan okkar efnahagslögsögu og þess vegna held ég að það sé mjög tímabært að sett er fram þáltill. af þessu tagi sem við erum hér að ræða og ég tel enga ástæðu til annars en um hana muni nást almennur og víðtækur stuðningur eins og fram hefur komið hér í þessu máli.
    Ég held þess vegna að það sé enginn misskilningur í þessu máli. Þetta er svona eins og ég var að lýsa þessu. Þetta blasir við hverjum manni og sem betur fer er vaxandi áhugi á því að við förum að nýta okkur möguleikana utan okkar efnahagslögsögu á hvaða sviði sem er.