Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:29:42 (87)

[12:29]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég held að það geti nú varla talist vottur um það að nefndur þjóðréttarfræðingur og sendiherra hafi verið útilokaður frá störfum þegar ljóst er að framganga hans á alþjóðavettvangi hefur verið með þeim ágætum sem við erum sammála um og reyndar hefur verið viðurkennt af fjölmörgum erlendum ríkjum. Við höfum fengið til að mynda frá kanadískum stjórnvöldum sérstakt lof á hans störf. En að því er sjútvrn. varðar þá var leitað til Guðmundar Eiríkssonar um álit á þeim viðfangsefnum sem hér voru nefnd. Það hefur aldrei komið fram af hálfu okkar ráðuneytis að útiloka á nokkurn hátt umfjöllun eða álitsgerðir frá honum.