Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:43:41 (92)

[12:43]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. sjútvrh. virðist vera nokkuð viðkvæmur fyrir þessu máli og ég er ekkert hissa á því. Íslenskir útgerðarmenn, sem þarna eiga hlut að máli, hafa nefnilega gagnrýnt hann harðlega fyrir það hvernig að þessu hefur verið staðið. Það hefur ekki verið rétt að þessu staðið. Hvers vegna í ósköpunum þurfti að loka þessu svæði svona langan tíma? Hvers vegna mátti ekki skoða svæðið öðru hvoru með það fyrir augum að opna það ef þarna væru á ferðinni breytingar á þeirri fiskgengd sem væri á svæðinu? Það hafa verið mjög örar breytingar á fiskgengd á þessu svæði. Og það hefur komið fram þann stutta tíma sem íslenskir útgerðarmenn hafa verið að nýta svæðið að þarna eru einmitt þannig aðstæður að það getur breyst á milli daga hvað mikið af smáfiski kemur í aflanum. Og það að neita mönnum um að svæðið verði skoðað með styttra millibili það finnst mér ekki vera upp á bjóðandi. Að loka þessu svæði allan þennan tíma þýðir að það er búið að útiloka nýtingu þess á þessu ári. Það hefur örugglega verið gert með fullu ráði geri ég ráð fyrir. Ég er andvígur því, en ég er ekki að mæla með smáfiskadrápi. Hæstv. sjútvrh. hefur kannski tekið eftir því að það var verið að kanna afla úr tveimur íslenskum skipum í Þýskalandi í fyrradag. Hvað kom út úr því? Annað skipið var með afla úr Smugunni og það var nánast allt stórfiskur sem þar var landað en hitt skipið var með afla af Vestfjarðamiðum og smáfiskur var 60 eða 70% í þeim afla. Þannig að það getur vel verið að það sé ástæða til að huga að smáfiskadrápi annars staðar en í Smugunni. Því miður er nú ástandið þannig hjá okkur að við göngum býsna nærri okkar fiskstofnum með því að drepa smáan fisk.
    Ég mótmæli því sem hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan, ég er ekki að mæla með smáfiskadrápi, en ég er að krefjast þess að íslensk stjórnvöld sýni ábyrgð og fari varlega í þessu máli.