Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 12:46:04 (93)

[12:46]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er rétt að árétt það að að undanförnu hefur verið gripið til mjög róttækra og mikilla lokana á veiðisvæðum innan okkar lögsögu. M.a. fyrir frumkvæði Landsambands íslenskra útvegsmanna sem hafði með sérstöku bréfi til sjútvrn. óskað eftir því að gripið yrði til varanlegri lokana þannig að sjómenn og útgerðarmenn þyrftu ekki í jafnríkum mæli og verið hefur að búa við þá óvissu sem vikubundnar skyndilokanir Hafrannsóknastofnunar eðlilega valda þegar mjög mikið er um smáfisk á miðunum. Í ljósi þessa og með hliðsjón af þeim aðstæðum sem eru í hafinu kringum landið var gripið til mjög mikilla ráðstafana. Og það er ekkert óalgengt að það komi mótmæli frá sjómönnum þegar verið er að loka hólfum og veiðisvæðum. Býsna eðlilegt að mótmæli komi fram. En okkur ber skylda til að framfylgja íslenskum lögum og stuðla að verndun fiskveiða með því að koma í veg fyrir smáfiskadráp. Það er ekki aðeins íslensk lög sem mæla á um það. Við erum skuldbundnir til þess samkvæmt hafréttarsáttmálanum að koma í veg fyrir smáfiskadráp. Sú ákvörðun sem tekin var um lokun þessa litla svæðis í Smugunni sem er nú mjög lítill hluti af svæðinu öllu er í fullu samræmi við ákvarðanir sem teknar hafa verið innan íslenskrar landhelgi og byggð á fjölmörgum mælingum íslenskra og norskra eftirlitsmanna sem vísuðu allar til sömu niðurstöðu. Og það væri alveg fráleitt að ætla að fara að taka ákvörðun um lokun veiðisvæða eftir fréttaskeytum um landanir íslenskra skipa erlendis. Þá fyrst færu þessi mál nú algerlega úr böndunum ef stjórnvöld ættu að fara að byggja ákvarðanir sínar um lokun veiðisvæða á slíkum fréttaskeytum. Og ég vona að það sé ekki afstaða Alþb. að það eigi að taka upp slíkt stjórnleysi við verndunaraðgerðir innan íslenskrar lögsögu.