Launagreiðslur til hæstaréttardómara

8. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 13:32:40 (100)

[13:32]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Við þekkjum öll hér í þingsalnum þá sögu að þegar Kjaradómur kvað upp á sínum tíma úrskurð um verulegar hækkanir til þeirra aðila sem heyra undir Kjaradóm, taldi ríkisstjórn Íslands nauðsynlegt að setja sérstök bráðabirgðalög til þess að eyða þeim dómi. Þau bráðabirgðalög voru síðan staðfest hér á Alþingi. Í kjölfar bráðabirgðalaganna kvað Kjaradómur á ný upp úrskurð þar sem sagði alveg skýrt, að frá og með gildistöku hans skyldu launahækkanir til þeirra sem heyra undir Kjaradóm eingöngu vera hinar sömu og til allra annarra landsmanna eða 1,7%.
    Nú hafa hins vegar síðustu daga og fram kemur að nokkru leyti í greinargerð fjárlagafrv. verið að berast þær fréttir að dómarar við Hæstarétt hafi einir manna sem heyra undir Kjaradóm á þessum tíma verið að fá umtalsverða launahækkun. Launahækkun sem birtist á þann veg að þeim eru greiddir með reglulegum hætti 48 yfirvinnutímar á mánuði. Þetta jafngildir um það bil 40% raunverulegri launahækkun til dómara við Hæstarétt.
    Í Tímanum í dag er hæstv. forsrh. Davíð Oddsson spurður að því með hvaða hætti hann réttlæti það að forsrn. sem Hæstiréttur heyrir undir, hafi samþykkt þessar greiðslur. Svar hæstv. forsrh. er á þá leið að þetta hafi ekki verið ákvörðun forsrh., þetta hafi verið ákvörðun réttarins sjálfs, eins og segir orðrétt. Síðar í þessari frétt í dag kemur fram að varaforseti Hæstaréttar, Hrafn Bragason, lýsir því skýrt yfir með leyfi forseta: ,,Það er óeðlilegt að nokkur annar taki hana. Það er vegna þess að dómstólar í landinu eiga að vera sjálfstæðir og óháðir framkvæmdarvaldinu og lagasetningarvaldinu.`` Og síðan segir hann einnig: ,,Dómsvaldið sjálft á að taka af skarið með aukavinnu.``
    Þessar yfirlýsingar og þessi atburðarás er satt að segja öll með svo miklum eindæmum að það er ekki hægt annað en kveðja sér hljóðs þegar í stað á Alþingi og spyrja hæstv. starfandi forsrh., sem að þessu sinni er hæstv. fjmrh. sem gegnir embætti forsrh. í fjarveru hans, um þetta mál og ber vel við að sami maðurinn, fjmrh. og starfandi forsrh., sitji hér fyrir svörum.
    Það virðist blasa við að Hæstiréttur Íslands hafi gerst sjálftökuaðili með kauphækkun sér til handa og varaforseti réttarins réttlætir það með þeim hætti að dómurinn eigi sjálfur að ákveða það. Þetta er rangt. Það er ekkert í lögum Íslands sem segir að dómarar við Hæstarétt ákveði sín eigin laun. Þvert á móti heyrir Hæstiréttur eins og nokkrir aðrir aðilar í þjóðfélaginu undir Kjaradóm. Dómsvaldið í launum hæstaréttardómara er hjá Kjaradómi. Það er ekki hjá Hæstarétti sjálfum. Og menn sjá hve fáránlegt þetta kerfi

væri ef forseti þingsins sendi einfaldlega bréf til forsrh. og tilkynnti um yfirvinnugreiðslur þingmanna og forsrh. vísaði því beint til fjmrn. með sömu rökum og gert er í þessu máli. Hæstiréttur Íslands er ekki sérstakur aðili í þessum efnum. Það gilda ekki sérlög um Hæstarétt Íslands í þessu landi og allra síst þegar talið var nauðsynlegt að setja bráðabirgðalög um þessi mál á sínum tíma. Hæstiréttur Íslands er eini aðilinn sem er að skjóta sér undan þeim ákvörðunum.
    Ég vil því spyrja hæstv. starfandi forsrh. og fjmrh. í fyrsta lagi hvort honum finnist eðlilegt að Hæstiréttur úrskurði sjálfur greiðslur sínar með þessum hætti eins og fram kemur í yfirlýsingu varaforseta réttarins og hvort Hæstiréttur sé þar með kominn undan áhrifavaldi Kjaradóms.
    Í öðru lagi vil ég spyrja að því hvort einhverjir aðrir aðilar hafi fengið breytingar á sínum kjörum en hæstaréttardómarar síðan bráðabirgðalögin voru sett á sínum tíma.
    Í þriðja lagi vil ég spyrja ráðherrann um álit hans á áhrifum þessarar ákvörðunar á aðrar launagreiðslur í því kerfi sem heyrir undir Kjaradóm.
    Í síðasta lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki reiðubúinn að beita sér fyrir því að þessi ákvörðun verði afturkölluð þannig að Hæstiréttur í landinu starfi með eðlilegum hætti en ekki sé verið að festa hér í sessi það sem ég vil kalla ólöglega og ósiðlega sjálftöku Hæstaréttar á eigin launum.