Launagreiðslur til hæstaréttardómara

8. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 13:37:51 (101)

[13:37]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við ýmsum fyrirspurnum hv. 8. þm. Reykn. vil ég taka fram að í bréfi dags. 28. júlí 1992 til forsrh. sem forseti Hæstaréttar ritaði, segir forseti Hæstaréttar að í forsendum Kjaradóms sem upp var kveðinn 12. júlí 1992 komi fram atriði sem gefi til kynna að ætlunin sé að laun séu greidd eins og áður hafði tíðkast þannig að ekki sé útilokað að greiða yfirvinnu til svokallaðra kjaradómsmanna.
    Síðar í bréfinu er lýst ráðagerðum um aukin vinnuafköst þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Nú í haust eru uppi ráðagerðir um enn aukin vinnuafköst með því að fjölga munnlega fluttum málum í 10 á viku. Fjöldi þeirra hefur þó tvöfaldast á stuttum tíma, en hafa verður þó í huga að fjölgunin er eingöngu í þriggja dómara málum.``
    Þarna er um að ræða ákvörðun réttarins um aukin vinnuafköst og meiri yfirvinnu. Og loks segir í bréfinu, með leyfi forseta, orðrétt:
    ,,Óhjákvæmilegt er að Hæstiréttur greiði laun fyrir unna yfirvinnu í samræmi við ofanskráð frá og með september nk. Er þess því hér með óskað að forsrn. afli aukafjárveitingar vegna þessa, svo og að tekið verði tillit til þessa við gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár.
    Greiðslur samkvæmt þessu mundu nú nema 808 þús. kr. á mánuði. Þess er jafnframt óskað að fjmrn. verði tilkynnt um þessa breytingu svo að það geti gert viðeigandi ráðstafanir. Yfirvinnureikningar munu verða sendir mánaðarlega nema fjmrn. vilji hafa annan hátt á``.
    Þess skal getið að ekki taka allir hæstaréttardómarar þessi laun og ég vil taka fram að Þór Vilhjálmsson gerir það ekki.
    Eins og fram kemur í þessu þá er málaleitun til forsrh. eingöngu sú að óska eftir aukafjárveitingu fyrir 1992 og fjármunum á fjárlögum yfirstandandi árs.
    Hinn 5. okt. á sl. ári barst síðan fjmrn. afgreiðslutilkynning. Fjmrn. sneri sér til forsrn. og það er síðan í febrúar á yfirstandandi ári sem þessar greiðslur hafa farið fram. Þær ná til 1. sept. 1992 og það verður aflað heimilda með fjáraukalögum sem lögð verða fyrir eða frv. sem lagt verður fyrir þingið núna á næstu dögum.
    Fyrirspurnin er á þá leið hvort það sé eðlilegt að Hæstiréttur úrskurði greiðslur fyrir sína vinnu. Hér er um að ræða ákvörðun um yfirvinnu. Það breytir ekki því að þeir tilheyra þeim hópi manna sem taka laun samkvæmt kjaradómsúrskurði. Það liggur alveg ljóst fyrir.
    Í öðru lagi var spurt að því hvort aðrir hefðu fengið slíkar launabreytingar. Það hefur ekki gerst svo að ég viti.
    Í þriðja lagi er spurt hvaða áhrif þetta hafi á aðrar launagreiðslur sem undir Kjaradóm heyra. Það hefur ekki áhrif, en það skal tekið fram að nú eins og áður eru það mjög margir menn sem taka laun samkvæmt kjaradómsúrskurði sem njóta yfirvinnu og það þekkir hv. þm. auðvitað mjög vel sem áður var fjmrh.
    Í fjórða lagi er spurning, hvort þetta verði afturkallað. Það stendur ekki til. Hins vegar vil ég geta þess í lokin að með nýjum lögum sem Alþingi samþykkti á síðasta þingi kemur mjög skýrt fram að Kjaradómur á að úrskurða í tvennu lagi laun þeirra manna sem undir dóminn heyra, þ.e. í fyrsta lagi dagvinnuþátt launanna og í öðru lagi yfirvinnuþátt þeirra. Um leið og nýr dómur fellur þá ætti ágreiningur eins og hér er verið að ræða um og mismunandi sjónarmið að verða úr sögunni.
    Ég vona, virðulegur forseti, að þetta sem ég hef sagt skýri það hvernig á þessum greiðslum stendur og hver er aðdragandi málsins.