Launagreiðslur til hæstaréttardómara

8. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 13:50:23 (105)

                [13:50]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Áður en ég kem að svörum hæstv. fjmrh., starfandi forsrh., vil ég segja við þann fulltrúa Kvennalistans sem hér talaði áðan, hv. þm., að ég er algerlega ósammála henni eða Kvennalistanum um það að hæstaréttardómarar séu ekkert ofsælir af sínum launum. Hæstaréttardómarar búa nefnilega nú þegar við mjög góð launakjör. Þeir hafa einir ásamt forseta Íslands þann rétt að frá því að þeir ljúka störfum halda þeir fullum mánaðarlaunum sínum til æviloka og það hefur færst æ meira í vöxt að hæstaréttardómarar hafa hætt í réttinum í fullu fjöri, kringum sextugt, og halda þar með mánaðarlaunum jafnvel í áratugi. Og ég hugsa að það séu nokkuð mörg dæmi um það að menn starfa í réttinum í kringum 10 ár eða svo en halda síðan fullum mánaðarlaunum í 20 ár eða jafnvel lengur þar á eftir. Nú eru um 9 fyrrv. hæstaréttardómarar í landinu sem búa við þessi einstæðu kjör. Það er þess vegna rangt að hæstaréttardómarar á Íslandi búi ekki við góð launakjör. Þeir búa við mjög góð launakjör að geta til æviloka verið á fullum mánaðarlaunum sem nú eru í kringum 250 þús. eftir jafnvel bara í kringum 10 ára starf í réttinum.
    Það er satt að segja mjög sérkennilegt að fá það upplýst hér og það er sjálfsagt alveg rétt með farið hjá hæstv. ráðherra, að forseti Hæstaréttar hafi í bréfi til forsrh. farið að túlka Kjaradóm hæstaréttardómurum í hag. Þannig að hæstaréttardómarar, forseti Hæstaréttar er farinn að gerast dómari í hagsmunamálum hæstaréttardómaranna sjálfra með því að senda bréf til forsrh. þar sem hann er að lesa í úrskurð Kjaradóms möguleika hæstaréttardómara til þess að auka tekjur sínar með þessum hætti. Það segir alveg skýrt í úrskurði Kjaradóms sem enn er í gildi og kveðinn var upp 12. júlí á sínum tíma. Með leyfi forseta, verður ekki annað séð en fyrri launakerfum, þ.e. launakerfi Kjaradóms og launaákvörðun fjmrn. og annarra ráðuneyta sem í gildi voru fyrir kjaradómsúrskurðinn 26. júní sl., sé ætlað að haldast enn um sinn. Og hvernig forseti Hæstaréttar getur farið að lesa inn í þennan úrskurð tekjuauka fyrir Hæstarétt einan er satt að segja svo furðulegt að maður á varla orð til að lýsa undrun sinni yfir hvað er eiginlega að gerast hér í stjórnkerfinu.
    Virðulegi forseti. Tími minn er liðinn. Ég vil hins vegar endurtaka þá ósk mína til hæstv. ráðherra að það sé íhugað í alvöru og með miklum þunga í ljósi þessa máls og hvernig það er tilkomið að sú ákvörðun forsrn. að samþykkja þessa sjálftöku Hæstaréttar verði afturkölluð. Það er ekki við það unandi að Hæstiréttur taki dómsvald í eigin málum í sínar hendur með þessum hætti. Það er brot á grundvallarreglum réttarkerfisins og siðferðiskerfisins í þessu landi.