Húsnæðisstofnun ríkisins

8. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 14:13:12 (110)

[14:13]
     Flm. (Margrét Frímannsdóttir)(frh.) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir það auðvitað slæmt að hæstv. félmrh. skuli ekki vera komin hér í salinn en vonandi er hún væntanleg.
    Ég mæli hér fyrir frv. til laga sem flutt er á þskj. 4 um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993. Frv. þetta er aðeins tvær greinar. Í 1. gr. er lagt til að við fyrri mgr. 11. gr. laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins bætist nýr töluliður er orðist svo:
    4. Lán til endurbóta eða útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. 2. gr. er gildistökuákvæði, að lög þessi öðlist þegar gildi.
    Í 11. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins er tilgreint hverjir geti notið láns úr Byggingarsjóði ríkisins. Með frv. þessu er lagt til að við greinina bætist nýr töluliður er feli í sér heimild handa sjóðnum til að veita jafnframt lán til endurbóta eða útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði.
    Í eldri lagaákvæðum um Húsnæðisstofnun ríkisins var gert ráð fyrir að Byggingarsjóður ríkisins gæti veitt lán til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Það ákvæði var fellt brott með lögum nr. 70/1990. Rökin fyrir því að fella heimildina brott voru þau að lánsumsóknir vegna þessa væru afar fáar og álit manna að þær féllu innan ramma laganna annars staðar eftir breytingar.
    Ákvörðun þessi sætti á sínum tíma töluverðri gagnrýni og efasemda gætti meðal hv. þm. um að þetta væri rétt. Það hefur síðan komið í ljós að ekki hefur reynst unnt að afgreiða allar umsóknir sem borist hafa vegna endurbóta eða útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Ástæða þess er sú að lagaheimildir vantar. Vegna þessa liggja óafgreiddar lánsumsóknir hjá Húsnæðisstofnun ríkisins eða þeim hefur verið hafnað. Þetta eru lánsumsóknir sem ekki er með nokkru móti hægt að fella undir lögin um félagslegt húsnæði og þar sem ekki er um nægjanlegar tekjur að ræða til þess að viðkomandi umsækjandi eigi lánsrétt í húsbréfakerfinu. Hér er t.d. átt við nokkra ábúendur lögbýla sem ekki falla innan ramma núverandi lánakerfis. Þeir sem geta sótt um lán til félagslegra íbúða eru sveitarfélög eða félagasamtök. Þar hafa framkvæmdaaðilar kaupskyldu og síðan forkaupsrétt þegar til endursölu íbúða kemur. Ekki er mögulegt samkvæmt núgildandi reglum að veita félagslegt íbúðalán vegna lögbýla vegna þess að þar fylgir jörðin með. Reglur um innlausnir og endursölu koma í veg fyrir að hægt sé að byggja félagslega íbúð á eignarjörð eða bújörðum. Því situr efnalítið fólk sem býr á lögbýlum eða bújörðum ekki við sama borð og þeir sem búa í sveitarfélögum, kaupstöðum eða hér í borginni og eiga rétt á lánum í félagslega húsnæðiskerfinu. Ég þekki dæmi þess að ungt fólk sem býr í lélegu húsnæði á lögbýli getur ekki byggt nýtt húsnæði eða endurbætt núverandi íbúðarhúsnæði vegna þess að það á engan lánsrétt.
    Árið 1985 festu ung hjón í Skaftárhreppi kaup á jörð ásamt mannvirkjum sem tilheyra jörðinni. Þar með er talið lítið íbúðarhús sem byggt var árið 1933 og var því eðlilega orðið frekar lélegt. Í óveðrinu í febrúar 1991 skemmdist íbúðarhúsið mjög illa svo ekki hefur verið búið í því síðan nema yfir sumarmánuði. Heilbrigðisnefnd Skaftárhrepps hefur skoðað og metið húsnæðið og skilað greinargerð. Í niðurstöðu þeirrar greinargerðar kemur fram að húsið er við núverandi aðstæður með öllu óíbúðarhæft og að viðgerð borgar sig ekki. Ungu hjónin sem eiga þrjú börn eru illa stödd. Þau hafa sótt um lán til Húsnæðisstofnunar. En þar sem þau búa á lögbýli hefur ekki verið hægt að afgreiða umsókn þeirra jákvætt. Skaftárhreppur hefur einnig sótt um lán til að byggja félagslega kaupleiguíbúð á jörðinni sem ekki er heldur hægt að verða við af þeim ástæðum sem ég nefndi áðan. Jörðin fylgir húsinu og getur ekki fallið undir lög um úthlutun í félagslega kerfinu. Sveitarstjórnin sendi greinargerð með umsókn sinni til Húsnæðisstofnunar árið 1992. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Vegna þekktra aðstæðna í hefðbundnum greinum landbúnaðar hafa tekjur fjölskyldunnar af búrekstrinum verið lágar hingað til en með því að stunda tilfallandi atvinnu samhliða hefur þeim tekist að standa við allar sínar skuldbindingar. Jörðin býður hins vegar upp á marga vannýtta möguleika til fjölbreyttari búskapar sem aukið geta tekjur þeirra í framtíðinni. Í því sambandi má nefna skógrækt, leigu eða sölu sumarbústaðalóða og lax- og silungsveiði. Takmarkaðar tekjur af búinu hingað til gera það hins vegar að verkum að möguleikar þeirra til lána úr almenna húsnæðislánakerfi ríkisins eru ófullnægjandi. Fram til ársins 1990 gafst sveitarfélögum í landinu kostur á hagstæðum lánum til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Fjölmörg dæmi eru um að slík lán hjálpuðu fólki í svipaðri aðstöð og að framan er lýst. Með lögum nr. 70/1990 var þessi lánaflokkur hins vegar felldur niður og svo virðist sem ekkert hafi komið í staðinn fyrir þá aðila sem búa utan þéttbýlisstaða og þarfnast sérstakrar fyrirgreiðslu. Íbúðarhúsnæði á nokkrum bújörðum í Skaftárhreppi er enn með þeim hætti að miðað við nútímaþarfir verða þar naumast eðlileg kynslóðaskipti nema þeim sem við taki gefist kostur á lánafyrirgreiðslu líkt og öðrum með sambærilegum tekjumöguleikum. Hver sveitarstjórn hlýtur að telja hagsmunum síns sveitarfélags best borgið með því að ungt fólk vilji búa þar. Skiptir þá ekki máli hvort fólk kýs að búa í þéttbýli eða á bújörð sem veitt getur viðunandi afkomu. Sveitarstjórn Skaftárhrepps skorar því á Húsnæðisstofnun ríkisins að taka tillit til erfiðra aðstæðna fjölskyldunnar sem að framan er getið og veita Skaftárhreppi lán til byggingar félagslegrar kaupleiguíbúðar á jörðinni og með því að gera þeim kleift að búa þar áfram. Jafnframt er óskað eftir því að málið fái skjóta afgreiðslu vegna eðlis síns.``
    Þetta erindi sveitarstjórnar Skaftárhrepps var afgreitt neikvætt vegna þess að hvergi er heimild í lögum til að veita slík lán vegna lögbýla. Sveitarfélögum ber að sjá til þess að íbúar þess séu ekki á götunni og því hefur Skaftárhreppur leitað allra leiða til að leysa húsnæðisvanda þessa fólks sem hér um ræðir. Ekki þýddi að leita eftir húsbréfum, efnahagur fólksins leyfði það ekki. Félagslega húsnæðiskerfið, hugsað til að mæta húsnæðisþörf þeirra efnaminni í þjóðfélaginu, hentaði þeim ekki. Það þekkja allir þann samdrátt sem orðið hefur í landbúnaði og kjör bænda hafa skerst verulega á nokkrum undanförnum árum. Sérstaklega bitnar þessi niðurskurður illa á ungu fólki innan bændastéttarinnar sem hefur nýhafið búskap. Margir bændur tilheyra nú þeim tekjulága hópi fólks sem félagslega húsnæðiskerfið er hugsað fyrir. En samt eiga þessir bændur ekki rétt til lána samkvæmt því. Hér áður mátti leysa vanda þessa fólks í gegnum almenna húsnæðiskerfið með hagstæðum lánum sem fengust til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. En eins og fram hefur komið voru heimildir til slíkra lána felldar út úr lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins og það hefur verið þrautreynt af hálfu sveitarstjórnar Skaftárhrepps að nýta félagslega kerfið til að aðstoða það fólk

sem hér hefur verið nefnt.
    Í júní sl. ítrekaði sveitarstjórnin beiðni sína og sendi eftirfarandi bréf til stjórnar Húsnæðisstofnunar, með leyfi forseta:
    ,,Húsnæðisnefnd Skaftárhrepps í Vestur-Skaftafellssýslu þakkar fyrir lánveitingu húsnæðismálastjórnar til byggingar eða kaupa á einni félagslegri kaupleiguíbúð í Skaftárhreppi. Hér með óskar nefndin eftir því að húsnæðismálastjórn heimili að umrædd íbúð verði byggð á útmældri leigu- eða eignarlóð á jörðinni Hemru í Skaftártungu í um 30 km fjarlægð frá Kirkjubæjarklaustri. Húsnæðisnefnd setur þau skilyrði fyrir staðsetningu íbúðarinnar á þessum stað að húsið verði byggt úr léttu byggingarefni, timbri, og hannað með tilliti til þess að unnt verði síðar meir að flytja það á brott ef aðstæður kynnu að krefjast þess. Þessi ósk húsnæðisnefndar er fram borin vegna sérstakra aðstæðna þessarar fjölskyldu sem þarna býr og húsnæðisstjórn mun fullkunnugt um og fram koma í greinargerð með lánsumsókn Skaftárhrepps dags. 8. maí 1992.
    Það er von húsnæðisnefndar að erindi þetta fái skjóta afgreiðslu innan Húsnæðisstofnunar svo undirbúningur framkvæmda geti hafist hið allra fyrsta.``
    Þessu erindi var einnig neitað eins og hinu fyrra og húsnæðismálastjórn svarar bréfinu 2. sept. 1993 með eftirfarandi bréfi, með leyfi forseta:
    ,,Á fundi húsnæðismálastjórnar hinn 26. ágúst 1993 var tekið fyrir erindi yðar í bréfi dags. 29. júní 1993 um byggingu félagslegrar kaupleiguíbúðar á jörðinni Hemru í Skaftártungu. Einnig var lögð fram vegna þessa máls umsókn frá lögfræðideild stofnunarinnar. Á grundvelli þessarar umsagnar synjaði húsnæðismálastjórn erindi yðar. Þetta tilkynnist yður hér með.``
    Sú umsögn sem vitnað er í var send með bréfinu og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í bréfi oddvita Skaftárhrepps dags. 29. júní 1993 er þess farið á leit að húsnæðismálastjórn heimili að félagsleg kaupleiguíbúð verði byggð á jörðinni Hemru í Skaftártungu. Húsnæðisnefnd Skaftárhrepps hafði áður hlotið lánveitingu húsnæðismálastjórnar til einnar félagslegrar kaupleiguíbúðar í Skaftárhreppi. Húsnæðisnefnd setur þau skilyrði að húsið verði byggt úr léttu byggingarefni og að það verði flytjanlegt á brott ef aðstæður krefjast þess. Undirritaðir eru þeirrar skoðunar að það sé ekki í samræmi við anda laga um félagslegt húsnæði að byggja félagslegt húsnæði fyrir fyrirframákveðna fjölskyldu á jörð þeirrar fjölskyldu. Beiðnin er sérstök fyrir þá sök að skilyrði nefndarinnar hljóða á flytjanlegt hús. Að mati undirritaðra fellur þessi beiðni ekki að þeim grundvallarhugmyndum laganna að félaglegt húsnæði sé byggt með almenna þörf í sveitarfélaginu fyrir augum. Á stað þar sem það er vel staðsett til að þjóna því höfuðmarkmiði að hinn almenni borgari sem fellur undir heimildir laganna geti sótt um. Í 23. gr. reglugerðar nr. 46 1991 um félagslegar íbúðir og Byggingarsjóð verkamanna er skýrt kveðið á um skyldu húsnæðisnefndar til að auglýsa eftir umsóknum um félagslegt húsnæði þegar húsnæðismálastjórn hefur samþykkt lánveitingu og framkvæmdir eru hafnar. Með vísan til framanritaðs leggja undirritaðir til að beiðninni verði hafnað.`` Þetta er gert 20. júlí 1993 og undir þetta rita tveir lögfræðingar Húsnæðisstofnunar.
    Af þessu má augljóst vera að þau lög sem varða félagslega húsnæðiskerfið --- að fyrir þeim eru ekki allir jafnréttháir. Og efnalitlir bændur sem búa á lögbýlum hafa ekki sama rétt og þeir sem búa í sveitarfélögum, í kauptúnum eða hér í borginni. Þetta verður að laga. Eftir þeim upplýsingum sem hæstv. félmrh. gaf mér hér fyrir tæpu hálfu ári síðan var skipuð nefnd á vegum félmrh. sumarið 1992 til að skoða þessi mál sérstaklega. Þó ég hafi tiltekið hér ákveðnar umsóknir sem hafa borist Húsnæðisstofnun þá er vandinn stærri og það er um fleiri umsóknir að ræða sem ekki hefur verið hægt að afgreiða eða nú þegar hefur verið hafnað vegna þess að það er ekki heimild í lögum til að veita viðkomandi lán. Það var ekki ætlun við samþykkt þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins 1990 að mismuna fólki með þessum hætti og afar mikilvægt er að lánsrétturinn sé sá sami eða sambærilegur hvort sem búið er í dreifbýli eða þéttbýli. Vissulega má athuga hvort ekki sé hægt að breyta lögum um úthlutun lána í félagslega húsnæðiskerfinu til að bæta úr þessu. Eins og ég sagði hefur mér skilist að hæstv. félmrh. hafi skipað nefnd sem er að athuga þann möguleika. Við flm. þessa frv. leggjum hins vegar til að aftur verði tekin inn í lög um Húsnæðisstofnun ríkisins heimild til lána vegna endurbóta eða útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Mér er kunnugt um að umsóknir vegna þess hafa borist frá ábúendum lögbýla og þær er ekki hægt að afgreiða þrátt fyrir augljósa þörf. Því vona ég að hv. þm. og hæstv. ráðherra verði jákvæðir gagnvart þessu frv. og að það hljóti skjóta afgreiðslu. Kostnaður sem samþykkt þess hefði í för með sér yrði óverulegur því hér er aðeins um fáar umsóknir að ræða og eftir því sem mér er sagt hafa þær verið á bilinu 2--5 á ári og því hægt að afgreiða þær innan þess fjárlagaramma sem Húsnæðisstofnun hefur.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. félmn.