Jarðhitaréttindi

8. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 14:42:45 (114)

[14:42]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um jarðhitaréttindi. Mál þetta er flutt af þingmönnum Alþb. og er ég þar 1. flm. Þetta er gamall kunningi hér úr þingsögunni, búið að flytja á mörgum þingum þetta mál og það kemur hér fram með sama hætti og á síðasta þingi en þá fór það til iðnn. en var ekki afgreitt frá nefndinni.
    Hér er um afar stórt mál að ræða, stefnumarkandi málefni, sem hefur verið mjög brýnt mál frá því að því var fyrst hreyft á þingi 1982--1983 en þá kom þetta mál fram sem stjfrv. Síðan hef ég reynt að minna á það með endurflutningi á mörgum þingum og leitað samstarfs við ráðuneyti iðnaðarmála um að þoka málinu fram. Það hefur hins vegar ekki gefið þá raun enn sem komið er að málið fengi þinglega afgreiðslu og yrði lögfest. En nú er það brýnna en nokkru sinni fyrr að á þessu máli verði tekið, ekki síst vegna alþjóðlegra skuldbindinga sem Alþingi hefur sett þjóðina undir með samþykkt samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Segja má að þær auðlindir landsins sem búa í orkulindum þess, vatnsafli og jarðhita, séu á uppboðsmarkaði fyrir hvern sem er innan hins Evrópska efnahagssvæðis þegar um er að ræða lendur í einkaeigu eða með óvissa eignaraðild og verði hér ekki breyting á og sett skýr lög um sameign þjóðarinnar á þessum auðlindum þá mun þetta verða með því fyrsta sem leitað verður eftir að komast yfir af þeim sem réttindi fá til þess að bjóða í jarðeignir og land til jafns við Íslendinga verði samningur um EES staðfestur endanlega og verði ekki girt fyrir þetta með skýrri löggjöf af hálfu Íslendinga.
    Ég vil nefna það hér að iðnrh. sem sátu í Stjórnarráðinu eftir að ég fór þaðan hafa flestir í orði tekið undir nauðsynina á þessari lagasetningu, lagasetningu í þá átt sem hér er gerð tillaga um. Ég minnist orða Sverris Hermannssonar í þessu efni, Alberts Guðmundssonar um sama efni og reyndar komu molar af hans borði inn í iðnn. eitt sinn þegar nefndin var að fjalla um þetta frv. og gekk eftir því við ráðuneytið hvort þar væri eitthvað á leiðinni og ég held að ég geti haldið upptalningunni áfram. Viðbrögð jákvæð í orði en í raun ekkert á borði. Og það var síðast í lok síðasta þings sem einn af þeim þingmönnum Alþfl. sem nú hefur verið færður yfir í hinn pólitíska grafreit eða kosið sér legstað þar, seðlabankastjórinn Jón Sigurðsson, svaraði hér fyrirspurnum mínum um þetta efni og hvað væri að gerast á stjórnarheimilinu varðandi þessi mál. En þá, haustið 1992, lá fyrir á málaskrá þáv. ríkisstjórnar, hinnar sömu og nú situr, hið sama og lesa má í málaskránni sem fylgdi stefnuræðu hæstv. forsrh. á dögunum, að væntanlegt væri frá iðnrn. frv. til laga um auðlindir í jörðu og frv. til laga um virkjunarrétt fallvatna og frv. til orkulaga en öll þessi frumvörp snerta það mál sem hér er mælt fyrir og það mál sem næst er á dagskrá þessa fundar, frv. til laga um orku fallvatna og nýtingu hennar og um breytingu á vatnalögum. Og hæstv. iðnrh. sagði hinn 5. maí 1993 nokkuð um þetta efni. Ég vísa til þingtíðinda frá þeim degi þar sem rætt var um Evrópskt efnahagssvæði, breytinguna á lögum um Evrópskt efnahagssvæði í Alþt. 1992--93, 116. lþ. B.: Umr. 9903 og síðunum þar á eftir þar sem orðaskipti fóru fram um þetta mál. Og til að taka aðeins, með leyfi forseta, örstutt úr orðum ráðherrans, þá segir hann:
    ,,Ég hef látið semja um þetta efni frumvörp sem hafa verið lögð fram í ríkisstjórn og verið þar rædd ítarlega milli stjórnarflokkanna og af mönnum sem þeir hafa kvatt til. Ég þarf ekki að lýsa því hér í þinginu hversu mikilvægt þetta mál er og hversu vandasamt það er lögfræðilega, einkum vegna þess að réttarsaga Íslands er óvenjuleg meðal Evrópuríkja að því leyti að verulegir hlutar landsins voru ekki ótvírætt í eigu eins eða neins frá upphafi, þ.e. landnámið náði ekki til alls landsins og almenningar sem í upphafi Íslandssögunnar voru í eigu fjórðungsmanna hafa ekki fengið ótvíræðan stað í eignarréttarrófinu, ef þannig mætti að orði komast. Þetta eru mál sem mjög mikilvægt er að Alþingi sinni. Ég bendi á að það er einmitt á stefnu og starfsáætlun þeirrar ríkisstjórnar sem nú starfar að setja lög um þau atriði sem hér er um rætt, óháð samningunum um EES. Í samningunum um EES er að sjálfsögðu svigrúm til þess fram til loka árs 1995 að haga málum á þessu sviði eins og okkur hentar best því þau ákvæði samningsins sem þessi mál kynnu að snerta taka ekki gildi fyrr en um þau áramót. Ég tel það ákaflega mikilvægt eins og oft hefur komið fram að ótvíræður eignarréttur íslensku þjóðarinnar og fullveldisréttur okkar yfir náttúruauðlindum landsins verði staðfestur.``
    Síðan vitnar ráðherrann í orð utanrrh. sem hafði svarað fyrirspurnum mínum nokkru áður um þetta efni og segir: ,, . . .   þá munu frumvörpin tvö, sem ég ég hef

lýst og verið hafa til athugunar nú um nokkurt skeið, koma fram í haust. Það skal vel vanda sem lengi á að standa og þetta eru hvort tveggja hornsteinar landnýtingar og nýtingar auðlinda Íslands. Ég bið menn þess vegna að hafa nokkra biðlund með því að þessi frumvörp birtist . . .  `` o.s.frv.
    Fleira mætti rekja úr ræðum ráðherrans, úr orðaskiptum okkar um þetta efni. Ég veit ekki hvort ég á að leiða einhverjum getum að því hver staða þessara mála er nú. Enginn ráðherra er hér til svara. Ljóst var af máli fyrrv. iðnrh. að hann vísaði á fyrirstöðu innan Sjálfstfl. í þessu máli og það væri nú fróðlegt fyrir þann eina sjálfstæðisþingmann sem hér situr og hlýðir á umræður að leita eftir því, ef það hefur ekki verið gert, hver staða þessa máls er. Ég tala nú ekki um ef hv. þm. gæti upplýst okkur um það hver staða þessa máls er í þingflokki Sjálfstfl. og í ríkisstjórninni, máls sem búið er að lofa hér ár eftir ár, haust eftir haust, en ég á við hv. 13. þm. Reykv., Láru Margréti Ragnarsdóttur, sem er hér á þingfundi, en ég ætla henni ekki meiri hlut heldur en hverjum öðrum í þingflokki hennar að þessu leyti og það er auðvitað ráðherra þessara mála, Alþýðuflokksráðherrann, sem verður að svara fyrir um þetta mál sem er á hans ábyrgðarsviði.
    Ég vil alveg rætnislaust ræða þetta mál hér út frá almennum forsendum þess. Og ég vil vara Alþingi Íslendinga við að draga það lengur að taka á þessum málum og tryggja lögfestingu sem er í samræmi við grundvallarhagsmuni þjóðarinnar. Þetta á bæði við um það frv. sem ég hér mæli fyrir sem og mál nr. 18, frv. um orku fallvatna og nýtingu hennar og um breytingu á vatnalögum.
    Ég minni á það að fyrr á öldinni þegar hér voru formenn í þeim stjórnmálaflokkum sem þá voru stærstir, Bjarni Benediktsson og Ólafur Jóhannesson, báðir löglærðir menn, viðruðu þeir þær skoðanir oft hér á þingi og meira að segja í búningi þingmála að það bæri að lögfesta þjóðareign á þessum auðlindum. En einhverra hluta vegna, þrátt fyrir forustu þeirra í sínum flokkum, megnuðu þeir ekki að koma þessum málum fram, koma þeim í höfn. En það er hollt fyrir okkur að rifja það upp nú við aðrar aðstæður og breyttar aðstæður þegar þetta mál er komið í miklu víðara samhengi, orðið miklu afdrifaríkara fyrir þjóðina að fá stöðu sína skýrt markaða í lögum um eignar- og yfirráðarétt á þessum orkulindum, sem margir telja verðmætar auðlindir fyrir þjóðina í framtíðinni og dreg ég ekki í efa að svo er. Því heiti ég á þingmenn til liðs um þetta mál óháð flokkum. Þingflokkur Alþb. hefur margoft lýst sínum sjónarmiðum. Talsmenn Alþfl. hafa látið í veðri vaka að þeir séu þessu máli fylgjandi. Þeir hafa haft ráðuneyti iðnaðarmála frá 1987 samfellt og vísa fyrst og fremst til fyrirstöðu hjá samstarfsflokkum, ef ekki Framsfl. þá Sjálfstfl. nú hin seinni árin, og þetta gengur auðvitað ekki. Það verður að koma fram á Alþingi Íslendinga hver er vilji manna í þessum efnum. Þetta er eitt af stærstu málum þjóðarinnar um þessar mundir, ekki síst eftir þann óhappagerning sem lögfestur varhér á síðasta þingi með samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
    Ég legg til, virðulegur forseti, að þessu máli sem og hinu 18., sem ég sé ekki ástæðu til að gera sérstaka grein fyrir við þessa umræðu, það er efnislega hliðstætt þessu máli sem ég mæli hér fyrir, að þessum frumvörpum verði að lokinni umræðu vísað til hv. iðnn. Að sjálfsögðu er ég reiðubúinn til að ræða 18. málið sé þess óskað.