Málefni Seðlabankans

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 15:14:07 (118)

[15:14]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Nýtt fjárlagafrv. boðar niðurskurð á öllum sviðum í velferðarkerfinu. Sparnaður er ævinlega af hinu góða ef rétt er á málum haldið og flestir vilja stuðla að því að draga úr ofneyslu og sóun og fara vel með sameiginlega fjármuni okkar svo að allir megi þrífast í þessu landi. Til þess erum við kjörin á Alþingi Íslendinga. Það kemur því eins og löðrungur framan í landsmenn þegar kunnugt er að til þess að nýskipaður seðlabankastjóri komist utan af Seltjarnarnesi niður á Kalkofnsveg þurfi að kaupa undir hann 5 millj. kr. bifreið af almannafé. Ekki vekur þetta minni undrun þegar litið er á bifreiðaeign Seðlabanka Íslands sem er 10 bifreiðar alls eða sem hér segir:
    R-69072, Chevrolet Suburban, árgerð 1984, til seðlaflutninga eingöngu og það er elsta bifreiðin, hún er 10 ára gömul.
    R-8623, Range Rover Vogue, árgerð 1988.
    LT 719 Pajero Wagon, árgerð 1990.
    LO 484, Volvo 744 GLi, árgerð 1991.
    UL 331, Audi 100, árgerð 1992.
    Ofangreindar fjórar bifreiðar eru til bankaeftirlitsferða og eftirlits með seðlageymslum, til ýmissa verkefna fyrir bankann, fyrir bankastjórn og gestamóttöku, samkvæmt upplýsingum Seðlabankans.
    En þessar 5 bifreiðar duga ekki. Bankastjórar hafa eftirtaldar bifreiðar til einkanota:
    Jón Sigurðsson: SH 576, Cherokee Limited, árgerð 1993.
    Tómas Árnason: RW 533, Chevrolet Blazer S 10, árgerð 1991.
    Birgir Ísl. Gunnarsson: RR 838, Ford Explorer EB, árgerð 1991. ( Gripið fram í: EB.)
    Jóhannes Nordal: UH 890, Range Rover Vogue, árgerð 1989.
    Þórður Ólafsson --- mér er sagt að ég eigi að segja Four Runner en hérna stendur: 4 Runner 3000 i, árgerð 1991. Ég bið afsökunar ef framburður minn er ekki réttur.
    Alls eru þetta 10 bifreiðar af dýrustu gerð. Athygli vekur að Jóhannes Nordal er enn með bifreið sína til tímabundinna afnota. Eðlilegt hefði þó verið að Jón Sigurðsson tæki við henni.
    Rekstrarkostnaður bifreiðanna var árið 1992 5 millj. 6 þús. 296 kr. samkvæmt ársskýrslu bankans. En þrátt fyrir þessa myndarlegu bifreiðaeign var aðkeyptur akstur 3 millj. 396 þús. 39 kr.
    En þetta er aðeins einn hluti hins taumlausa fjárausturs Seðlabankans. Á sama tíma og fjárfestingar í almannaþágu dragast saman er bankinn að lyfta risi stórhýsis að Einholti 4 sem hýsir bóka- og myntsafn bankans. Ég hef áður bent á að bókasafn Seðlabankans ætti vitanlega að flytjast í Þjóðarbókhlöðu þar sem ágætt safn handbóka er auk þess í sjálfu Seðlabankahúsinu. En fréttir eru einnig um að Jóhannes Nordal og fráfarandi bankastjóri Tómas Árnason, sem lætur af störfum vegna aldurs um áramót, fái þar skrifstofur.
    Ástæða væri til að nefna fleira. Seðlabanki Íslands hefur um langt skeið keypt mikið safn listaverka svo að sérstakur listráðunautur starfar við bankann, frú Bera Nordal, forstöðumaður Listasafns ríkisins.
    Hæstv. forseti. Samkvæmt lögum ber ríkissjóður ábyrgð á öllum skuldbindingum Seðlabankans. Samkvæmt ofansögðu hef ég því leyft mér að spyrja hæstv. viðskrh.:
    1. Losnaði ekki bifreið forvera Jóns Sigurðssonar þegar hann lét af störfum?
    2. Ef svo er ekki, er þá sá bankastjóri sem kominn er á eftirlaun áfram í starfi og sé svo, hver eru starfskjör hans og eftirlaun?
    3. Er ætlunin að annar bankastjóri, sem lætur af störfum vegna aldurs um næstu áramót, starfi einnig við bankann? Hver verða starfskjör hans og eftirlaun?
    4. Er það rétt að þessum tveim fyrrv. bankastjórum séu ætlaðar skrifstofur í húsakynnum bankans og þá til hvaða starfa?
    Að lokum, frú forseti, úr því að mér endist tíminn: Hafi þingmenn ekki vitað það er rekstrarkostnaður Seðlabanka Íslands árið 1992, 608 millj. 407 þús. 254. kr. Á fjárlögum fyrir 1994 verða eftirtaldar stofnanir reknar fyrir sömu upphæð samtals: Tilraunastöð Háskólans að Keldum, Raunvísindastofnun Háskólans, Háskólinn á Akureyri, Tækniskóli Íslands og Verkmenntaskóli Austurlands.