Málefni Seðlabankans

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 15:47:17 (129)


[15:47]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Öll verðum við að sjálfsögðu að leika eftir þeim leikreglum sem okkur eru settar. Okkur eru settar leikreglur í lögum um Seðlabanka og lögum um viðskiptabanka og þar er það skýrt og skorinort tekið fram að það eru bankaráðin ein án afskipta viðskrh. sem taka ákvörðun um kaup og kjör bankastjóra. Og varðandi þær spurningar sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir beindi til mín eru það allt mál sem varða ákvarðanir bankaráðsins eins og mér er gersamlega ókunnugt um. Það eina sem ég veit er það að bankaráðið mun víst hafa heimilað Jóhannesi Nordal að hafa áfram afnot af þeirri bifreið sem hann hafði til afnota sem bankastjóri Seðlabanka Íslands. Það var ákvörðun bankaráðsins án vitundar og afskipta viðskrh.
    Einmitt þess vegna lýsti ég því yfir áðan að ég mundi kalla þann bankaráðsmann sem viðskrh. skipar, sem er formaður bankaráðsins, á minn fund og gera honum grein fyrir þeim umræðum sem hér hafa orðið. Með nákvæmlega sama hætti getur hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fengið allar þessar upplýsingar sem hann er að spyrja mig um frá bankaráðsmanni Alþb., Geir Gunnarssyni, fyrrv. alþingismanni. Hann á sæti í bankaráði Seðlabanka Íslands og mér er ekki kunnugt um annað heldur en hann standi að öllum þessum ákvörðunum sem hér hafa verið umdeildar. ( GHelg: Þetta er ekki rétt.) Og ég efa það ekki að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson mun með sama hætti kalla Geir Gunnarsson til skrafs og ráðagerða eins og ég mun kalla á formann bankaráðsins.
    Ég átti aðeins eftir að segja hvaða álit ég hefði á þeim málum sem hér eru til umræðu. Hér er ekki aðeins til umræðu bílakaupamál seðlabankastjóra heldur þau fríðindi, þar á meðal bifreiðafríðindi, sem forsvarsmenn lánastofnana og opinberra bankastofnana njóta og það fyrsta sem þarf að fá upplýst er hver eru þessi fríðindi. Það hef ég þegar farið fram á við stjórnir þessara stofnana, þar á meðal stjórnir viðskiptabankanna, að fá upplýst. (Forseti hringir.)

    Í öðru lagi finnst mér ekkert óeðlilegt að stjórnendur þessara stofnana taki til eftirbreytni þá reglugerð sem fjmrh. hefur sett um bílamál ráðherra því að ég sé ekki rökin fyrir því að forsvarsmenn stofnana ríkisins eigi að njóta rýmri hlunninda en ráðherrar íslenska ríkisins. (Forseti hringir.) En mig grunar að það sé svo farið ekki aðeins í bílamálum heldur e.t.v. einnig í öðrum þáttum eins og í dagpeningum á ferðalagi erlendis o.fl. og það væri kannski ástæða til að spyrja formann bankaráðs eins viðskiptabankans, sem hér situr, hvort svo sé.