Veiði togara innan 12 mílna landhelginnar skv. reglugerð nr. 402/1993

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 15:51:00 (130)

[15:50]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að ræða hér reglugerð nr. 402, en 2. gr. þessarar reglugerðar hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 21. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.``
    21. gr. laga sem vísað er til hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, með áorðnum breytingum, skulu veiðar með vörpu heimilaðar á vannýttum fisktegundum á ákveðnum svæðum samkvæmt reglum er ráðherra setur.``
    Mín fyrirspurn til ráðherra er ákaflega einföld: Hvaða vannýttu fiskstofnar eru það sem ætlunin er að veiða á þessum svæðum? Ég er með bréf frá Jakobi Jakobssyni, dags. 11. okt., þar sem hann segir svo:
    ,,Vísað er til beiðni þinnar varðandi upplýsingar um hvaða fisktegundir við Ísland séu ekki vannýttar. Enda þótt hugtakið ,,ekki vannýttar`` geti verið skilgreiningaratriði verður að telja að alla helstu fiskstofna á Íslandsmiðum sem veiddir hafa verið í verulegum mæli undanfarna tvo áratugi megi skilgreina sem ekki vannýtta. Er þá átt við það að afrakstur aukist ekki með aukinni sókn þegar til lengri tíma er litið.``
    Í bók Hafrannsóknastofnunar, fjölrit nr. 34, er listi yfir þessar fisktegundir. Þar eru 19 fisktegundir taldar upp og þar er að sjálfsögðu skarkoli einn af þeim sem eru á þessum lista. Það verður þess vegna ekki séð að ráðherra hafi haft lagaheimild til að setja þá reglugerð sem hér hefur verið sett nema hann geti bent á vannýtta fiskstofna sem eigi að veiða innan þessara svæða. Ég kalla þess vegna ákveðið eftir því að fá nöfnin á þeim fisktegundum, ella er hér um valdníðslu að ræða á þann hátt að það er verið að taka hefðbundið veiðisvæði frá smærri bátum og afhenda það stærri skipum til veiða á fisktegundum sem kvóti er á.
    Mér var falið af vestfirskum sjómönnum, mælst til þess, að reyna að hafa vit fyrir hæstv. ráðherra í þessum efnum. Mér þótti þetta lýsa svo mikilli trú að mig setti hljóðan. En auðvitað má reyna að hafa vit fyrir hæstv. ráðherra í þessum efnum. En ég vil líka minna hæstv. ráðherra á það að þingmenn úr röðum Sjálfstfl. hafa áður sett reglugerðir sem ekki standast að lögum og hlotið dóma fyrir. Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. óski ekki eftir því að komast á spjöld sögunnar með þeim hætti. Ég skora þess vegna á hæstv. ráðherra að leita til aðila utan ráðuneytisins, lögfróðra aðila sem hann treystir, til að meta þetta mál því að ég er sannfærður um það að ef þessi reglugerð verður ekki afturkölluð þá mun það kalla á málaferli.